Hoppa yfir valmynd
30. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðiskerfið falli að breyttu samfélagi

Laga þarf íslenska heilbrigðiskerfið að breyttri samfélagsgerð og lífsháttum í landinu, að því er fram kom í máli Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra á ráðstefnunni Heilbrigðiskerfið 2015, sem haldin var 25. júní síðastliðinn.  

Boðað var til ráðstefnunnar í tengslum við stofnfund Landssambands heilbrigðisstofnana (LH), sem fram fór sama dag. Í LH sameinast tvö félög: Landssamtök heilsugæslu og heilbrigðisstofnana og Landssamband sjúkrahúsa. 

Heilbrigðisráðherra sagði í ræðu sinni að stofnun Landssambands heilbrigðisstofnana væri merkilegur áfangi, enda nauðsynlegt að menn þjappi sér saman um þau verkefni sem framundan eru í heilbrigðiskerfinu. Mikilvægt sé að vita hvert við stefnum í heilbrigðismálum og aldrei mikilvægara en á tímum niðurskurðar.  

Þegar hugað sé að framtíð heilbrigðiskerfisins þurfi að hafa til hliðsjónar þær samfélagsbreytingar sem hér eigi sér stað. Þjóðin sé að eldast, búseta að breytast og jafnframt lífstíll. „Nú þurfum við að einbeita okkur að því að koma í veg fyrir sjúkdóma annars vegar og tryggja öfluga grunnþjónustu við þá sem eru með langvarandi sjúkdóma hins vegar.” 

Breytt þjónusta sjúkrahúsa

Meðal þess sem menn sjái fram á hér, líkt og í nágrannalöndunum séu breytingar á þjónustu sjúkrahúsa. Aukin sérhæfing kalli á stærri einingar og samþættingu starfsemi á stórum landsvæðum. Líklegt sé að innan nokkurra ári muni tvö stór sjúkrahús á landinu standa undir nafni, Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri. Sem mótvægi við þessari sérhæfingu sé mikilvægt að efla heilsugæslu og öldrunarþjónustu.  

Ráðherra minnti á að grunnurinn í íslenska heilbrigðiskerfinu væri hið norræna velferðarmódel þar sem „þjónustan er kostuð úr sameiginlegum sjóðum og veitt öllum sem á þurfa að halda án aðgreiningar vegna efnahags, búsetu, kyns, eða aldurs”. 

Líflegar pallborðsumræður urðu að loknum erindum frummælenda. Þar var m.a. vikið að nærþjónustu, áhrifum niðurskurðar, endurhæfingu, forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu og hugmyndum um yfirtöku sveitarfélaga á heilsugæslunni.

Ræða heilbrigðisráðherra á ráðstefnunni

Ráðstefna um heilbrigðiskerfið 2015

Ráðstefna um heilbrigðiskerfið 2015

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum