Hoppa yfir valmynd
11. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 568/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 568/2020

Fimmtudaginn 11. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. nóvember 2020, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 15. apríl 2019 og var umsókn hans samþykkt. Í október 2020 bauðst kæranda starf hjá B við C en starfið var auglýst hjá vinnumiðlun stofnunarinnar. Vinnumálastofnun barst í kjölfarið upplýsingar um að kærandi hefði hafnað starfinu. Með bréfi, dags. 20. október 2020, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði. Skýringar bárust ekki og var kæranda með bréfi, dags. 3. nóvember 2020, tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 4. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Þann 17. og 23. nóvember 2020 sendi kærandi úrskurðarnefndinni tvö læknisvottorð vegna vinnufærni sinnar. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 11. desember 2020, ásamt ákvörðun stofnunarinnar frá 4. desember 2020 þar sem kæranda var tilkynnt að bótaréttur væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 þar sem hann hafi látið hjá líða að veita upplýsingar um skerta vinnufærni. Greinargerð Vinnumálastofnunar var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. desember 2020. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi sent tölvupóst 2. nóvember 2020 og greint frá ástæðunni fyrir því að hafa hafnað atvinnutilboði en hann hafi hafnað því af heilsufarsástæðum. Kærandi hafi fyrir nokkru síðan leitað á heilsugæslu þar sem læknir hafi ráðlagt honum að skipta um vinnu vegna þess að kærandi sé með ónýtt hægra hné. Læknirinn hafi ekki mælt með neinni erfiðisvinnu sem gæti reynt á hnéð.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að mál þetta varði 57. gr. og 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en í 1. mgr. 57. gr. laganna segi að hver sá sem hafni starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti skuli sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 13. gr. laga nr. 54/2006 komi fram almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Virk atvinnuleit launamanns sé eitt af þeim skilyrðum sem atvinnuleitandi þurfi að uppfylla til að geta talist tryggður samkvæmt lögunum, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist ekki reiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé lögð rík áhersla á upplýsingaskyldu atvinnuleitenda gagnvart stofnuninni. Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskylduna og í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitenda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Upplýsingaskylda atvinnuleitenda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknar þeirra um atvinnuleysisbætur. Þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað sé umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar með talið upplýsingar um persónulega hagi og vinnufærni. Umsækjendur þurfi í lok umsóknarferlis að staðfesta að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Þá hafi kærandi verið upplýstur með tölvupósti þann 23. apríl 2019 að honum bæri að tilkynna til Vinnumálastofnunar allar breytingar sem yrðu á högum hans, þar með talið veikindi. Upplýsingar um tilkynningarskyldu atvinnuleitenda sé einnig að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað starfi sem honum hafi verið boðið. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda sé hann með skerta starfsgetu og því ófær um að vinna umrætt starf. Þann 25. nóvember og 2. desember 2020 hafi borist læknisvottorð vegna vinnufærni kæranda. Í vottorði komi fram að kærandi geti ekki unnið mjög líkamlega krefjandi störf. Af vottorðinu megi ráða að um sé að ræða skerta vinnufærni kæranda sem honum hafi borið að upplýsa stofnunina um þá þegar við umsókn um atvinnuleysisbætur og óska eftir að stofnunin miðlaði honum í störf í samræmi við umsókn sína. Þvert á skýringar kæranda og þær upplýsingar sem komi fram í umsókn hans um atvinnuleysisbætur en þar komi meðal annars fram að kærandi sé almennt vinnufær.

Eins og áður hafi komið fram hvíli rík skylda á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi brugðist þeirri skyldu sinni með því að hafa ekki veitt nauðsynlegar upplýsingar um hagi sína og vinnufærni á því tímabili er hann hafi verið skráður í atvinnuleit hjá stofnuninni. Það hafi leitt til þess að kærandi hafi hafnað starfi sem stofnunin hafi mátt telja hann hæfan til að gegna, með hliðsjón af upplýsingum kæranda.

Í 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um þau tilvik þegar atvinnuleitandi láti hjá líða að veita upplýsingar eða tilkynna um breytingar á högum sínum. Í 1. mgr. ákvæðisins komi fram að hver sá sem láti hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.

Í ljósi skýrra ummæla kæranda og upplýsinga úr læknisvottorðum sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi sé ekki fær til flestra almennra starfa og hafi látið hjá líða að veita stofnuninni réttar og nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína. Því skuli hann sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í umsókn um atvinnuleysisbætur skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. skal hinn tryggði upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Þá segir í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., án ástæðulausrar tafar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun tilgreindi kærandi í umsókn um atvinnuleysisbætur að hann væri almennt vinnufær. Eftir að kærandi hafnaði starfi við C lagði hann fram læknisvottorð um skerta vinnufærni. Af vottorðinu sem Vinnumálastofnun barst 25. nóvember 2020, dags. 26. júní 2018, má ráða að kærandi hafi verið með skerta vinnufærni sem hafi verið tilkomin þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur á árinu 2019.

Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að þegar umsækjendur um atvinnuleysisbætur sæki um greiðslur bóta með rafrænni umsókn sé þeim kynnt margvísleg atriði er varða réttindi og skyldur, þar með talið upplýsingar um persónulega hagi og vinnufærni. Umsækjendur þurfi í lok umsóknarferlis að staðfesta að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi sín og skyldur.

Í tölvupósti Vinnumálastofnunar 23. apríl 2019 var kæranda bent á að upplýsa þyrfti um allar breytingar sem yrðu á högum hans, þar með talið veikindi. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um skyldur sínar, að honum bæri að tilkynna Vinnumálastofnun sérstaklega um skerta vinnufærni sína.

Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hann greindi ekki frá skertri vinnufærni sinni. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_________________________________

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum