Hoppa yfir valmynd
14. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til fimm ára bekkja í grunnskóla og um réttindi til að kenna í slíkum bekkjum

Vísað er til erindis, dags. 8. apríl 2009, þar sem óskað er eftir túlkun menntamálaráðuneytis á lögum um leikskóla nr. 90/2008, lögum um grunnskóla nr. 91/2008 vegna fimm ára bekkja í grunnskóla og lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008 um réttindi til að kenna í slíkum bekkjum.

Í erindinu er sérstaklega spurt hvort ákvæði laga um leikskóla og grunnskóla geri ráð fyrir því að unnt sé að færa síðasta ár leikskóla, þ.e. börn sem náð hafa fimm ára aldri undir starfsemi grunnskóla. Ef svo er, er spurt hvort að starfsemi fimm ára bekkja taki þá mið af skóladagatali og skólanámskrá grunnskóla, aðalnámskrá grunnskóla, m.a. um skólaskyldu og gjaldfrítt nám og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Þá er að lokum spurt hverjir hafi réttindi samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda til að kenna fimm ára bekkjum í grunnskóla.

Menntamálaráðuneytið lítur svo á að erindið verði ekki skilið þannig að það taki til þess þegar skólastjóri veitir heimild fyrir því að barn fái að hefja skólagöngu áður en skólaskylda þess hefst, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga um grunnskóla. Enda er þá miðað við að barnið hefji nám með nemendum sem hafa náð sex ára aldri eða við skólaskyldu.

 Í 3. mgr. 28. gr laga um leikskóla og 3. mgr. 45. gr. laga um grunnskóla er sveitarfélögum veitt heimild til þess að reka saman m.a. grunnskóla og leikskóla undir stjórn eins skólastjóra, sem annað hvort hafi kennsluréttindi í grunnskóla eða leikskóla. Í niðurlagi ákvæðisins segir síðan: „Hinn samrekni skóli starfar að öðru leyti samkvæmt lögum um viðkomandi skólastig“.

 Í skýringum við ákvæðið kemur fram í frumvarpi því sem varð að lögum um grunnskóla að um sé að ræða nýmæli sem einkum hafi verið ætlað að mæta þörfum smærri sveitarfélaga þ. á m. um ráðningu eins stjórnanda fyrir slíkan skóla. Þá er áréttað að gert sé ráð fyrir því að samreknir skólar starfi að öðru leyti eftir lögum viðkomandi skólastigs. Í skýringum er jafnframt vísað til frumvarps þess sem varð að lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, en þar sé gert ráð fyrir því að leikskólakennarar geti átt kost á leyfisbréfi á grunnskólastigi og grunnskólakennarar á leikskólastigi á grundvelli framhaldsnáms í skilgreindum greinum. Um slík réttindi er fjallað í 21. gr. laga nr. 87/2008.

Samkvæmt framansögðu heimilar 3. mgr. 28. gr. laga um leikskóla og 3. mgr. 45. gr. laga um grunnskóla sveitarfélögum að reka saman leikskóla og grunnskóla og kveður á um eftir hvaða lagaákvæðum skuli þá fara. Ákvæðið er ekki afdráttarlaust um það hvort slíkur stjórnandi skuli hafa leyfisbréf sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 87/2008. Þó má finna vísbendingu um slíkt í áður nefndum skýringum. Nýti sveitarfélag sér heimildina fer um reksturinn samkvæmt lögum um viðkomandi skólastig. 

Ákvæði laga um grunnskóla eða leikskóla eru ekki afdráttarlaus um það hvort heimild til samreksturs geti tekið til hluta leikskóla, þ.e. efsta stigs hans. Í því sambandi verður ekki séð af orðalagi laganna eða lögskýringargögnum að heimild til samrekstrar sé bundinn við leikskóla sem heildar. Þegar horft er til þess að leikskólinn er valkvætt verkefni sveitarfélaga og aldursmörk barna eru ekki sérstaklega skilgreind samkvæmt lögum um leikskóla og enn fremur til þess markmiðs að styrkja tengsl leikskóla og grunnskóla verður að ætla sveitarfélögum nokkurt svigrúm með það hvernig þau skipuleggja samrekstur grunnskóla og leikskóla, þ. á m. með því að reka saman grunnskóla og leikskóla fyrir börn á lokaaldursstigi hans. Fari sveitarfélag slíka leið er hins vegar ljóst að um starfsemi skólastiganna fer samkvæmt lögum, reglugerðum og aðalnámskrá um viðkomandi skólastig.

Ákveði sveitarfélag að reka grunnskóla með 5 ára nemendum á leikskólastigi þá skal starfsemin skipulögð út frá lögum um leikskóla, aðalnámskrá leikskóla og á meginhugmyndafræði leikskólans en ekki út frá skóladagatali og stundaskrá grunnskóla.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum