Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2014 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Tillögur um breytta flokkun vega í frumvarpi um breytingar vegalögum

Lagafrumvarp um breytta flokkun vega er nú til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis en Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpinu fyrir skemmstu. Breytingarnar snúast annars vegar um að innleiða tvær tilskipanir ESB vegna gjaldtöku á umferð og viðurlög við brotum og hins vegar um að breyta skilgreiningu á flokkun þjóðvega, um mat á vegstæðum og ábyrgð á viðhaldi vega.

Umhverfis- og samgöngunefnd óskaði eftir umsögnum sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtaka sveitarfélaga, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og ýmissa samtaka um frumvarpið. Hafa nokkrar umsagnir borist en umsagnarfresti er lokið fyrir nokkru.

Í framsöguræðu sinni sagði innanríkisráðherra að fyrirhugaðar breytingar á flokkun þjóðvega byggðust meðal annars á tillögum nefndar sem falið var að endurskoða vegalög og skilaði tillögum til ráðherra snemma á þessu ári. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar innanríkisráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk þeirrar nefndar var að fara yfir framkvæmd vegalaga varðandi flokkun vega en yfirfærsla á tilteknum vegum til sveitarfélaga hefur ekki komist að fullu til framkvæmda þar sem ágreiningur var um með hvaða hætti það skyldi gert.

Ráðherra rakti forsögu málsins í ræðu sinni og sagði meðal annar að við gildistöku vegalaga 1. janúar 2008 hefði verið gert ráð fyrir að um 1.000 km af tengivegum færðust í flokk héraðsvega og sveitarfélög tækju við viðhaldi þeirra. Af því hafi ekki orðið ekki og væru ástæður þess meðal annars þær að núgildandi vegalög hafi ekki verið kostnaðarmetin á þann hátt sem nú er mælt fyrir í tiltölulega nýsamþykktum sveitarstjórnarlögum. Breytingar sem rekja megi til tillagna nefndarinnar sagði hún meðal annars þær að um 230 km af vegum sem nú falla í flokk héraðsvega falli aftur í flokk tengivega, breytt verði skilgreiningu hugtaksins héraðsvegir og hlutverk vegaskrár verði skýrt. Þá er bætt við ákvæði um að Vegagerðin skuli nægilega tímanlega leggja fram mat á umferðaröryggi mismunandi kosta við vegalagningu til að skipulagsnefnd sveitarfélags geti tekið afstöðu til þess mats við mótun aðalskipulagstillögu.

Eftirlit með veggjöldum styrkt

Ráðherra sagði að í frumvarpinu væri sett stoð fyrir innleiðingu tilskipana en reglugerð væri í undirbúningi. Til að uppfylla kröfur um viðurlög væri nauðsynlegt að í vegalögum væri skýr heimild til að leggja sektir á lögaðila auk þess sem kveða þyrfti á um hvaða háttsemi geti varðað slíkum sektum. Heimild sem þessa er ekki að finna í núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir því að sett sé ákveðið hámark á sektarfjárhæð.

Á myndinni eru nefndarfulltrúarnir frá vinstri: Guðríður Arnardóttir, Guðjón Bragason, Sigurbergur Björnsson, Sigríður Auður Arnardóttir, Gunnar Gunnarsson, Hafdís Hafliðadóttir, Björn Freyr Björnsson og Rúnar Guðjónsson.

Nefnd um endurskoðun vegalaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira