Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 38/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 38/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010011

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. desember 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. desember 2018, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærandi lagði ekki fram greinargerð hjá kærunefnd í málinu. Kærunefnd leggur til grundvallar að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli [...] þann [...] var kærandi dæmdur til að greiða [...] sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms en sæta ella fangelsi í 14 daga, fyrir brot [...]. Þann 29. nóvember 2018 var kæranda birt tilkynning Útlendingastofnunar að til skoðunar væri hjá stofnuninni að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann vegna brota hans og yrði það gert á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Var kæranda veittur frestur til að leggja fram skriflega greinargerð í málinu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 4. desember 2018 var kæranda vísað brott frá landinu og honum bönnuð endurkoma til landsins í tvö ár. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 5. desember sl. en óskaði jafnframt eftir því að brottvísun yrði framkvæmd þrátt fyrir að kærufrestur væri ekki liðinn. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi fluttur frá landinu með stoðdeild ríkislögreglustjóra þann 6. desember 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að kærandi hefði með dómi héraðsdóms Reykjavíkur verið dæmdur fyrir brot gegn [...]. Væru skilyrði d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga til brottvísunar því fullnægt. Þá kæmi ekkert fram í gögnum stofnunarinnar sem leitt gæti til þess að brottvísun gæti talist ósanngjörn gagnvart kæranda eða nánustu aðstandendum hans, með hliðsjón af tengslum hans við landið. Var kæranda brottvísað og var lengd endurkomubanns ákveðið tvö ár.  

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda. Þá lagði kærandi hvorki fram greinargerð né önnur gögn hjá Útlendingastofnun.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...] var kærandi dæmdur fyrir brot gegn [...]. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi aldrei verið með skráð lögheimili hér á landi né haft hér dvalarleyfi.

Í 98. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um brottvísun útlendings án dvalarleyfis. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 98. gr. er heimilt að vísa útlendingi sem er án dvalarleyfis brott frá landinu ef hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum. Líkt og fyrr greinir var kærandi með dómi héraðsdóms Reykjavíkur dæmdur fyrir brot sem varðað getur fangelsi allt að sex mánuðum skv. [...]. Er því ljóst að skilyrðum d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er fullnægt.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Ekkert í gögnum málsins leiðir til þess að brottvísun kæranda geti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum með hliðsjón af tengslum hans við landið.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. jafnframt staðfest, en samkvæmt ákvæðinu skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár og ljóst er að endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif gegn brotum útlendings á ákvæðum laga hér á landi.

Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi yfirgefið landið þann 6. desember 2018 og verður því litið svo á að tveggja ára endurkomubann hafi hafist þá þeim degi, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar ástæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                           Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum