Hoppa yfir valmynd
23. júní 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

88. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf

88. þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO)var haldið í Genf dagana 30. maí til 15. júní s.l. Mario Alberto Flamarique vinnumálaráðherra Argentínu var kjörinn forseti þingsins en sérstakur gestur þess var Jorge Fernando Branco de Sampaio, forseti Portúgal.

Á þinginu var umræða um skýrslu forstjóra ILO og formanns stjórnarnefndar ILO. Í skýrslu forstjóra stofnunarinnar, Juan Somavia, er lögð áhersla á að efnahagsleg og félagleg þróun verði að haldast í hendur og á aukið mikilvægi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á tímum tækniframfara og hnattvæðingar. Í því sambandi er m.a. bent á mikilvægi samstarfs ILO við aðrar stofnanir svo sem Alþjóðaviðskiptastofnunina, Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Fjölmargir ráðherrar tóku þátt í umræðunum.

Sérstök umræða var um skýrslu um framkvæmd grundvallarréttinda ILO um félagsfrelsi og um réttinn til að gera kjarasamninga sbr. samþykktir nr. 87 og 98. Þetta er fyrsta skýrslan sem gefin er út með þessu sniði og felur í sér eftirfylgni yfirlýsingar um grundvallarréttindi við atvinnu sem samþykkt var af Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1998.

Í nefnd sem fjallar um framkvæmd samþykkta og tilmæla í aðildarríkjunum var m.a. fjallað um samráð við aðila vinnumarkaðarins á grundvelli samþykktar nr. 144 frá 1976, um samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála. Þá var fjallað sérstaklega um alvarleg brot 24 ríkja á samþykktum ILO. Í þremur tilvikum var ríkjum veitt sérstök ábending og þeirra getið í sérstökum hluta skýrslu nefndarinnar. Þetta var gert í málum Kamerún og Venesúela vegna brota á samþykkt nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess og í máli Súdan vegna brota á samþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu.

Á þinginu fór fram síðari umræða um endurskoðun samþykktar nr. 103 (1952) um mæðravernd og tilmæla nr. 95 um sama efni. Samþykktin og tilmæli sem fylgja henni voru afgreidd af allsherjarþinginu. Um er að ræða nýja samþykkt sem felur í sér margvísleg réttindi mæðra í tengslum við þungun og fæðingu.

Nefnd um menntun og starfsþróun starfsmanna skilaði skýrslu til allsherjarþingsins þar sem m.a. var lagt til að tilmæli ILO nr. 150 frá 1975 um menntun og starfsþróun starfsfólks verði endurskoðuð í samæmi við áherslur nefndarinnar á þessu sviði.

Fyrsta umræða fór fram í sérstakri nefnd um nýja samþykkt um öryggi og hollustu í landbúnaði. Á allsherjarþinginu var samþykkt tillaga nefndarinnar um texta, en málið verður til annarrar umræðu á Alþjóðavinnumálaþinginu árið 2000.

Á allsherjarþinginu var samþykkt tillaga nefndar um að fella úr gildi nokkrar úreltar samþykktir ILO. Þessar samþykktir eru nr. 31 (1931) um vinnutíma kolanámumanna, nr. 46 (1936) sem er endurskoðuð samþykkt um vinnutíma kolanámumanna, nr. 51. (1936) um fækkun vinnustunda, nr. 61 (1937) um fækkun vinnustunda í vefnaðariðnaði og nr. 66 (1939) um vinnu farandverkamanna.

Samþykkt var ályktun um aðgerðir gegn Myannmar (Burma) vegna ítrekaðra brota á samþykkt ILO nr. 29 um afnám nauðungarvinnu. Í ályktuninni er mælt fyrir um ýmsar aðgerðir gagnvart ríkinu og tekur hún gildi 30 nóvember n.k. hafi það ekki á þeim tíma sýnt fram á úrbætur í löggjöf og framkvæmd.

Meðal annarra viðburða á Alþjóðavinnumálaþinginu má geta sérstakra umræðna um alnæmi og vinnu og var Sam Nujoma forseti Namibíu sérstakur gestur við þá umræðu.

Sendinefnd Íslands á Alþjóðavinnumálaþinginu skipuðu að þessu sinni af hálfu félagsmálaráðuneytisins Elín Blöndal, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu og Gylfi Kristinsson, ráðgjafi hjá fastanefnd Íslands hjá Evrópusambandinu í Brussel, af hálfu utanríkisráðuneytisins Benedikt Jónsson, sendiherra og Haukur Ólafsson, fyrsti sendiráðsritari, frá Samtökum Atvinnulífsins Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur og Jón H. Magnússon, lögfræðingur og fyrir hönd Alþýðusambands Íslands Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður, Hervar Gunnarsson, fyrsti varaforseti og Ari Skúlason, framkvæmdastjóri ASÍ.

Nánari upplýsingar um þingið er að finna á heimasíðu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, www.ilo.org. Þá er einnig unnt að fá upplýsingar og gögn um þingið í félagsmálaráðuneytinu.

Þessi tenging er ekki vistuð á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins88. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 2000.

(Skýrsla félagsmálaráðherra um þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem haldið var á árinu 2000.)




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum