Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2023 Innviðaráðuneytið

Ný reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga tekur gildi

Ný reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga tekur gildi - myndHaraldur Jónasson / Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur staðfest nýja reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga. Hún fjallar um þau lágmarksatriði sem þurfa að koma fram í reglum sveitarfélaga um framkvæmd íbúakosninga. 

Markmið reglugerðarinnar er annars vegar að veita skýra leiðsögn um reglur sveitarfélaga um íbúakosningar, og hins vegar að tryggja að traust ríki um slíkar kosningar. Með reglugerðinni er jafnframt reynt að draga úr umfangi og kostnaði íbúakosninga eins og hægt er og veita sveitarfélögum nægilegt svigrúm til að haga slíkum kosningum eftir því sem þau telja heppilegast til að leiða fram lýðræðislegan vilja íbúa þeirra.

Þrenns konar íbúakosningar

Í fyrra samþykkti Alþingi lög (nr. 83/2022) um breytingu á ákvæðum sveitarstjórnarlaga frá 2011 um íbúakosningar sveitarfélaga. Þær eru af þrennum toga: 

  1. Kosningar í nefnd sem fer með málefni fyrir hluta sveitarfélags og kosin er á grundvelli 138. gr. sveitarstjórnarlaga. 
  2. Íbúakosning um einstök málefni sveitarfélags, sbr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkar kosningar fara fram að frumkvæði sveitarstjórnar en geta einnig farið fram ef tiltekin fjöldi íbúa sveitarfélags krefst þess, sbr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga. 
  3. Sameiningarkosningar sveitarfélaga, sbr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga. 

Með lögum nr. 83/2022 voru gerðar þær breytingar á sveitarstjórnarlögum að íbúakosningar sveitarfélaga skulu fara fram á grundvelli reglna sem sveitarfélög setja sér um slíkar kosningar. 

Framkvæmd íbúakosninga 

Í nýju reglugerðinni er gert ráð fyrir framkvæmd íbúakosninga verði talsvert umfangsminni en framkvæmd kosninga skv. kosningalögum. Meðal annars er gert ráð fyrir að kosning fari ekki lengur fram á tilteknum kjördegi heldur á tilteknu tímabili sem má minnst vera tvær vikur og mest fjórar vikur. Kjörstjórn ákveður kjörstaði og skal a.m.k. einn kjörstaður vera með reglulegum opnunartíma á meðan á kosningu stendur, t.d. skrifstofa sveitarfélagsins. Þá er ekki gert ráð fyrir að fram fari utankjörfundaratkvæðagreiðsla, heldur munu tilteknir kjósendur geti greitt atkvæði sitt með pósti og er framkvæmd póstkosningu nánar lýst í reglugerðinni.

Frekari breytingar fyrirhugaðar

Markmið laganna (nr. 83/2022) um breytingar á sveitarstjórnarlögum var að einfalda regluverk íbúakosninga sveitarfélaga og minnka umfang slíkra kosninga án þess að vega að þeim sjónarmiðum sem gilda um öryggi og vandaða framkvæmd opinberra kosninga. Byggir reglugerðin á þessum sjónarmiðum. Vinna við gerð reglugerðarinnar leiddi þó í ljós að nauðsynlegt er að gera frekari breytingar á sveitarstjórnarlögum til að hægt sé að ná þeim markmiðum sem stefnt var að með lögum nr. 83/2022.

Innviðaráðuneytið mun því leggja til að í frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á kosningalögum sem fyrirhugað er að leggja fram á vorþingi, verði 133. gr. sveitarstjórnarlaga, sem fjallar um íbúakosningar breytt enn frekar. Þær tillögur sem helst eru lagðar til eru:

  • Fallið verði frá því að íbúakosningar sveitarfélaga fari skv. reglum sem sveitarfélög setja sér heldur skulu þær fara fram á grundvelli reglugerðar um íbúakosningar.
  • Fjallað verði um hverjir hafa kosningarétt í sveitarstjórnarlögum í stað kosningalaga.
  • Reglur um kjörskrá fari skv. reglugerð um íbúakosningar í stað kosningalaga.

Ef framangreindar tillögur að breytingum á sveitarstjórnarlögum verða samþykktar er gert er því ráð fyrir að ný reglugerð um íbúakosningar verði sett næsta haust þar sem dregið verði frekar úr umfangi íbúakosninga sveitarfélaga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum