Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Kynning tillagna um framtíð LSH - 2002

Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við kynningu á
tillögum um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss
30. janúar 2002



Ég vil bjóða ykkur velkomin til þess fundar sem ég hef boðað til til að kynna ykuur tillögur nefndar sem ég skipaði í maí í fyrra til að kanna og gera tillögur um framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss.

Ég lét nefndarskipanina verða eitt fyrsta verk mitt í embætti enda tel ég afar brýnt að að taka ákvarðanir sem flýta og auðvelda lokahnykkinn í sameiningu spítalanna tveggja. Það er vitaskuld ferli, sem hefur gengið framar vonum, og er þegar farið að skila sér, enda þótt það hafi verið erfitt og reynt mjög á starfsmenn og stjórnendur.

Sameiningin sjálf er okkur Íslendingum nauðsynleg til að skapa skilyrði til að geta fylgst með og verið áfram í fremstu röð í lækningum. Þar vísa ég bæði til möguleikanna á að afla þeirrar tækni sem til þarf á miklum breytingatímum í læknisfræði og eins að geta búið heilbrigðisstarfsmönnum skilyrði sem þeim er boðið að starfa við erlendis. Samkeppni á þessu sviði er fyrir okkur með 280 þúsund manna upptökusvæði landsspítala ekki innanlands heldur aðallega við hin fjölmennu útlönd. Og þegar haft er í huga að hlutverk Landspítala - háskólasjúkrahúss verður sífellt mikilvægara sem þungamiðja íslensku heilbrigðisþjónustunnar þá liggur í hlutarins eðli að sá ytri rammi sem uppbyggingarsvæðið hlýtur að vera er lykilatriði fyrir alla framþróun spítalans.

Ég valdi í þessa nefnd forvera minn sem er sá stjórnmálamaður sem þekkir heilbrigðismálin hvað best, Magnús Pétursson hefur leitt sameininguna og sýnt að hann hefur ríkan skilning á því að huga að framtíðinni og bæði hann og Páll Skúlason, háskólarektor, eru menn sem gera sér grein fyrir mikil vægi háskólans fyrir spítalann og öfugt. Ég þakk þeim frábært starf, og ekki síður þeim Ragnheiði Haraldsdóttur, skrifstofustjóra og Ingólfi Þórissyni, sem hafa lagt mikið af mörkum á vettvangi nefndarinnar.

Eins og fram kemur í gögnum sem þið hafið fengið var nefndinni falið að fara yfir öll fyrirliggjandi gögn og hugmyndir um framtíðaruppbyggingu Landspítala-háskólasjúkrahúss, gera grein fyrir þeim möguleikum sem helst þóttu koma til greina, og leggja fyrir mig tillögu um staðsetningu og hvernig standa mætti að uppbyggingu spítalans.

Nefndin skoðaði fjóra kosti, uppbyggingu á Vífilstaðalandi, í Fossvogi, á núverandi Landspítalalóð við Hringbraut og á lóð sunnan núverandi Hringbrautar og niðurstaða hennar er í stuttu máli að öll starfsemi Landspítala-háskólasjúkrahúss verði á einum stað, við Hringbrautina, og að nýbyggingar framtíðarinnar rísi aðallega sunnan núverandi Hringbrautar.

Og til að gera langa sögu stutta þá lýsi ég yfir því að þessar tillögur hef ég þegar gert að mínum. Ég mun með öðrum orðum leggja allt kapp á að hér eftir verði teknar ákvarðanir sem samræmast þessum tillögum.

Ég hef kynnt hugmyndirnar í ríkisstjórn og á eftir að gera það með ítarlegri hætti, ég hef kynnt forsætisráðherra þær sem oddvita ríkisstjórnar og menntamálaráðherra, sem yfirmanni háskólans og hvarvetna hefur verið tekið vel í tillögurnar, sem ég tel afar mikilvægt.

Það verður nefnilega að vera breið almenn flokkspólitísk og fagleg sátt um uppbyggingu þungamiðju heilbrigðisþjónustunnar að mínum dómi enda bitna flokkadrættir í þessu máli fyrst og fremst á þeim sem þurfa á þjónustunni að halda. Ég fagna því sem heilbrigðisráðherra þeim góðu undirtektum sem málið hefur fengið á vettvangi ríkisstjórnarinnar og vonast sömuleiðis eftir stuðningi og skilningi stjórnarandstöðunnar við tillögurnar.

Rök nefndarinnar fyrir staðsetningunni eru að mínum dómi sannfærandi: Hér verður kostnaður við útfærsluna er minnstur, m.a. vegna bygginganna sem fyrir eru á lóðinni og nýta má til starfseminnar, nálægð við Háskóla Íslands er mikilvæg, möguleikar til áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu eru tryggðir, leið þeirra sem nýta sér þjónustu spítalans og starfsmanna verður greið þegar gatnakerfi hefur verið lagfært, og allt umhverfið gæti orðið afskaplega skemmtileg og framkvæmdin öll lyftistöng fyrir þróun miðborgarinnar og ekki aðeins fyrir þróun miðborgarinnar.

Hér mun rísa ný þungamiðja þekkingar og rannsókna. Hér er háskólinn og sjúkrahúsið, þekkingarþorpið, Íslensk erfðagreining og fleiri fyrirtæki sem tengjast þessum stofnunum og ég sé fyrir mér til dæmis að á þessu svæði skapist alveg nýir möguleikar í framtíðinni fyrir fyrirtæki á sviði heilbrigðistækni sambærileg við fyrirtæki eins og Flögu, Össur og önnur fyrirtæki sem hafa haslað sér völl á sviði heilbrigðistækninnar á grundvelli þekkingar sem orðin er til í heilbrigðisþjónustunni. Þetta er vissulega framtíðarsýn, en ég bendi á að nútíminn er alltaf að nálgast framtíðina og hún er alls ekki langt undan.

Þegar öll starfsemi Landspítalans er komin á sama stað mun starfsemin ganga betur sem skilvirkni í starfseminni aukast.
· kemur sjúklingum mjög til góða að geta gengið að allri þjónustu sjúkrahússins á einum stað.
· Samvinna innan sérgreina og milli þeirra eflist og þannig verður þjónustan betri faglega séð
· Samþjöppun sérþekkingar leiðir til betri þjónustu við sjúklinga, meiri virkni í vísindastarfi og markvissari kennslu heilbrigðisstétta.
· möguleikar á hagræðingu í rekstri aukast sem ætla má að spari stofnkostnað vegna nauðsynlegra framkvæmda á nokkrum árum.
· Þá er hagræði fyrir starfsmenn mikið, að öðrum kosti þyrftu margir þeirra áfram að sækja vinnu á mörgum stöðum.

Þetta eru í stuttu máli rökin fyrir sameiningu við Hringbraut og þetta eru líka rökin sem sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 byggist á en hún hefur þegar skilað mikilsverðum árangri. Fullur árangur næst þó ekki nema hægt verði að ljúka sameiningu sérgreina og skyldra starfseininga sem nú stendur yfir. Í mörgum tilvikum er það aðeins hægt með því að sameina alla starfsemi háskólasjúkrahússins á einum stað. Því er þetta skynsamleg tillaga. Hún er rökrétt og vandlega undirbyggð. Ég tel að um hana geti skapast víðtæk sátt og tillagan felur að mínum dómi í sér sögulegt tækifæri til að taka ákvörðun sem getur orðið allt í senn stökk fram á við í heilbrigðisþjónustu og mikil lyftistöng fyrir íslenska þekkingarsamfélagið í bráð og lengd. Ákvörðun um uppbyggingu hér árið 2002 jafngildir að mínum dómi ákvörðuninni um að byggja Landspítalnn á öndverðri nýliðinni öld.

_______________
(Talað orð gildir)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum