Hoppa yfir valmynd
14. desember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 149/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 149/2016

Miðvikudaginn 14. desember 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. apríl 2016, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. janúar 2016 um samþykki á umsókn barnsmóður hans um milligöngu um meðlagsgreiðslur.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, móttekinni af Tryggingastofnun ríkisins 11. janúar 2016, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur með syni þeirra frá 1. janúar 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. janúar 2016, var kæranda tilkynnt um að umsókn barnsmóður hans um milligöngu um meðlagsgreiðslur hafi verið samþykkt frá 1. janúar 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2016. Með tölvubréfi 19. apríl 2016 óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. maí 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að samþykkja umsókn barnsmóður hans um milligöngu meðlagsgreiðslna frá 1. janúar 2016 verði endurskoðuð.

Í kæru segir að kærandi og barnsmóðir hans hafi gengið í hjúskap og eignast X börn. Fyrir um áratug síðan hafi þau slitið samvistum og gengið frá lögskilnaði. Kærandi hafi allar götur síðan greitt meðlag með báðum börnum þeirra og stutt við þau bæði eins og vera ber og sé forsjá barnanna sameiginleg. Á árinu 2013 hafi sonur þeirra flutt til kæranda og búið hjá honum um skeið á meðan hann hafi verið við nám. Þá hafi verið gerður samningur um breytingu á lögheimili og hafi sú breyting gengið hnökralaust fyrir sig. Drengurinn hafi svo flutt aftur til Íslands.

Á árinu 2014 hafi drengurinn óskað eftir því að flytja til C á nýjan leik og hafi það orðið raunin. Af því tilefni hafi verið gerður annar samningur um breytingu á lögheimili sem barnsmóðir kæranda hafi átt frumkvæði að. Kærandi hafi fyllt út eyðublað um lögheimilisflutning og staðið í þeirri trú að lögheimilið yrði fært. Sonur þeirra hafi komið til kæranda í júní 2015 og fljótlega hafið störf hjá […]. Þá hafi kærandi tekið eftir því að innheimta meðlags hefði ekki stöðvast, þrátt fyrir að sonur hans byggi hjá honum og gerður hafi verið samningur um lögheimilisbreytingu. Það virðast því vera aðrar ástæður en lögheimilisbreyting, mögulega að meðlagsgreiðslur hafi á þeim tíma verið teknar úr innheimtu að ósk barnsmóður hans, sem hafi gert það að verkum að kæranda hafi verið tilkynnt í október 2015 að meðlagsgreiðslur hefðu stöðvast. Það sé því ljóst að kærandi hafi greitt meðlag til barnsmóður sinnar, þrátt fyrir að sonur þeirra hefði sinn dvalarstað og atvinnu hjá kæranda í C í júní, júlí, ágúst og september 2015. Kærandi telji tilvik þetta falla undir 2. tölul., 3. tölul. og 5. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 þar sem fjallað sé um stöðvun greiðslna. Af þessu tilefni hafi kærandi komið á framfæri athugasemdum við barnsmóður sína en þær hafi ekki vakið nein viðbrögð.

Nokkrum mánuðum síðar hafi verið ákveðið að sonur þeirra myndi flytja aftur til Íslands og af því tilefni hafi verið gerður samningur um breytingu á lögheimili. Kærandi hafi fyllt hann út af sinni hálfu og samkvæmt samningnum hafi breytingin átt að taka gildi 1. febrúar 2016. Engin sérstök ástæða hafi verið fyrir þeirri dagsetningu önnur en sú að það hafi þótt sanngirnismál í ljósi framangreinds. Sonur þeirra hafi flutt aftur til Íslands í janúar 2016. Kærandi hafi staðið í þeirri trú að lögheimili hans hefði verið flutt í tvö skipti.

Eftir að kærandi hafi móttekið hina kærðu ákvörðun hafi hann grennslast fyrir um hvort lögheimilisbreytingin hafi átt sér stað samkvæmt áðurnefndum samningum. Þá hafi komið í ljós að hvorugum samninganna hafi verið komið til sýslumanns og engin breyting hafi því verið gerð á lögheimili drengsins líkt og samið hafi verið um. Það valdi kæranda ákveðnum áhyggjum að lögheimilisforeldri geti einhliða ákveðið að færa ekki lögheimili, þrátt fyrir að samið hafi verið um það. Telur kærandi að háttsemi barnsmóður hans gangi auk þess þvert gegn upplýsingaskylduákvæði 15. gr. reglugerðar nr. 945/2009. Í huga kæranda hljóti ákvæði 16. gr. reglugerðarinnar um ofgreiðslu og endurgreiðslu einnig að eiga við. Þá hafi það reynst kæranda þrautinni þyngra að útskýra fyrir yfirvöldum í C hvernig drengurinn geti verið skráður á tveimur stöðum á sama tíma.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að stofnuninni hafi borist umsókn barnsmóður kæranda 11. janúar 2016 ásamt staðfestingu á samkomulagi um lögheimili barns þeirra, dags. 19. mars 2013, þar sem fram komi að kærandi skuli greiða meðlag með syni þeirra frá 1. janúar 2013 til 18 ára aldurs.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að tólf mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við.

Um heimildarákvæði sé að ræða í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og því sé ekki um að ræða rétt umsækjanda um meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun aftur í tímann heldur heimild stofnunarinnar til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur aftur í tímann, þó aldrei lengra en eitt ár.

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 segi að þegar meðlagsákvörðun sé eldri en tveggja mánaða skuli einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn berist, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geti réttlætt greiðslur aftur í tímann, allt að tólf mánuði. Þá segi að með sérstökum ástæðum sé meðal annars átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Kærandi segi að sonur sinn hafi komið til hans í júní 2015 og verið hjá honum fram til janúar 2016 en lögheimili hans hafi aldrei verið flutt til C, þrátt fyrir útfylltar tilkynningar þar um. Hann hafi fengið tilkynningu í október 2015 um stöðvun milligöngu meðlagsgreiðslna. Kærandi sé ósáttur við upphafstíma milligöngu stofnunarinnar þar sem hann hafi fyllt út breytingu á lögheimili sonar síns frá 1. febrúar 2016. Þá sé hann einnig ósáttur við að meðlagsgreiðslur hafi ekki verið stöðvaðar fyrr þar sem sonur hans hefði komið til hans í júní 2015.

Mál þetta snúist um upphafstíma milligöngu meðlagsgreiðslna. Stöðvun á milligöngu meðlagsgreiðslna frá 1. september 2015 hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. ágúst 2015, og því sé kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar liðinn, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar.

Í úrskurði félags- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 16. febrúar 2010, segi að hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins sé eingöngu að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Leggi foreldri fram samkomulag um greiðslu meðlags, sem staðfest hafi verið af sýslumanni, beri stofnuninni að hafa milligöngu um greiðslu meðlags, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga. Lögin veiti stofnuninni ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Þá segi í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 466/2010 að stofnuninni beri skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun.

Í málinu liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun sem kveði á um meðlagsgreiðslur kæranda til barnsmóður hans. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður hans um meðlag frá 1. janúar 2016, móttekin 11. janúar 2016 hjá stofnuninni. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið, tilvitnuðum lagaákvæðum og fyrirliggjandi gögnum, hafi stofnuninni borið að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður hans frá 1. janúar 2016. Sambærileg niðurstaða hafi einnig verið í úrskurðum úrskurðarnefndar almannatrygginga í málum nr. 42/2012, 81/2013 og 334/2014.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. janúar 2016.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð með barni sem hann hefur á framfæri sínu snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar er stofnuninni heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að tólf mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við.

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Þann 11. janúar 2016 sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur með syni þeirra frá 1. janúar 2016. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli staðfests samkomulags Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 19. mars 2013, en samkvæmt því ber kærandi meðlagsskyldu vegna sonar þeirra frá 1. janúar 2013 til átján ára aldurs.

Kærandi hefur lagt fram eyðublaðið „samningur foreldra með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili barns“, dags. 6. janúar 2016, þar sem fram kemur að kærandi skuli greiða barnsmóður meðlag frá 1. febrúar 2016. Eyðublaðið er hins vegar einungis undirritað af kæranda og bera gögn málsins ekki með sér að samningur hafi verið afgreiddur af sýslumanni. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefnd að ekki komi til greina að leggja eyðublaðið til grundvallar við úrlausn þessa máls.

Í kæru gerir kærandi einnig athugasemdir við að barnsmóðir hans hafi fengið greitt meðlag vegna júní, júlí og ágúst 2015 þrátt fyrir að sonur þeirra hafi búið hjá honum á þeim tíma. Kærandi byggir á því að gerður hafi verið samningur á milli hans og barnsmóður hans um breytingu á lögheimili sonar þeirra vegna þessa sem barnsmóðir kæranda hafi átt frumkvæði að. Kærandi hafi fyllt út eyðublað um lögheimilisflutning og staðið í þeirri trú að lögheimilið yrði fært. Eyðublað þetta um breytingu á lögheimili er ekki meðal gagna málsins og verður því ekki á því byggt að fyrir liggi samningur um lögheimilisbreytingu. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi krafist stöðvunar á meðlagsgreiðslum sumarið 2015 á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga. Þessar málsástæður kæranda hafa því ekki þýðingu við úrlausn málsins.

Það liggur fyrir að barnsmóðir kæranda, meðlagsmóttakandi, lagði fram beiðni um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur 11. janúar 2016 á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Úrskurðarnefnd telur gögn málsins ekki benda til þess að breyting hafi orðið á þeirri ákvörðun. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. janúar 2016.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, frá 1. janúar 2016 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum