Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Ráðstefnan Hreyfing og mataræði, 2002

Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðisráðherra á ráðstefnunni
Hreyfing og mataræði í Smárabíói, 19. janúar 2002


Ágætu ráðstefnugestir.

Það er mér mikil ánægja að taka þátt í heilsudögum Gauja litla, sem nú standa yfir, þar sem heilsan er í fyrirrúmi. Þessi ráðstefna sem fjallar um heilsufar, hollustu og holdafar frá ýmsum sjónarhornum, er hluti af þeim.

Hér er um afar mikilvægt málefni að ræða. Heilsan er okkur öllum dýrmæt og hver og einn ber ábyrgð á að rækta jafnt huga, sál sem líkama. Heilbrigð sál í hraustum líkama segir gamalt máltæki sem sannarlega á jafnvel við í dag og fyrr á öldum.

Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil umræða um þessi mál og er ljóst að bæði heilbrigðisyfirvöld og almenningur þurfa sífellt að vera vakandi fyrir forvörnum og heilbrigðum lifnaðarháttum. Æ fleiri stunda skipulagða þjálfun og stuðla þannig að bættri heilsu og vellíðan. Dagleg hreyfing s.s. að ganga stiga í stað þess að nota lyftu, sund, stuttar gönguferðir, ganga í skóla eða vinnu, hjólaferðir o.fl. er einnig ódýr og góð heilsurækt. Margt af þessu geta heilu fjölskyldurnar gert saman og sameinað þannig samveru og eflingu heilsunnar.

En þrátt fyrir aukna meðvitund almennings um gildi hreyfingar og hollrar fæðu hafa rannsóknir sýnt að bæði börn og fullorðnir á Íslandi eru að þyngjast í kjölfar breyttra lífshátta á síðustu áratugum. Íslendingar hafa sem sagt ekki farið varhluta af þeim offituvanda sem virðist fara vaxandi í hinum vestræna heimi. Svo betur má ef duga skal.

Ljóst er að ýmsir fylgikvillar geta komið í kjölfar offitu og hreyfingarleysis og má þar nefna sykursýki á fullorðins aldri og hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig getur offita leitt til sálrænna og félagslegra vandamála. Mér er kunnungt um á Gauji litli hefur lagt sig sérstaklega eftir að hjálpa börnum jafnt sem fullorðnum að takast á við slíkt.

Það hefur reyndar verið athyglisvert að fylgjast með starfi Gauja litla og samstarfsfólks hans. Ég hef að sjálfsögðu fylgst með því í fjölmiðlum en einnig hefur starfið verið kynnt fyrir mér bæði sem formanni fjárlaganefndar og nú síðast sem heilbrigðisráðherra. Ég tel að hér sé um mikilvægt starf að ræða unnið að metnaði og einlægum vilja til þess að hjálpa þeim og styrkja sem eiga við offituvandamál að stríða.

Öll vinna sem hvetur til hollra lífshátta, hvar sem hún er innt af hendi, hvort sem er af einstaklingum, félagasamtökum, skólum, fyrirtækjum eða heilbrigðiskerfinu, skiptir miklu máli bæði fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið í heild.

Heilbrigðisyfirvöld hafa á umliðnum árum lagt vaxandi áherslu á forvarnir og heilsueflingu. Árið 1994 var sett af stað sérstakt verkefni í heilbrigðisráðuneytinu undir nafninu "Heilsuefling hefst hjá þér". Verkefnið hefur nú að mestu verið flutt til Landlæknisembættisins en það felst m.a. í því að stuðla að aukinni heilsurækt og bættri líðan barna og fullorðinna bæði í skólum og á vinnustöðum. Heilsubæir, heilsuskólar og heilsuleikskólar eru dæmi um þá vinnu.

Strax í æsku er mikilvægt að venja börn við holla lífshætti, hæfilega hreyfingu og hollt mataræði því þannig má koma í veg fyrir hugsanleg heilbrigðisvandamál síðar. Raunar er gildi hollrar fæðu sífellt að koma betur í ljóst bæði til að auka heilbrigði en einnig til að koma í veg fyrir sjúkdóma.

Fjölmörg önnur verkefni á sviði forvarna og heilsueflingar eða lýðheilsu eru unnin á vegum stofnana ráðuneytisins s.s Manneldisráðs, Áfengis- og vímuvarnaráð, Tóbaksvarnaráðs, Landlæknisembættisins, heilsugæslustöðva og þannig mætti lengi telja.
Ég tel raunar að stefna skuli að því sameina alla þá starfssemi sem unnin er á sviði forvarna í eina stofnun, nokkurs konar forvarnarmiðstöð. Hugmyndin er alls ekki sú að miðstýra eigi öllu forvarnarstarfi eða steypa í sama mót heldur mætti með þessu nýta betur þá þekkingu og þau úrræði sem til eru og efla þannig starfssemina. Í ráðuneytinu er nú unnið að frumvarpsgerð um forvarnarmiðstöð sem ég vonast til að geta lagt fram á vorþingi.

En forvarnir og heilsuefling eru ekki bundnar við eina stofnun eða miðstöð. Forvarnir felast í æ ríkara mæli í því að fá samfélagið allt til að taka höndum saman við að samræma aðgerðir til að bæta aðstöðu og breyta viðhorfi í samfélaginu.

Á dagskrá hér í dag er fjölbreytt efni um heilsufar, hreyfingu og mataræði m.a. í samræmi við áherslur heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 sem Alþingi samþykkti sl. vor.
Ég vil ég nota tækifærið og þakka aðstandendum ráðstefnunnar fyrir að standa fyrir umfjöllun um þetta mikilvæga málefni sem vissulega snertir okkur öll.


_____________
Talað orð gildir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum