Hoppa yfir valmynd
20. október 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hvernig greiða streymisveitur menningarframlag í Evrópu?

Hvernig greiða streymisveitur menningarframlag í Evrópu?

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, gerði ríkisstjórninni grein fyrir mismunandi útfærslum menningarframlags streymisveitna til Evrópuríkja.
Stórar alþjóðlegar streymisveitur eru ráðandi á markaðinum og búa þær við þann kost að geta verið staðsettar í einu EES-ríki en beint efni sínu til annarra EES-ríkja, líkt og til Íslands. Mikil umræða hefur verið um framlag slíkra alþjóðlegra streymisveitna til þeirra landa þar sem þjónusta af þeim er keypt (svonefnt menningarframlag). Slíkt framlag getur verið af ýmsum toga, t.d. með gjaldtöku eða skilyrði um fjárfestingu innan viðkomandi lands.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur hvatt ríki til að beita sér fyrir samræmdri nálgun í þessum málum og segja má að AVMSD tilskipunin á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) sé verkfæri til þess að fá þær erlendu streymisveitur, sem staðsettar eru í lögsögu annars ríkis en miðla efni sem beint er að þarlendum neytendum, til að gefa til baka til samfélagsins, hluta af þeirri veltu sem aflað er hér á landi. 

Greiða virðisauka en ekki menningarframlag

Menningarframlag streymisveitna hefur verið til skoðunar á Íslandi. Nú greiða erlendar streymisveitur skatt af þeim tekjum sem íslenskir neytendur á íslenskum fjölmiðlamarkaði greiða til streymisveitna. Erlend fyrirtæki sem selja rafræna þjónustu, fjarskiptaþjónustu eða útvarps- og sjónvarpsþjónustu til neytenda hér á landi eru skyldug til þess að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti á Íslandi.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvaða leið verður farin hérlendis um menningarframlag, en sem dæmi má nefna að í Danmörku hefur verið lagt til að streymisveitur greiði 6% menningarframlag. Í Noregi eru tvær leiðir til skoðunar. Annars vegar að gera kröfu um beina fjárfestingu í norsku efni að tiltekinni upphæð eða prósentu og ef streymisþjónustan fjárfestir ekki fyrir viðmiðunarupphæðinni  skal hún greiða mismuninn í sjóð sem er sambærilegur Kvikmyndasjóði. Hins vegar er önnur leið sú að gera aðeins kröfu um beina fjárfestingu. 

Hér má sjá samanburðartöflu sem sýnir aðferðir og hugmyndir um gjaldtöku nokkurra Evrópuríkja, Ísland mun áfram vinna að útfærslu á innleiðingu AVMSD tilskipunarinnar og áfram verður fylgst náið með þróun málanna í Evrópu.

Samanburðartafla

Land
Bein fjárfesting
Menningarframlag
Belgía, flæmskumælandi
2%
2%
Belgía, frönskumælandi
1,4 - 2,2%
1,4 - 2,2%
Belgía, þýskumælandi
Já, ekki lokið
-
Danmörk
-
6% (enn drög)
Frakkland
15 – 25%
5,15% (15%)
Grikkland
1,5%
-
Ísland
-
-
Ítalía
17%
-
Króatía
2%
-
Noregur
5%
Óákveðið (enn drög)
Portúgal
-
1%
Pólland
-
1,5%
Spánn
5%
-
Sviss
4% eða
4%
Tékkland
1%
-
Þýskaland
-
1,8-2,2%

Heimildir: Investing in European works: the obligations on VOD providers, IRIS Plus, European Audiovisual Observatory, Strasbourg, May 2022 og Forslag til Lov om visse medietjenesteudbyderes bidrag til fremme af dansksproget indhold (Kulturbidragsloven).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum