Hoppa yfir valmynd
6. júní 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 148/2018 - Úrskurður

Formannmarki

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 148/2018

Miðvikudaginn 6. júní 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags 13. apríl 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. september 2017 á beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfu. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. september 2017, var kæranda synjað um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Í kjölfar frekari samskipta kæranda við Tryggingastofnun vegna framangreindrar ákvörðunar veitti stofnunin kæranda rökstuðning fyrir ákvörðuninni með bréfi, dags. 10. nóvember 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. apríl 2018, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Útskýringar bárust frá kæranda 9. maí 2018.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að endurgreiðslukrafa Tryggingastofnunar ríkisins verði felld niður.

Í kæru segir að kærandi hafi verið óvinnufær í rúma X mánuði á árinu 2017 vegna [...]. Hann hafi farið í aðgerð í X 2017 og síðan þá hafi hann unnið minna. Frá X 2017 hafi kærandi ekki unnið nema í X daga. Kærandi hafi verið að greiða niður kröfu Tryggingastofnunar síðastliðin ár. Kærandi sé með greindan geðsjúkdóm sem leiði til þess að vinna sé óregluleg. Hann sé [...] og hafi ekki getað unnið við það í nokkur ár. Þá sé kærandi einnig með bakflæði. Kærandi hafi [...] síðustu árin. Breytingar á tekjuáætlun hafi verið gerðar í góðri trú í samræmi við heilsufar. Greiðslubyrði kæranda sé of mikil, hann sé að greiða 115.000 kr. í húsaleigu og hann hafi ekki fengið húsaleigubætur nema að litlu leyti síðustu mánuði.

Í athugasemdum kæranda segir að hann hafi verið veikur að undanförnu og hafi verið að bíða eftir að fara til læknis. Hann hafi fengið vinnu núna í X daga við að [...] en hann hafi haft litla vinnu í vetur, aðeins í X daga frá X 2017. Tekjur kæranda dugi ekki fyrir afborgunum um mánaðarmót. Þá segir að kærandi hafi þurft að taka út úr séreignarlífeyrissjóði í febrúar og mars til að ná endum saman.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. september 2017, um synjun á niðurfellingu endurgreiðslukröfu.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna ákvæði um kærufrest. Þar kemur fram í 3. mgr. að þegar aðili máls fari fram á rökstuðning hefjist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hafi verið tilkynntur honum.

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega fimm mánuðir frá því að kæranda var veittur rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. nóvember 2017, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2018. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í rökstuðningi Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. nóvember 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Af bréfinu verður ráðið að það hafi verið sent á lögheimili kæranda. Með bréfum úrskurðarnefndar, dags. 20. apríl og 7. maí 2018, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Með bréfi til úrskurðarnefndar greindi kærandi frá veikindum sínum að undanförnu og frá erfiðri greiðslubyrði.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi verið ófær um að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins innan kærufrests vegna veikinda sinna. Því er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Bent er á að ekkert virðist vera því til fyrirstöðu að kærandi geti á ný sótt um niðurfellingu ofgreiðslukröfu til Tryggingastofnunar ríkisins.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum