Hoppa yfir valmynd
15. júní 2023

Mál nr. 158/2023 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 158/2023

Fimmtudaginn 15. júní 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2023, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. febrúar 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2023, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að vinna hans á ávinnslutímabili næði ekki lágmarksbótarétti.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. mars 2023. Með bréfi, dags. 29. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 19. apríl 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. apríl 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki vitað að hann ætti að mæta á skrifstofu Vinnumálastofnunar sjö dögum eftir að hann kæmi heim. Kærandi hafi sent farseðil sem staðfesti að hann hafi komið heim 13. september 2022. Að verða þunglyndur í atvinnuleit hjálpi ekki til. Kærandi vilji líka benda á að atvinnumiðlunin á Norðurlandi þurfi að upplýsa fólk betur um skyldur sínar. Kærandi hafi fengið miklu betra viðmót í Reykjavík og á Ísafirði.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 6. apríl 2022. Með erindi, dags. 4. maí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Þann 15. maí 2022 hafi kærandi sótt um útgáfu U2-vottorðs vegna atvinnuleitar í Noregi. Á umsókninni hafi kærandi greint frá því að áætluð brottför hans væri þann 30. júní 2022. Umsókn kæranda um útgáfu U2-vottorðs hafi verið samþykkt og gildistími vottorðsins hafi verið frá 30. júní til 29. september 2022. 

Þann 1. nóvember 2022 hafi kærandi verið í samskiptum við starfsmann Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi óskað eftir ástæðum þess að hann hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi greint kæranda frá því að í ljósi þess að hann hefði ekki tilkynnt stofnuninni um heimkomu sína að gildistíma U-vottorðsins loknum hefðu greiðslur til hans verið stöðvaðar. Kærandi hafi greint frá því að hafa komið aftur til Íslands í ágúst og farið á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Akureyri. Í ljósi þess að í kerfum stofnunarinnar væri ekki að sjá að kærandi hefði mætt á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar hafi kæranda verið leiðbeint að setja sig í samband við viðkomandi þjónustuskrifstofu aftur og óska frekari skýringa. Vinnumálastofnun bendi á að kærandi hafi síðar verið spurður hvort hann hefði mætt á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Akureyri líkt og hann hafi sagst hafa gert. Þau svör hafi fengist hjá kæranda að hann hefði ekki mætt á þjónustuskrifstofu líkt og hann hefði greint stofnuninni frá. Í samskiptasögu, sem sé á meðal gagna í máli þessu, megi sjá framangreind samskipti frá 22. mars 2023.

Þann 2. nóvember 2022 hafi kærandi mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar. Starfsmaður stofnunarinnar hafi greint kæranda frá því að hann þyrfti að afhenda stofnuninni flugmiða þar sem heimkoma hans til Íslands væri tilgreind. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði aldrei fengið þær upplýsingar að hann þyrfti að framvísa flugmiðum. Starfsmaður stofnunarinnar hafi áréttað við kæranda að slíkar leiðbeiningar hefði verið að finna í upplýsingum sem séu gefnar aðilum þegar sótt sé um útgáfu U2-vottorðs. Kærandi hafi afhent stofnuninni gögn sem hafi sýnt fram á það að hann hefði flogið til Íslands frá Noregi þann 13. ágúst 2022.

Með erindi, dags. 2. nóvember 2022, hafi verið óskað skýringa á ástæðum þess að kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um heimkomu sína innan sjö virkra daga. Skýringar kæranda hafi borist stofnuninni þann 20. nóvember 2022. Kærandi hafi sagst ekki hafa þekkt reglu þess efnis að honum bæri að tilkynna stofnuninni um heimkomu sína. Með erindi, dags. 14. desember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans væru stöðvaðar þar sem óvíst væri hvort hann uppfyllti skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Kærandi hafi að nýju sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 22. febrúar 2023. Með erindi, dags. 2. mars 2023, hafi kæranda verið greint frá því að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum næði vinna hans á ávinnslutímabili ekki því lágmarki sem kveðið væri á um í lögum um atvinnuleysistryggingar. Með erindinu hafi kæranda verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum og gögnum sem kynnu að sýna fram á frekari vinnu á ávinnslutímabilinu. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að koma að athugasemdum sínum. Stofnuninni hafi þó ekki borist nein frekari gögn eða athugasemdir frá kæranda innan tilgreinds frests. Með erindi, dags. 14. mars 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um greiðslu atvinnuleysisbóta væri hafnað þar sem vinna hans á ávinnslutímabilinu næði ekki lágmarksbótarétti. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 3. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Í VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna undanþágu frá framangreindri meginreglu. Í kaflanum sé að finna ákvæði er lúti að atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. 

Samkvæmt 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda sem sé í atvinnuleit í öðru EES-ríki ef hann uppfylli tiltekin skilyrði. Í 3. mgr. 42. gr. segi að Vinnumálastofnun gefi út viðeigandi vottorð til staðfestingar á rétti hins tryggða samkvæmt ákvæðinu. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna sé Vinnumálastofnun heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt 42. gr. samfellt í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða en þó aldrei í lengri tíma en sem sé eftir af tímabili samkvæmt 29. gr. laganna.

Í 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um tilkynningu um heimkomu en í 1. og 2. mgr. ákvæðisins segi orðrétt:

„Hinn tryggði sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. og snýr aftur til landsins til að halda áfram atvinnuleit sinni á innlendum vinnumarkaði skal tilkynna um það skriflega til Vinnumálastofnunar innan sjö virkra daga frá því að tímabili skv. 43. gr. lauk eða komudegi hafi hinn tryggði komið til landsins áður en tímabilinu lauk. Atvinnuleysistrygging hans er þá sú sama og hún var áður en hann fór utan í atvinnuleit nema annað leiði af lögum þessum.

Láti hinn tryggði hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan tímamarka 1. mgr. falla greiðslur atvinnuleysisbóta niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. lauk eða hann hætti atvinnuleit í öðru aðildarríki hafi hann sannanlega hætt leitinni áður en tímabilinu lauk. Skal hinn tryggði þá sækja um atvinnuleysisbætur að nýju skv. 9. gr.“

Kærandi hafi fengið útgefið U2-vottorð með gildistíma frá 30. júní til 29. september 2022. Samkvæmt flugfarseðlum hafi kærandi komið aftur til Íslands þann 13. ágúst 2022. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 46. gr. hafi kæranda borið að tilkynna stofnuninni skriflega um heimkomu sína innan sjö virkra daga frá komudegi hans til Íslands. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi slík staðfesting aldrei borist Vinnumálastofnun né hafi kærandi tilkynnt stofnuninni með öðrum hætti um heimkomu sína.

Kærandi hafi veitt þær skýringar að hann hafi ekki vitað að honum bæri að tilkynna stofnuninni um heimkomu sína. Umsókn um útgáfu U2-vottorðs sé að jafnaði framkvæmd rafrænt í gegnum ,,Mínar síður“. Við rafræna umsókn fái umsækjendur upplýsingar um helstu réttindi sín og skyldur sem gildi í atvinnuleit í öðru aðildarríki EES, meðal annars að tilkynna beri um heimkomu til Vinnumálastofnunar. Öllum umsækjendum um útgáfu U2-vottorðs sé svo gert að staðfesta að þeir hafi kynnt sér þær upplýsingar. Kærandi hafi aftur á móti sótt um útgáfu vottorðs með því að útfylla eyðublað sem þá hafi verið að finna á heimasíðu stofnunarinnar. Á umsóknareyðublaðinu sé umsækjendum gert að staðfesta að þeir hafi fengið allar upplýsingar um réttindi sín og skyldur meðan á atvinnuleit í öðru aðildarríki EES standi. Á umsóknareyðublaði kæranda megi sjá að hann hafi ekki staðfest að hann hafi fengið slíkar upplýsingar en umsókn hans um útgáfu vottorðs hafi samt sem áður verið samþykkt, þrátt fyrir þann galla á umsókn hans. Því megi ekki ráða af fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hvort hann hafi fengið upplýsingar um réttindi sín og skyldur. Þrátt fyrir framangreint sé það mat Vinnumálastofnunar að gera verði þær kröfur til atvinnuleitanda, sem hyggist fara í atvinnuleit í öðru aðildarríki, að viðkomandi kynni sér ítarlega þær reglur sem um atvinnuleitina gildi. Hefði texti þess efnis á umsóknareyðublaði því sem kærandi hafi skilað til stofnunarinnar átt, að mati stofnunarinnar, að gefa kæranda tilefni til að afla eða óska slíkra upplýsinga frá stofnuninni. Þá vísi Vinnumálastofnun meðal annars til þess að á heimasíðu stofnunarinnar sé að finna ítarlegar upplýsingar um útgáfu U2-vottorða og skyldur atvinnuleitanda á meðan á gildistíma þess standi. Þar sé jafnframt að finna skýrar leiðbeiningar um það að atvinnuleitanda beri að skrá sig hjá vinnumiðlun á Ísland innan sjö virkra daga frá gildistíma vottorðsins.

Í ljósi þess að kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um heimkomu sína innan tilskilins frests samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi greiðslur til hans verið stöðvaðar með erindi, dags. 14. desember 2022, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 46. gr.

Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi kærandi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju með umsókn, dags. 22. febrúar 2023. Þegar umsókn kæranda hafi borist Vinnumálastofnun hafi réttur kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta því verið metinn að nýju. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist launamaður, sbr. a-lið 3. gr., að fullu tryggður eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Þá segi í 2. mgr. sömu greinar að launamaður sem hafi starfað skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur teljist hlutfallslega tryggður í samræmi við lengd starfstíma. Fyrir liggi hins vegar að kærandi hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði síðustu tólf mánuði áður en hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 22. febrúar 2023. Þá eigi ákvæði V. kafla laga um atvinnuleysistryggingar um geymdan bótarétt ekki við í tilfelli kæranda, sbr. lokamálsgreinar ákvæða 23. til 28. gr. laganna. Með vísan til framangreinds uppfylli kærandi ekki skilyrði um lágmarksbótarétt. Umsókn hans hafi því verið hafnað.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta með vísan til 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2023, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 15. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a-lið 3. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006 telst launamaður, sbr. a-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr. Í 2. mgr. 15. gr. kemur fram að launamaður, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. getur tryggingarhlutfall launamanns aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.

Við mat á tryggingarhlutfalli kæranda leit Vinnumálastofnun til síðustu 12 mánaða frá því að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur barst til stofnunarinnar sem var þann 22. febrúar 2023. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun fyrir tímabilið 6. apríl til 16. ágúst 2022 en frá 30. júní til 16. ágúst 2022 var hann í atvinnuleit í Noregi og fékk þá greiðslur á grundvelli VIII. kafla laga nr. 54/2006. Fyrir liggur að kærandi starfaði ekki á innlendum vinnumarkaði eftir að hann sneri aftur til Íslands og hafði því ekki áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga á framangreindu 12 mánaða ávinnslutímabili. Þá eiga ákvæði V. kafla laga nr. 54/2006 um geymdan bótarétt ekki við í tilfelli kæranda, sbr. lokamálsgreinar ákvæða 23. til 28. gr. laganna en þar segir að ákvæðin eigi ekki við um þá sem fái greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.

Þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði um lágmarksbótarétt var hann ekki tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2023, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_________________________________

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum