Hoppa yfir valmynd
16. október 2010 Innviðaráðuneytið

Telja sameiningu Flugstoða og Keflavíkurflugvallar hafa tekist vel

Ríkisendurskoðun hefur lokið athugun sinni á undirbúningi sameiningar opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar sem fram fór í byrjun þessa árs. Fjallað er um ákvörðun og undirbúning sameiningar og birtar ábendingar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og stjórnar Isavia varðandi undirbúninginn.

Í niðurstöðum og ábendingum skýrslu Ríkisendurskoðunar er tilgreint að stjórn Isavia telji sameininguna hafa tekist mjög vel og vísað er til þess að bæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og fjármálaráðuneytið hafi lýst ánægju sinni með sameininguna. Stjórn Isavia segir að rekstrarniðurstaða sameinaðs félags fyrir fyrri hluta ársins sé betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, tekist hafi að manna allar lykilstöður, öll verkefni hafi verið unnin samkvæmt ríkum öryggiskröfum og leyfisskyld starfsemi gengið hnökralaust fyrir sig.

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að samrunaáætlun var samþykkt og verkefnastjóri miðlaði upplýsingum til lykilaðila um framvindu hennar. Einnig að stjórn Isavia hefur skilgreint megin áhættu sameiningar og að gripið hefur verið til aðgerða til að lágmarka hana og að skipurit liggi fyrir en vinna við stefnumótun og verklagsreglur standi ennþá yfir.

Ríkisendurskoðun segir meðal annars í kafla skýrslunnar um niðurstöður og ábendingar: Samtímaeftirlit Ríkisendurskoðunar með undirbúningi sameiningar Keflavíkurflugvallar og Flugstoða gefur engu að síður tilefni til athugasemda sem lúta m.a. að óljósum hagræðingarmöguleikum sameinaðs félags, óvissuþáttum í rekstri þess og kostnaði sameiningar.

Ábendingar Ríkisendurskoðunar til ráðuneytisins eru að greina þarf hagræðingarmöguleika sameiningar, áætla þurfi kostnað sameiningar og leiða þurfi til lykta óvissuþætti í rekstri Isavia.

Ábendingar til stjórnar Isavia eru eftirfarandi: Enn vantar tölulega mælikvarða vegna sameiningarinnar, ljúka þarf verklagsreglum og langtímastefnumótun fyrir árslok og styðja þarf áfram við starfsfólk.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum