Hoppa yfir valmynd
18. júní 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 220/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 220/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19100081

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. október 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera […], vera ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. október 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er gerð sú krafa að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. nóvember 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 8. nóvember 2018, 17. júlí 2019 og 26. ágúst 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 8. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 29. október 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. nóvember 2019. Kærunefnd bárust viðbótarathugasemdir og gögn frá kæranda þann 23. desember 2019, 9. janúar 2020, 30. apríl 2020, 4., 5. og 13. maí 2020. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 30. apríl 2020 ásamt talsmanni sínum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna hótana af hálfu ISIS hryðjuverkasamtakanna og vegna blóðhefndardeilu.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hann væri Kúrdi og hafi fæðst og alist upp í Erbil í Kúrdistan. Fjölskylda hans hafi neyðst til að flýja þaðan árið 2013 vegna blóðhefndardeilu sem fjölskylda hans hafi staðið í við aðra fjölskyldu á svæðinu. Síðan þá hafi kærandi búið í héraðinu […] í Írak og verið skráður íbúi þar allt þar til hann hafi neyðst til að flýja heimaríki sitt árið 2018. Kærandi hafi greint frá því að eftir að ISIS hafi farið að láta til sín taka í heimaríki hans hafi hann orðið afhuga íslamstrú og tekið upp Zaraþústratrú. Hann hafi ekki rætt trúskipti sín opinberlega enda væri slíkt ekki samþykkt af samfélaginu. Ætti hann á hættu að vera útskúfaður úr samfélaginu og jafnvel drepinn ef það kæmist upp. Þá hafi kærandi greint frá því að hafa starfað fyrir frönsk félagasamtök sem kallist ACTED og hafi starf hans m.a. falist í að taka út nýlega frjáls svæði á hinum svokölluðu rauðu og appelsínugulu svæðum í Írak. Samtökin hafi m.a. átt í samstarfi við bandaríska herinn og hafi það skapað ákveðna hættu fyrir þau sem þar störfuðu, bæði af hálfu írakskra öryggissveita sem og ISIS. Kærandi hafi jafnframt greint frá því að ACTED hafi haft yfirumsjón með búðum sem fjölskyldur ISIS liða hafi búið í. Kæranda hafi verið gert að ráða fólk af svæðinu til starfa fyrir ACTED og hafi hann hagað þeim ráðningum eftir bestu getu. Í júlí 2018 hafi kærandi fengið veður af því að einn aðstoðarmanna hans, [...], væri háttsettur meðlimur innan raða ISIS og að íröksk yfirvöld leituðu hans. Kærandi hafi ákveðið að tilkynna umræddan aðila til írakskra öryggissveita enda hafi honum fundist hann hafa gert mistök við ráðningu hans á sínum tíma. Hafi hann haft samband við mann að nafni [...] sem hafi verið yfir öllu svæðinu. Daginn eftir það hafi öryggissveitir handtekið umræddan aðila og um tíu dögum síðar hafi þær handtekið annan aðila sem kærandi hafi einnig ráðið, mann að nafni [...], vegna starfa hans fyrir ISIS. Kærandi hafi greint frá því að ACTED hafi í kjölfarið eytt öllum gögnum um framangreinda aðila og sagt írökskum öryggissveitum að þeir hafi einungis starfað fyrir samtökin í viku sem verktakar í þeim tilgangi að forðast frekari vandræði.

Í ágúst 2018, um tveimur vikum eftir síðari handtökuna, hafi kærandi fengið textaskilaboð frá ISIS þar sem fram hafi komið að samtökin vissu að kærandi hafi sagt til þeirra og að þau myndu ná fram hefndum. Kærandi hafi haft samband við fyrrnefndan [...] vegna skilaboðanna en hann hafi gert lítið úr skilaboðunum og sagt svæðið vera öruggt. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hefði [...] viðurkennt að ISIS væri virkt á svæðinu hefði hann í raun verið að viðurkenna mistök öryggissveitanna og myndu þær þá missa stöðu sína. Í ágúst eða september 2018 hafi kærandi komist að því að ISIS hefði ráðist á meðlimi öryggissveita í nálægu þorpi og myrt þrjá einstaklinga. Kærandi hafi þá áttað sig á að ISIS gæti allt eins ráðist að honum sjálfum. Hann hafi í framhaldinu haft samband við breska leyniþjónustu, INSO, sem hafi búið yfir upplýsingum um öryggisástand í landinu, og hafi hún staðfest við kæranda að ISIS hefði svokallaða sleeper cells í [...], þ.e. hóp leynifulltrúa innan ISIS sem hafi verið óvirkir um tíma innan svæðisins. Í kjölfarið hafi kærandi skýrt frá áhyggjum sínum við svæðisstjóra ACTED og að hann teldi sig ekki öruggan í landinu. ACTED hafi látið kæranda í té ákveðin gögn og bent honum á að leita til Alþjóða-fólksflutningastofnunar Sameinuðu þjóðanna (IOM). Kærandi kvað IOM vera með ákveðna ferla til að aðstoða Íraka sem væru í hættu vegna starfa sinna fyrir erlend samtök að yfirgefa landið. IOM hafi greint kæranda frá því að ferlið myndi taka um ár. Kærandi hafi talið það of langan tíma og hafi því neyðst til að flýja landið á eigin spýtur.

Kærandi kveðist óttast ISIS í heimaríki sínu og geti ekki farið til […] vegna hættuástandsins sem þar ríki. Þá geti hann ekki farið til Erbil vegna framangreindrar blóðhefndardeilu. Hann telji jafnframt íröksk yfirvöld ekki getað verndað borgara sína. Þá geti stjórnmálaflokkur hans, KDP, ekki verndað hann gegn blóðhefndardeilunni þar sem um sé að ræða félagslega deilu á milli aðila sem þeir geti ekki skipt sér af. Auk þess geti óvinir fjölskyldunnar látið til skara skríða hvenær sem er, að nóttu eða degi. Kærandi eigi ekki neina fjölskyldumeðlimi í Erbil ef frá sé talin systir hans sem sé ekki flækt í blóðhefndardeiluna og sé nú gift. Þá hafi kærandi greint frá því að frá því í lok árs 2016 og þar til í mars 2017 hafi hann starfað fyrir ACTED á óformlegan hátt, þ.e. á grundvelli verksamninga þar sem greitt hafi verið fyrir hvern unninn dag.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Írak, m.a. stöðu ISIS í landinu, takmarkanir á trúfrelsi og bann við trúskiptum múslima, blóðhefndardeilur og möguleika á vernd í Kúrdistan.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir vegna trúarbragða og vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem annars vegar þolandi skipulagðrar glæpastarfsemi og hins vegar sem meðlimur í fjölskyldu sem eigi í blóðhefndardeilu. Kærandi óttist fyrst og fremst að meðlimir ISIS taki hann af lífi en hann hafi nú þegar fengið hótanir þar um. Jafnframt telji kærandi að yfirvöld muni ekki getað verndað hann og ekki skipti máli að hann sé virkur innan stjórnmálaflokksins KDP. Þá hafi kærandi snúið baki við íslam og tekið upp Zaraþústratrú sem geti leitt til ofsókna á hendur honum eða jafnvel lífláts í heimaríki hans, sbr. b-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Einstaklingar sem snúi baki við íslam séu réttdræpir að mati margra í heimaríki kæranda. Slíkir einstaklingar og börn þeirra kunni að verða fyrir ýmiskonar mismunun, áreiti og ofbeldi af hálfu opinberra aðila og almennings. Um sé að ræða samsafn ástæðna, þ.m.t. ólögmæta mismunun og slæmt öryggisástand sem hafi eða geti haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling og ofsóknir skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji yfirvöld hvorki hafa getu né vilja til að veita honum vernd gegn ISIS í […] eða þeim sem standi að baki blóðhefndardeilunni, auk þess sem yfirvöld séu á meðal þeirra sem mismuni og áreiti þá sem snúið hafi baki við Íslam, sbr. a- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu eða annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Einnig eigi hann á hættu að verða fyrir skaða af völdum árása í vopnuðum átökum stjórnvalda og ýmissa hryðjuverkasamtaka þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði honum gert að snúa aftur heim. Kæranda hafi nú þegar borist líflátshótanir frá ISIS en samtökin hafi sterka stöðu í […]. Þá séu allar líkur á því að kærandi yrði tekinn af lífi af fjölskyldu mannsins sem föðurbróðir kæranda hafi myrt ef hann myndi flytja aftur til Erbil. Þá sé félagsleg, efnahagsleg, pólitísk og lagaleg jaðarsetning staðreynd fyrir meðlimi trúarlegra minnihlutahópa og eigi kærandi jafnvel á hættu að verða tekinn af lífi vegna þessa, jafnvel í Kúrdistan þrátt fyrir að yfirvöld þar hafi formlega viðurkennt Zaraþústratrú sem trú. Þá eigi síðari hluti ákvæðisins jafnframt við en samkvæmt heimildum sé ástandið í landinu óstöðugt og geti versnað snögglega.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi m.a. fram að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í greinargerð kæranda kemur fram að fjölskylda kæranda, sem búið hafi í […] frá árinu 2013, hafi nú neyðst til að leggja á flótta þaðan vegna almenns ástands þar. Hafist þau við í litlu þorpi en eigi í raun ekkert heimili. Stuðningsnet kæranda í heimaríki sé því afar veikt.

Kærandi telur að með endursendingu hans til Íraks yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Í greinargerð kæranda koma fram fjölmargar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar er snúa einkum að því hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í málinu.

Þann 23. desember 2019 barst tölvupóstur frá talsmanni kæranda þar sem fram kom að kærandi hafi á undanförnum misserum áttað sig betur á kynhneigð sinni. Hann sé samkynhneigður og hafi átt í sambandi við karlmann hér á landi. Vísaði talsmaður til þess að aðstæður LGBTI einstaklinga í Írak væru slæmar og vísaði í ákvarðanir Útlendingastofnunar því til stuðnings. Þann 4. maí 2020 barst kærunefnd viðbótargreinargerð kæranda þar sem hann krefst til þrautaþrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, enda hafi hann ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki framvísað neinum skilríkjum til að sanna á sér deili. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram skjal sem hann kvað vera írakskt ökuskírteini. Samkvæmt skjalarannsókn lögreglu er um að ræða ófalsað skjal og telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé írakskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Iraq (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country of Origin Information Report – Iraq – Actors of Protection (European Asylum Sup-port Office, 3. desember 2018);
  • Country of Origin Information Report – Iraq – Security situation (European Asylum Support Office, 11. mars 2019);
  • Country of Origin Information Report – Iraq – Targeting of Individuals (European Asylum Support Office, 6. mars 2019);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Blood feuds (UK Home office, febrúar 2020);
  • Country Policy and Information Note - Iraq: Internal relocation, civil documentation and re-turns (UK Home Office, febrúar 2019);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Medical and healthcare issues (UK Home Of-fice, maí 2019);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Perceived collaborators (UK Home Office, febrúar 2019);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Religious minorities (UK Home Office, október 2019);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, 16. nóvember 2018);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Sexual orientation, and gender identity and expression (UK Home Office, október 2018);
  • Freedom in the World 2020 - Iraq (Freedom House, mars 2020);
  • Guidance for Adjudicating Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender, and Intersex (LGBTI) Refu-gee and Asylum Claims – Training Module (U.S. Citizenship and Immigration Services, 28. desember 2011);
  • Guidelines on International Protection no. 9 – Claims to Refugee Status based on Sexual Orientation and/or Gender Identity within the context of Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugees (UNHCR, 23. október 2012);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, 3. maí 2019);
  • Irak: Basisinfo (Landinfo, 28. september 2018);
  • Irak – desertering (Migrationsverket, 12. janúar 2018);
  • Irak: Politi og rettsvesen i de tre kurdiskstyrte provinsene (KRI) (Landinfo, 27. október 2016);
  • Iraq 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Iraq 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Thematic report: The Security Situation in Iraq -July 2016-November 2017 (version 4.0) (Mi-grationsverket, 18. desember 2017);
  • The Kurdistan Region of Iraq (KRI) Access, Possibility of Protection, Security and Humanitar-ian Situation (Danish Immigration Service, 1. apríl 2016);
  • The future of health care in the Kurdistan Region – Iraq – Toward and Effective, High Quality system with an emphasis on Primary Care, (Rand Health Quarterly, 2014);
  • The Kurds: History – Religion – Language – Politics (Austrian Federal Ministry of the Interior, nóvember 2015);
  • The World Factbook – Iraq (Central Intelligence Agency, 9. apríl 2020);
  • UNHCR Guidance Note on Refugee Claims Relating to Sexual Orientation and Gender Identity (UNHCR, 21. nóvember 2008);
  • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016);
  • Wilting in the Kurdish Sun – The Hopes and Fears of Religious Minorities in Northern Iraq (United States Commission on International Religious Freedom, maí 2017) og
  • World Report 2019 – Iraq: Events of 2018 (Human Rights Watch, janúar 2019).

Samkvæmt framangreindum gögnum er Írak lýðræðisríki með tæplega 40 milljónir íbúa. Írak varð til eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar Þjóðabandalagið ákvarðaði núverandi landamæri Íraks. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins 1932, þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið 1958 þegar komið var á fót lýðveldi. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Í framangreindum gögnum kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Hafi samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá hafi íröksk yfirvöld ekki fulla stjórn yfir hersveitum sínum og dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda fremji mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Ráða má af framangreindum gögnum að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að úrbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 1800 lögreglumenn og 900 dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í framangreindum gögnum kemur fram að flestir Kúrdar í Írak búi í norðurhluta landsins. Áður en ráðist hafi verið inn í Írak árið 2003 hafi héruð í norðurhluta landsins lotið stjórn pólitískra yfirvalda Kúrda. Árið 2005 hafi Kúrdum verið tryggð svæðisbundin sjálfstjórn í stjórnarskrá Íraks og sé norðausturhluti landsins skilgreindur sem sjálfsstjórnarsvæði Kúrda (e. Kurdish Region of Iraq (KRI)). Áratugum saman hafi tveir stjórnmálaflokkar verið ráðandi í KRI en það séu PUK flokkurinn (e. The Patriotic Union of Kurdistan) og KDP flokkurinn (e. The Kurdistan Democratic Party). Í september 2013 hafi orðið talsverðar breytingar þegar PUK flokkurinn hafi misst stöðu sína sem næststærsti flokkurinn til klofningsframboðsins Gorran (e. The Movement for Change). Í kosningum sem fram fóru þann 30. september 2018 hafi PUK flokkurinn endurheimt stöðu sína sem annar stærsti flokkurinn og KDP flokkurinn haldið stöðu sinni sem stærsti flokkurinn í KRI. Samband PUK flokksins og KDP hafi jafnan verið stirt og einkennst af vantrausti sem og vopnuðum átökum. Þrátt fyrir almennan óstöðugleika í mörgum öðrum landshlutum Íraks hafi stjórn KRI á síðustu árum náð að viðhalda pólitískum stöðugleika, tryggja öryggi almennra borgara og auka hagvöxt innan svæðisins. Löggæsla sé mun markvissari í KRI, sé það landsvæði borið saman við suður og mið-Írak. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir svæðisstjórn Kúrda en ekki ríkisstjórn Íraks. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé KRI einnig með öryggissveit sem nefnist Asayish. Hersveitir kúrdíska hersins, Peshmerga, tryggi að sjálfsstjórnarhéruð Kúrda séu tiltölulega örugg miðað við önnur svæði í Írak. Her Kúrda og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn uppreisnarmönnum Daesh og annarra tengdra samtaka.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2019 kemur fram að dæmi séu um að blóðhefndir eigi sér stað í KRI. Blóðhefndir séu endurteknar hefndaraðgerðir á milli ættbálka eða fjölskyldna sem birtist í formi ofbeldis og morða. Orsök blóðhefnda sé yfirleitt rakin til skulda, eignaréttardeilna, heiðursmorða og annarra deilna á milli ættbálka eða fjölskyldna. Ekki leiði þó allar slíkar deilur til blóðhefnda þar sem í mörgum tilfellum geti einstaklingar greitt svokallaða blóðpeninga (e. blood money) sem skaðabætur til þess að forðast blóðhefndir. Einungis sé það í tilfellum þar sem ættbálkar eða fjölskyldur geti ekki leyst deilur á friðsamlegan hátt sem það leiði til blóðhefnda. Þá hafi dómsmálaráðuneyti Íraks árið 2018 komið á fót eins konar gerðardómi, samsettum af leiðtogum mismunandi ættbálka í ríkinu, til þess að auka líkur á því að einstaklingar leysi slíkar deilur með friðsamlegum hætti. Algengara sé að blóðhefndir eigi sér stað í suðurhluta Íraks og á svæðum þar sem hryðjuverkasamtökin ISIS hafi áður haft yfirráð. Dæmi séu um að lögreglumenn og dómarar sem tilheyri tilteknum ættbálkum séu hikandi við að veita einstaklingum vernd vegna ótta við hefndir af hálfu annarra ættbálka. Yfirleitt standi þó til boða skilvirkari vernd í KRI en í öðrum hlutum landsins.

Af framangreindum gögnum má ráða að íslam sé hin opinbera trú í Írak. Um 95-98% íbúa Íraks séu múslimar og þar af séu flestir þeirra sjía-múslimar. Stjórnarskrá landsins tryggi trúfrelsi og flestir pólitískir leiðtogar hafi lýst yfir stuðningi við fjölbreytileika í trúarbrögðum. Einhverjir stjórnmálamenn fordæmi þó veraldarhyggju og trúleysi. Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá ágúst 2018 kemur fram að í íröksku samfélagi séu einstaklingar skilgreindir út frá þeim trúarhópum sem þeir fæðist inn í. Fram kemur í skýrslu United States Commission on International Religious Freedom frá 2019 að lög frá 2015 um minnihlutahópa í KRI viðurkenni m.a. Zaraþústratrú og kveði á um jafnt fyrirsvar allra minnihlutahópa. Ekki sé vitað hversu margir aðhyllist Zaraþústratrú í KRI en talið sé að það séu allt að hundrað þúsund einstaklingar. Einu trúarbrögðin sem geti verið tilgreind á skilríkjum einstaklinga séu kristni, sabaean-mandean, jasídi og íslam. Því séu einstaklingar sem aðhyllist Zaraþústratrú skráðir múslimar á skilríkjum. Þá segir í ofangreindum gögnum að þrátt fyrir að brot á trúfrelsi þekkist í KRI séu þau hvorki kerfisbundin, viðvarandi né ómannúðleg. Fram kemur að Zaraþústratrú njóti meiri viðurkenningar í KRI en öðrum svæðum Íraks. Þá hafi ráðuneyti KRI sem fari með trúarleg málefni (e. Ministry of Endowments and Religious Affairs) sýnt velvild í garð einstaklinga sem aðhyllist Zaraþústratrú, auk vilja til þess að hjálpa þeim að dafna í samfélaginu. Þrátt fyrir að íröksk lög geri það óheimilt fyrir múslima að skipta um trú, hafi á undanförnum árum orðið algengara að einstaklinga snúast til Zaraþústratrúar frá íslam. Talið sé að á bilinu 10 til 100 þúsund múslimar hafi skipt yfir í Zaraþústratrú árið 2015. Talið sé að trúskiptin útskýrist af tveimur ástæðum, annars vegar eigi Zaraþústratrú sér djúpar rætur í sögu KRI og hins vegar sé um að ræða viðbrögð múslima við uppgangi hryðjuverkasamtakanna ISIS og öðrum öfgahópum sem kenni sig við íslam. Slíkir öfgahópar líti á fráhvörf frá íslam sem glæp eða jafnvel föðurlandssvik og hafi einstaklingar sem aðhyllist Zaraþústratrú tilkynnt um hótanir og áreiti af hálfu hópa sem kenni sig við íslam. Jafnframt mæti einstaklingar sem skipti yfir í aðra trú frá íslam almennt mótstöðu af hálfu lögreglu og öryggissveita. Samkvæmt skýrslu EASO frá 2018 sé þó ekki vitað um tilvik þar sem einstaklingar hafi verið dæmdir fyrir slík trúarskipti eftir árið 2015.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2018 eru engin lög í Írak sem beinlínis geri það refsivert að stunda kynferðislegar athafnir með aðila af sama kyni. Stjórnvöld hafi þó stuðst við lög er varði ósiðlæti á almannafæri (e. public indecency) og vændi og ákært og sakfellt hinsegin fólk á þeim grundvelli. Árið 2017 hafi fjölmargir einstaklingar verið handteknir og sakfelldir fyrir að hafa stundað kynferðislegar athafnir með aðila af sama kyni. Þá kveði lög ekki á um bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar. Staða samkynhneigða sé talsvert betri í KRI en í öðrum hlutum Íraks, þá einkum í þéttbýlum. Þrátt fyrir það sé samkynhneigð mikið feimnismál innan KRI og mikil skömm fylgi almennt fjölskyldu samkynhneigðs einstaklings. Þá séu samkynhneigðir einstaklingar oft þvingaðir í hjónaband með aðila af gagnstæðu kyni til þess að koma í veg fyrir að upp komist um raunverlega kynhneigð þeirra. Þá hafi stjórnvöld í KRI leyft frjálsum félagasamtökum að tala fyrir réttindum hinsegin fólks. Frjálsu félagasamtökin IraQueer hafi gagnrýnt stjórnvöld og fleiri fyrir að bregðast ekki við mismunun gagnvart hinsegin fólki. Samkvæmt gögnum sem samtökin hafi aflað megi rekja 53% brota gagnvart hinsegin fólki til stjórnvalda og hópa tengdum stjórnvöldum, 27% brota til fjölskyldumeðlima, 10% brota til hryðjuverkasamtakanna ISIS og 10% til ótilgreindra aðila. Hinsegin fólk upplifi almennt mikla mismunun, hótanir, árásir, mannrán og í sumum tilfellum sé það myrt. Flestir hinsegin einstaklingar óttist áreitni og ofbeldi af hálfu almennings, lögreglunnar og eigin fjölskyldu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 kemur ennfremur fram að þrátt fyrir ítrekaðar hótanir og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki, einkum samkynhneigðum mönnum, hafi yfirvöld látið hjá líða að bera kennsl á árásarmenn og sækja þá til saka, auk þess sem þolendum hafi ekki verið veitt vernd af hálfu yfirvalda. Fram kemur að samkvæmt frjálsum félagasamtökum í Írak séu engin úrræði í boði fyrir hinsegin fólk sem verði fyrir alvarlegri mismunun, pyndingum, ofbeldi eða líflátshótunum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem rekja megi til hefndaraðgerða gagnvart honum af hálfu ISIS. Auk þess óttist hann blóðhefndardeilu sem fjölskylda hans standi í Erbil. Kærandi hafi þá jafnframt snúið baki við íslam og tekið upp Zaraþústratrú sem leitt geti til ofsókna á hendur honum í heimaríki. Á meðan kærandi hafi verið staddur hér á landi hafi hann áttað sig á því að hann sé samkynhneigður og óttist ofsóknir og mismunun verði honum gert að fara aftur til heimaríkis. Þá hafi yfirvöld í heimaríki kæranda hvorki getu né vilja til að veita honum vernd, auk þess sem yfirvöld séu á meðal þeirra sem mismuni og áreiti þá sem snúið hafi baki við Íslam og séu samkynhneigðir, sbr. a- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá kærunefnd þann 30. apríl 2020, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Kærunefnd telur ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar frásögn kæranda um að hann hafi starfað fyrir samtökin ACTED í Írak. Þá fellst kærunefnd jafnframt á að leggja til grundvallar að kærandi sé Zaraþústratrúar og að fjölskylda hans hafi staðið í deilum við aðra fjölskyldu í Erbil.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa fæðst og alist upp í borginni Erbil sem staðsett er innan sjálfstjórnarsvæðis Kúrda. Kærandi og fjölskylda hans hafi flúið þaðan til […], utan sjálfstjórnarsvæðisins, árið 2013 vegna blóðhefndardeilu í Erbil og búi fjölskylda hans nú í þorpi nálægt […]. Kærandi lagði fram búsetuvottorð föður síns máli sínu til stuðnings. Þá leggur kærunefnd til grundvallar, m.t.t framburðar kæranda og framlagðra gagna, að kærandi hafi starfað og búið í […] héraði áður en hann hafi komið hingað til lands. Með vísan til framangreinds og þess tíma sem kærandi var búsettur í […] verður að mati kærunefndar að leggja til grundvallar að þar hafi kærandi haft búsetu. Verður því að taka afstöðu til málsástæðna kæranda með hliðsjón af aðstæðum á því svæði.

Í tölvupósti sem kærunefnd barst frá kæranda þann 23. desember 2019 greindi kærandi frá því að eftir komuna til Íslands hafi hann áttað sig á því að hann væri samkynhneigður og væri í sambandi með karlmanni hér á landi. Í viðtali hjá kærunefnd þann 30. apríl 2020 kvaðst kærandi hafa áttað sig á því að hann væri samkynhneigður eftir að hafa kynnst konu sem hafi flust til Íslands og áttað sig á því að hún væri samkynhneigð. Hann hafi þá farið að hugsa út í kynhneigð sína og áttað sig á því að hann væri samkynhneigður. Jafnframt kvaðst kærandi hafa átt í sambandi við tvo menn hér á landi. Í ljósi framburðar kæranda í viðtali hjá kærunefnd var að mati nefndarinnar uppi vafi um trúverðugleika kæranda varðandi kynhneigð hans. Í tölvupósti til kæranda þann sama dag óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum sem styddu við frásögn kæranda, m.a. framlagningu á ljósmyndum og skjáskotum af samskiptum kæranda við framangreinda menn. Í tölvupósti til kæranda, dags. 4. maí 2020, var skýrt tekið fram að ekki væri verið að óska eftir myndum af kynferðislegum toga. Í svari kæranda sem kærunefnd barst þann 5. maí 2020, kom fram að kærandi ætti einungis myndir af kynferðislegum toga. Ráða má skýrlega af tölvupósti kæranda að honum hafi verið ráðlagt af ótilgreindum aðila að leggja slíkar myndir fram hjá kærunefnd.

Kærandi lagði fram skjáskot af Facebook-síðu annars mannsins en kvaðst ekki geta lagt fram skjáskot af samskiptum sínum við hann þar sem hann hafi eytt þeim öllum. Þá kvað kærandi manninn jafnframt ekki vita sitt raunverulega auðkenni þar sem hann hafi sagt manninum að hann væri fyrrum hermaður frá Mið-Austurlöndum og hafi flutt til Íslands vegna vinnu. Kærandi gaf þó upp nafn og símanúmer hins mannsins og hafði kærunefnd samband við hann þann 11. maí 2020. Samkvæmt frásögn mannsins hafi hann og kærandi einungis hist einu sinni og stundað kynlíf sem kærandi hafi myndað á farsíma sinn. Eftir það hafi kærandi hætt að svara skilaboðum mannsins. Að sögn mannsins hafi aldrei verið um samband að ræða. Var framburður mannsins trúverðugur og dró að mati kærunefndar enn frekar úr trúverðugleika kæranda. Í tölvupósti þann 11. maí 2020 gaf kærunefnd kæranda kost á að koma á framfæri andmælum við frásögn mannsins. Í svari sem kærunefnd barst frá kæranda þann 13. maí 2020 gaf hann m.a. þær skýringar að maðurinn væri sér reiður þar sem kærandi hafi hætt samskiptum við hann eftir að Covid-19 heimsfaraldurinn hafi skollið á. Í tölvupóstinum kvað kærandi manninn hafa sagt sér nokkrum dögum áður að hann væri afbrýðissamur þar sem hann hafi séð kæranda einan á bar fyrir samkynhneigða eftir að hann hafi hætt samskiptum við sig. Þá kvað kærandi manninn vera kominn með nýjan kærasta og þyrfti því ekki á kæranda að halda lengur. Að mati kærunefndar voru skýringar kæranda ótrúverðugar m.a. í ljósi þess að umræddur bar sem kærandi kvaðst hafa verið á hafði verið lokaður í u.þ.b. tvo mánuði vegna heimsfaraldursins þegar kærandi veitti framangreindar skýringar. Sama dag lagði kærandi fram hljóðupptökur af samtali á milli sín og mannsins, sem og skjáskot af samskiptum þeirra og þýddi hann nokkur þeirra yfir á ensku. Aflaði kærunefnd jafnframt þýðingar á nokkrum skilaboðanna. Er samkvæmt framlögðum gögnum ljóst að kærandi og nefndur maður hafi verið í einhverjum samskiptum fyrr á þessu ári. Að mati kærunefndar leiða þau gögn sem kærandi lagði fram hins vegar ekki til þess að talið verði að hann hafi átt í sambandi við umræddan mann.

Við mat á því hvort fallast beri á frásögn kæranda af samkynhneigð hans horfir kærunefnd m.a. til þeirra skýringa sem kærandi gaf í viðtali hjá kærunefnd um þau atvik sem leiddu til þess að hann áttaði sig á kynhneigð sinni. Eru þær skýringar að mati kærunefndar ótrúverðugar. Telur kærunefnd einnig, með hliðsjón af þessum skýringum kæranda, að horfa megi til þess hversu seint þessi málsástæða kæranda var borin fram, eða rúmu ári eftir komu hans til landsins og eftir að hann hafi fengið synjun á umsókn sinni hjá Útlendingastofnun. Þá er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki gert líklegt að hann hafi átt í samböndum við tvo menn eins og hann hélt fram í viðtali hjá kærunefnd. Af þeim upplýsingum sem hafa komið fram í málinu virðist jafnframt mega draga þá ályktun að kærandi hafi átt í samskiptum við fyrrnefndan mann í þeim tilgangi að komast yfir myndir af sér og honum í kynferðislegum athöfum sem yrðu síðan lagðar fram því til stuðnings að kærandi sé samkynhneigður. Þegar allt framangreint er virt í heild er það mat kærunefndar að staðhæfing kæranda um að hann sé samkynhneigður sé ótrúverðug. Verður frásögn hans um það atriði því ekki lögð til grundvallar í málinu.

Líkt og fram hefur komið leggur kærunefnd til grundvallar að kærandi hafi unnið fyrir samtök að nafni ACTED samtök í heimaríki sínu. Samkvæmt frásögn kæranda hafi hann orðið að flýja eftir að hann hafi tilkynnt tvo meðlimi ISIS samtakanna til íröksku öryggissveitarinnar sem leitt hafi til handtöku þeirra. Kærandi lagði fram ýmis skjöl og ljósmyndir er styðja við frásögn hans um að hann hafi starfað fyrir samtökin ACTED og hefur kærunefnd ekki ástæðu til að draga lögmæti þeirra í efa. Jafnframt lagði kærandi fram skjal sem hann kveður vera afrit af öryggisskýrslu frá ACTED varðandi handtöku meints ISIS liða, sem og afrit af textaskilaboðum sem hann kveður vera frá meðlimum ISIS. Með tilliti til framangreindra textaskilaboða og trúverðugleika kæranda er að mati kærunefndar uppi vafi um hvort kæranda hafi borist hótanir frá samtökunum ISIS. Kærunefnd telur þó rétt að meta þann vafa kæranda í hag og verður því lagt til grundvallar að aðilar tengdir ISIS hafi unnið innan samtakanna ACTED á einhverjum tímapunkti og haft í hótunum við kæranda.

Eins og fram er komið starfaði kærandi í […] héraði í Írak þegar framangreindar hótanir hafi átt sér stað. Þær heimildir sem kærunefnd hefur skoðað bera með sér að viðvera ISIS innan héraðsins sé enn til staðar og standi samtökin að baki flestum árásum sem þar eigi sér stað. Samkvæmt skýrslu Flóttamannastofnunar frá 2019 kemur fram að meðlimir ISIS njóti enn töluverðs ferðafrelsis innan […]. Þá leggst Flóttamannastofnun gegn flutningi aðila til svæða í Írak sem hafi verið undir stjórn ISIS einkum í ljósi almenns öryggisástands á svæðunum og lélegra innviða. ISIS standi að baki alvarlegum og kerfisbundnum mannréttindabrotum gagnvart almennum borgurum, þ. á m. mannránum, morðum, pyndingum, kynferðisbrotum og mansali. Þrátt fyrir að ISIS fari ekki lengur með yfirráð í […] haldi samtökin áfram að fremja árásir á svæðinu og beini þeim sérstaklega að öryggissveitum, opinberum starfsmönnum, sem og trúarlegum minnihlutahópum og þjóðarbrotum. Þá segir að yfirvöld í […] hafi ekki enn tekist að koma á skilvirkri stjórn á strjálbýlum svæðum í héraðinu eftir að svæðið hafi verið undir stjórn ISIS.

Við mat sitt horfir kærunefnd til þess að kærandi hafi starfað fyrir erlend samtök í […]. Þá hefur kærandi lagt fram gögn sem styðja við framburð hans um að upp hafi komið atvik þar sem meðlimir ISIS hafi verið handteknir í búðum samtakanna þar sem kærandi hafi unnið. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi sé í aukinni hættu á ofsóknum af hálfu ISIS vegna fyrrum starfs síns þar sem meðlimir ISIS hafi verið handteknir. Það verður því talið að aðstæður í […] séu slíkar að ekki verði talið að kærandi geti snúið aftur þangað án þess að eiga á hættu ofsóknir af hálfu ISIS sem fellur undir 37. gr. laga um útlendinga, og að yfirvöld í Írak geti ekki veitt kæranda vernd gegn þeim ofsóknum á því svæði, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. sömu laga.

Kærunefnd telur, með hliðsjón af framburði kæranda sem fær stuðning í gögnum málsins, að kærandi hafi á rökstuddan hátt leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur af meðlimum hryðjuverkasamtakanna ISIS vegna fyrrum starfs hans í heimaríki, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Mat á möguleika á flutningi innanlands

Þó svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum á því landsvæði sem hann býr, er heimilt að synja umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga segir að niðurstaða um hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á persónulegum aðstæðum útlendingsins og þeim aðstæðum sem séu í því landi. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skuli tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Guidelines on International Protection: „Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context og Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 23. júlí 2003).

Í leiðbeiningunum, sem varða möguleika á flutningi innanlands þegar einstaklingur hefur flúið heimaríki af ástæðuríkum ótta við ofsóknir, er lagt til grundvallar að mat á því hvort möguleiki sé á að einstaklingur geti flust búferlum til annars svæðis í heimaríki sé tvíþætt. Annars vegar verði að kanna hvort flutningur innanlands sé raunhæft úrræði. Að því er mál kærenda varðar kemur í þessu sambandi einkum til athugunar hvort það svæði sem lagt er til að hann flytjist til sé aðgengilegt á öruggan og löglegan hátt og hvort flutningur hans þangað skapi hættu á að kærandi verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Hins vegar beri að kanna hvort viðkomandi geti, með hliðsjón af aðstæðum í heimaríki hans, lifað tiltölulega eðlilegu lífi án þess að standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum. Við þann þátt matsins verður m.a. að horfa til persónulegra aðstæðna viðkomandi, t.a.m. félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem lagt er til. Í leiðbeiningunum segir m.a. um síðastnefnt atriði að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess lífsviðurværi einstaklings verði lægra en það sem talist geti viðunandi eða að viðkomandi búi við eymd.

Líkt og fram hefur komið kveðst kærandi vera fæddur og uppalinn í borginni Erbil í KRI. Kemur þá til skoðunar hvort raunhæft og sanngjarnt sé að ætlast til þess að kærandi setjist þar að. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd kvaðst kærandi ekki geta farið aftur til Erbil vegna blóðhefndardeilu sem fjölskylda hans væri flækt í vegna morðs sem frændi hans hafi framið árið 2013. Fjölskylda kæranda hafi neyðst til að flýja frá Erbil til […] sama ár vegna blóðhefndardeilunnar. Til stuðnings frásögn sinni lagði kærandi fram afrit af skilríki frænda síns sem hann kveður hafa framið framangreint morð, sem og skjal sem kærandi kveður vera afrit handtökuskipunar á hendur frænda sínum, ásamt skilríki og búsetuvottorði föður síns sem sýnir skráða búsetu í […]. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga gildi framlagðra gagna í efa. Þá greindi kærandi jafnframt frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd að hafa skipt yfir í Zaraþústratrú úr íslamstrú í kjölfar uppgangs ISIS í Írak. Til stuðnings frásögn sinni lagði kærandi fram tvö skjöl sem hann annars vegar kveður vera afrit af bréfi frá miðstöð Zaraþústratrúar í KRI og hins vegar afrit af boðskorti á fögnuð Zaraþústratrúarmanna. Kærandi kvaðst ekki hafa iðkað trú sína opinberlega og þá hafi hann ekki sagt fjölskyldu sinni frá trúskiptunum vegna ótta við ofbeldi. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga frásögn kæranda í efa að þessu leyti. Samkvæmt heimildum sem kærunefnd hefur skoðað hafa tugir þúsundir einstaklinga skipt úr íslamstrú yfir í Zaraþústratrú á síðustu árum í KRI, þrátt fyrir að slíkt sé óheimilt með lögum. Samkvæmt ofangreindum gögnum geta einstaklingar sem skipta yfir í aðra trú úr íslamstrú mætt mótspyrnu og upplifað mismunun af hálfu yfirvalda og almennings í Írak. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt ríki til að endursenda ekki einstaklinga til Íraks, á grundvelli þess að viðkomandi eigi kost á innri flutningi í heimaríki, nema viðkomandi hafi sterk fjölskyldutengsl á nánar tilgreindu svæði og fjölskyldan sé í stakk búin til þess að styðja viðkomandi einstakling og hafi auk þess vilja til þess, sbr. skýrsla stofnunarinnar frá 12. apríl 2017, Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative. Í ljósi frásagnar kæranda um fyrrnefnda blóðhefndardeilu sem hafi leitt til þess að fjölskylda hans hafi neyðst til að flýja frá Erbil til […] árið 2013, trúskipta hans og skorts á stuðningsneti á öðru svæði en […] er það mat kærunefndar að ekki sé raunhæft eða sanngjarnt að ætlast til þess af kæranda að hann setjist að í borginni Erbil, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður hér á landi.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa, þrautavarakrafa og þrautaþrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum