Nr. 251/2025 Úrskurður
Hinn 4. apríl 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 251/2025
í stjórnsýslumáli nr. KNU24110025
Kæra [...]
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 2. nóvember 2024 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Litháen ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. október 2024, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í sjö ár.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að endurkomubanni hans verði markaður skemmri tími.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna (Sambandsborgaratilskipunin), auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk útgefna kennitölu 24. júlí 2019, samkvæmt skráningu í utangarðsskrá Þjóðskrár Íslands. Hann hefur þó ekki skráð lögheimili á Íslandi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. desember 2020, var kæranda brottvísað á grundvelli 3. mgr. 95. gr. laga um útlendinga þar sem dvöl hans væri ekki í samræmi við XI. kafla laga um útlendinga. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur kærandi síðan þá hlotið tvo refsidóma hér á landi, sem kveðnir voru upp 2. mars 2023 og 14. febrúar 2024 vegna brota gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og umferðarlögum nr. 77/2019. Því til viðbótar hefur kærandi gert eina lögreglustjórasátt vegna umferðarlagabrots, og sætt viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur vegna brots gegn almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.
Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2024, var kæranda tilkynnt að til skoðunar væri að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann með vísan til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis, sbr. 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Í bréfinu vísaði Útlendingastofnun til afbrotasögu kæranda en einnig til umsagnar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem vísað væri til opinna mála sem til meðferðar væru hjá lögreglu vegna ítrekaðra brota kæranda gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Í bréfinu reifaði Útlendingastofnun einnig upplýsingar um atvinnusögu og framfærslu kæranda sem skráðar væru hjá skattyfirvöldum. Var kæranda veittur þriggja daga frestur til þess að leggja fram greinargerð vegna málsins. Bréfið var birt fyrir kæranda 16. október 2024, og lýsti hann því yfir að hann hygðist leggja fram greinargerð vegna málsins. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. október 2024, var kæranda vísað brott frá Íslandi á grundvelli 1., sbr. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga og honum ákvarðað endurkomubann til landsins í sjö ár, sbr. 1. mgr. 96. gr. sömu laga.
Í ákvörðuninni fjallar Útlendingastofnun um brotaferil kæranda, auk upplýsinga sem fram komu í umsögn lögreglu og tilgreindu ítrekuð afskipti af kæranda vegna margvíslegra brota. Hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að 97. gr. laga um útlendinga stæði í veg fyrir brottvísun hans. Þegar ákvörðunin var rituð hafði kærandi ekki lagt fram andmæli en ekkert í gögnum málsins benti til þess að kærandi ætti nánasta ættingja hér á landi. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 22. október 2024, sbr. 3. málsl. 4. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.
Með tölvubréfi, dags. 2. nóvember 2024, var ákvörðunin kærð til kærunefndar útlendingamála, og 18. nóvember 2024 lagði kærandi fram greinargerð vegna málsins. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 26. mars 2025, var lagt fyrir kæranda að leggja fram frekari gögn og upplýsingar vegna málsins og honum veittur frestur til og með 2. apríl 2025. Beiðni kærunefndar laut að tengslum kæranda við barn sitt. Frekari gögn voru ekki lögð fram vegna málsins.
Samhliða kæru óskaði kærandi þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar á kærustigi, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt tölvubréfi heimferða- og fylgdadeildar ríkislögreglustjóra, dags. 6. nóvember 2024, var kærandi fluttur til heimaríkis þann sama dag. Í ljósi þess að kærandi hefur þegar verið fluttur til heimaríkis er ekki ástæða til þess að taka afstöðu til réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til atvika málsins og fyrirliggjandi ákvörðunar Útlendingastofnunar. Að sögn kæranda á hann barn á Íslandi sem sé íslenskur ríkisborgari en meðal fylgigagna er staðfesting Þjóðskrár Íslands á faðerni barnsins. Með vísan til barnsins telur kærandi að brottvísun sé bersýnilega ósanngjörn, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Telur kærandi að sú ráðstöfun að meina honum aðgengi að barni sínu sé augljóst brot gegn friðhelgi fjölskyldunnar. Þá byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki framkvæmt lögbundið mat samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga.
Að sögn kæranda séu tengsl hans við heimaríki engin, en að hann eigi rík tengsl við Ísland, með hliðsjón af barni hans. Að sögn kæranda sé skortur á tengslamati kæranda við barn hans á ábyrgð stjórnvalda sem eigi að leiða til ógildingar ákvörðunar Útlendingastofnunar. Þá vísar kærandi til nokkurra úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu, sem kveði skýrt á um að tengslamat hafi farið fram áður en ákvörðun um brottvísun sé tekin, sbr. til hliðsjónar Makdoudi gegn Belgíu (nr. 12848/15) frá 18. febrúar 2020, Saber og Boughassal gegn Spáni (nr. 76550/13 og 45938/14) frá 18. desember 2018, og I.M. gegn Sviss (nr. 23887/16) frá 9. apríl 2019. Af hinni kærðu ákvörðun sé ljóst að engin merki um að félagsleg-, menningarleg, og fjölskyldutengsl kæranda hafi verið metin og því fullnægi ákvörðun Útlendingastofnunar ekki lagaskilyrðum 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Því sé ekki heimilt að brottvísa kæranda á þeim grundvelli sem Útlendingastofnun byggði á. Að mati kæranda sé mikil hætta á óafturkræfu tengslarofi hjá barninu, og stjórnvöldum beri að taka tillit til hagsmuna barnsins, sbr. 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, og réttar þess til að þekkja báða foreldra, sbr. 1. mgr. 1. gr. a. sömu laga. Þá vísar kærandi einnig til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu um samband á milli föður og barns, óháð sambúð við móður. Útlendingastofnun hafi ekki gætt að ákvæðum 10., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga, auk þess að virða lögmætisregluna að vettugi.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Í 95. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Í 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga segir að brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sé heimil ef framferði viðkomandi feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skuli ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnaforsendum. Ef viðkomandi hafi verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar, sé brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil, að um sé að ræða háttsemi sem geti gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur kærandi hlotið tvo refsidóma hér á landi, sem kveðnir voru upp 2. mars 2023 og 14. febrúar 2024 vegna ítrekaðra brota gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum, og lögum um ávana- og fíkniefni. Því til viðbótar var kæranda gert að sæta viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 12. apríl 2021, vegna þjófnaðar, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga, og brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Loks hefur kærandi gert eina lögreglustjórasátt, dags. 4. mars 2024, vegna umferðarlagabrota.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-3265/2022, dags. 2. mars 2023, var kærandi dæmdur til 12 mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið til þriggja ára. Í dóminum var kærandi fundinn sekur um tvær líkamsárásir, aðra sem varðaði 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga en hin á grundvelli 1. mgr. 217. gr. sömu laga. Kærandi var jafnframt sakfelldur fyrir 13 þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga, fimm fjársvikabrot, sbr. 248. gr. laganna, þar af eitt tilraunabrot, skjalabrot, sbr. 1. mgr. 157. gr. sömu laga, ásamt þremur tilfellum nytjastuldar, sbr. 259. gr. almennra hegningarlaga. Þar að auki braut kærandi í eitt skipti gegn lögum um ávana- og fíkniefni ásamt einu tilviki fíkniefnaaksturs, sbr. 50. gr. umferðarlaga. Brot kæranda voru framin á tímabilinu 6. febrúar 2020 til 10. júní 2022. Samtala verðmæta fjármunabrota kæranda var 526.447 kr., en því til viðbótar lutu nokkur þjófnaðarbrot kæranda að innbrotum í bifreiðir einstaklinga þar sem kærandi stal munum á borð við farsíma, fartölvu, verkfæri og önnur raftæki, að óþekktum verðmætum. Kæranda var gerður hegningarauki vegna málsins með hliðsjón af fyrri viðurlagaákvörðun. Því næst var kærandi dæmdur til 17 mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-7060/2023, dags. 14. febrúar 2024. Með dóminum var kærandi fundinn sekur um samtals 26 þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga, en samtala brotanna var 557.060 kr. Brot kæranda voru framin á tímabilinu 20. apríl 2021 til 6. ágúst 2023.
Framangreindu til viðbótar liggur fyrir umsögn lögreglu, dags. 30. september 2024, þar sem kemur fram að kærandi eigi samtals tíu ólokin mál vegna 11 þjófnaðar- og fjársvikabrota, sem eru til meðferðar á ákærusviði eða í rannsókn. Lögregla hafi haft ítrekuð afskipti af kæranda allt frá október 2019 og þar til umsögnin er rituð. Metur lögregla sem svo að kærandi muni halda áfram brotaferli sínum og ógna þar með grundvallarhagsmunum samfélagsins.
Við mat á því hvort framferði kæranda sé þess eðlis að skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt, sbr. 27. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38, verður einkum að líta til þess að kærandi hafi tvívegis verið dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir ítrekuð brot yfir langt tímabil. Af brotaferli kæranda verður jafnframt ráðið að tíðni brotanna hafi aukist eftir því sem leið á og verðmæti einstakra þjófnaðarbrota farið hækkandi. Þá hafi kærandi í nokkur skipti brotist inn á heimili fólks og í bifreiðar og stolið einstökum munum. Af atvikalýsingu og sönnunarfærslu í dómi nr. S-3265/2022 liggur fyrir að kærandi hafi í tvö skipti haft ásetning til þess að stela verðmætum, en þegar afskipti hafi verið höfð af honum hafi hann beitt ofbeldi, annars vegar með því að fingurbrjóta einstakling á heimili hans, sbr. 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en í hitt skiptið með því að taka öryggisvörð verslunar kyrkingartaki, sbr. 1. mgr. 217. gr. sömu laga. Með vísan til framangreinds gefur háttsemi kæranda til kynna að hann muni fremja refsiverð afbrot á ný, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga.
Ljóst er að einstök brot gegn almennum hegningarlögum og öðrum sérrefsilögum fela ekki sjálfkrafa í sér alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Þvert á móti þarf mat stjórnvalda á 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga að endurspegla háttsemi og brotahegðun kæranda í víðara samhengi. Að virtri tíðni afbrota, langs brotaferils, og aukins alvarleika þeirra felur framferði kæranda í sér raunverulega og yfirvofandi ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins í skilningi 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Þá á kærandi ólokin mál hjá lögreglu sem eru til marks um hegðunarmynstur. Er skilyrðum fyrir brottvísun samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga fullnægt.
Í 1. mgr. 97. gr. laga um útlendinga eru ákvæði um takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 95. gr. laga um útlendinga. Í a-lið 1. mgr. 97. gr. er kveðið á um að brottvísun samkvæmt 95. gr. skuli ekki ákveða ef viðkomandi hefur rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 87. gr. nema alvarlegar ástæður liggi til þess á grundvelli allsherjarreglu og almannaöryggis. Samkvæmt gögnum málsins skráði kærandi lögheimili sitt hér á landi 24. júlí 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. desember 2020 var kæranda brottvísað á grundvelli 3. mgr. 95. gr. laga um útlendinga, þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði dvalar. Slíkri ákvörðun fylgir ekki endurkomubann, sbr. gagnályktun frá 1. málsl. 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga. Ákvörðunin var ekki kærð til kærunefndar. Frá ákvörðuninni hafi dvöl kæranda hér á landi ekki verið á grundvelli laga. Stendur 1. mgr. 97. gr. laga um útlendinga því ekki í vegi fyrir brottvísun kæranda.
Í 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga koma jafnframt fram takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 95. gr. laganna. Í ákvæðinu segir að brottvísun skuli ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum EES- eða EFTA-borgara eða nánustu aðstandendum hans við landið myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skuli m.a. tekið mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu- og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga.
Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda eða nánustu aðstandendum hans verður jafnframt að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans. Þau sjónarmið sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar í málum af þessum toga eru til að mynda eðli þess brots sem viðkomandi hefur gerst sekur um, lengd dvalar viðkomandi í því ríki sem tekur ákvörðun um brottvísun og félags-, menningar- og fjölskyldutengsl viðkomandi við dvalarríki og heimaríki, sbr. t.d. mál Üner gegn Hollandi (46410/99) frá 18. október 2006 og Balogun gegn Bretlandi (nr. 60286/09) frá 4. október 2013 og Ndidi gegn Bretlandi (nr. 41215/15) frá 14. september 2017.
Líkt og fram kom í málatilbúnaði kæranda ber hann fyrir sig að vera faðir barns sem sé íslenskur ríkisborgari en ekki voru lögð fram önnur gögn sem sýndu fram á raunveruleg tengsl kæranda við umrætt barn. Kærandi gerði ekki grein fyrir þessari málsástæðu við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og tók stofnunin því ekki afstöðu til tengslanna í sinni ákvörðun. Með tölvubréfi, dags. 26. mars 2025, lagði kærunefnd fyrir kæranda að leggja fram frekari gögn og upplýsingar sem sýnt gætu fram á tengsl kæranda við barn sitt, svo sem gögn um forsjá, lögheimili, meðlagsgreiðslur, umgengni, og tengsl feðginanna að öðru leyti. Kærandi lagði ekki fram frekari gögn eða skýringar. Að framangreindu virtu verður ekki lagt til grundvallar að kærandi eigi slík tengsl við barn eða aðra nánustu aðstandendur hér á landi, í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá bera gögn málsins ekki með sér að kærandi hafi önnur félagsleg eða menningarleg tengsl við landið. Samkvæmt staðgreiðsluyfirlitum Ríkisskattstjóra hefur kærandi ekki stundað atvinnu hér á landi frá árinu 2019 og hefur því afar lítil tengsl við landið á grundvelli atvinnu. Bendir brotaferill kæranda til þess að hann hafi einkum reynt að sjá sér farborða með ítrekuðum auðgunarbrotum.
Að framangreindu virtu stendur 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga ekki í vegi fyrir brottvísun kæranda frá landinu. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda því staðfest. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga felur brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. í sér bann við komu til landsins síðar. Í sama ákvæði er kveðið á um að endurkomubann geti verið varanlegt eða tímabundið en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skuli sérstaklega litið til atriða sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda bönnuð endurkoma til Íslands í sjö ár. Að málsatvikum virtum og með hliðsjón af tíðni brota kæranda verður endurkomubann hans staðfest. Þá horfir kærunefnd einnig til þess að réttur kæranda til dvalar hafði þegar verið felldur brott. Athygli er vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Þá er athygli kæranda jafnframt vakin á því að tímabilið sem kæranda er bönnuð endurkoma til landsins hefst við framkvæmd brottvísunar.
Samantekt
Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir Vera Dögg Guðmundsdóttir