Hoppa yfir valmynd
18. janúar 1996 Innviðaráðuneytið

Eyrarbakkahreppur - Verksvið skoðunarmanna þegar löggiltur endurskoðandi starfar fyrir sveitarfélagið

Eyrarbakkahreppur 18. janúar 1996 95100101

Magnús Karel Hannesson oddviti 1001

Túngötu 40

810 Eyrarbakki

Vísað er til erindis yðar, dagsett 12. október 1995. Í erindinu er óskað eftir áliti ráðuneytisins á því hvert sé verksvið kjörinna skoðunarmanna sveitarsjóðsreikninga í sveitarfélagi, sem hefur falið löggiltum endurskoðanda að endurskoða ársreikning sveitarfélagsins.

Um endurskoðun ársreikninga sveitarfélaga eru ákvæði í 84.-87. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Ekki hefur verið sett reglugerð um endurskoðun hjá sveitarfélögum og verksvið skoðunarmanna.

Í 1. mgr. 84. gr. laganna segir að endurskoðun hjá sveitarfélagi skuli unnin af tveimur skoðunarmönnum. Að auki segir þar að í sveitarfélögum þar sem íbúar eru 500 eða fleiri skuli sveitarstjórn jafnframt fela löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu að annast endurskoðun.

Í lögunum er ekki skilgreind verkaskipting löggilts endurskoðanda og skoðunarmanna og þ.a.l. telur ráðuneytið að samkvæmt orðalagi ákvæðisins sé ekkert undanskilið verksviði kjörinna skoðunarmanna ársreikninga af því sem fyrir er mælt um í 85.-87. gr. laganna þegar sveitarstjórn hefur ákveðið að fela löggiltum endurskoðanda að endurskoða ársreikning sveitarfélagsins. Hins vegar er það mat ráðuneytisins að eðlilegt sé að löggiltur endurskoðandi og skoðunarmenn hafi samvinnu og komi sér saman um tiltekna verkaskiptingu.

Rétt er að taka fram að félagsmálaráðherra hefur skipað nefnd til að endurskoða sveitarstjórnarlög nr. 8/1986. Meðal annars mun nefndin endurskoða VIII. kafla laganna um fjármál sveitarfélaga og stefnt er að því að gera ákvæðin skýrari en nú er.

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum