Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál 369/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 369/2021

Miðvikudaginn 17. nóvember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 20. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. maí 2021 um að skuldajafna inneign sem myndaðist við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 upp í eldri skuldir án greiðslu vaxta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. maí 2021, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2020 hafi leitt í ljós vangreiddar bætur að fjárhæð 225.088 kr. Í bréfinu kom fram að framangreindri inneign hafi verið ráðstafað til að lækka eldri skuldir kæranda við Tryggingastofnun. Með tölvubréfum 26. maí, 27. maí, 1. júní, 4. júní og 11. júní 2021 andmælti kærandi framangreindri ráðstöfun og var þeim andmælum svarað með tölvubréfum stofnunarinnar 27. maí og 1. júlí 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. júlí 2021. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 8. september 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. september 2021. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um ráðstöfun inneignar kæranda hjá stofnuninni sem hafi orðið til vegna endurreiknings á grundvelli skattframtals 2021 í samræmi við lög nr. 100/2007 um almannatryggingar. Kærandi geri ekki athugasemdir við niðurstöður útreikninganna, en í bréfinu hafi verið ákveðið að setja vangreiddu bæturnar upp í eldri skuldir samkvæmt 1. mgr. 55. gr sömu laga, en þar sé fjallað um ofgreiðslu bóta. Útreikningar Tryggingastofnunar sýni hins vegar fram á að stofnunin hafi vangreitt kæranda. Um vangreiðslur sé fjallað um í 4. mgr. 55. gr sömu laga og þar segi:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins vangreitt bótaþega bætur skal stofnunin greiða honum eða dánarbúi hans það sem upp á vantar. Þegar bætur eru vangreiddar skal greiða bótaþega 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var og skulu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til bótanna eru uppfyllt, sbr. þó 53. gr. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 13. gr., leiðir til þess að einstaklingur á rétt á bótum en hafði fengið synjun eða lægri bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins sbr. þó 53. gr. Ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum, sbr. 41. gr., falla vextir niður.“

Með andmælum hafi kærandi farið fram á það við Tryggingastofnun að honum yrði greidd inneignin sem hafi verið hafnað á þeim forsendum að stofnunin hefði óljósa heimild til að ráðstafa fé hans á þessa leið vegna klausu í fyrri ákvörðunum. Slíkar óljósar klausur sé Tryggingastofnun að láta skjólstæðinga sína samþykkja með þegjandi samkomulagi og telji kærandi það vera mjög íþyngjandi aðgerð af hálfu stjórnvalds. Kærandi hafi einnig reynt að eiga samskipti við Tryggingastofnun til að fá greiddar vangreiddu bæturnar og eða að fá að semja um greiðslur og greiðslufyrirkomulag, en því hafi verið hafnað alfarið. Að mati kæranda sé ákvörðun Tryggingastofnunar mjög íþyngjandi, enda sé um ráðstöfunarfé hans að ræða. Kærandi hafi alltaf greitt og samið um allar eldri skuldir, hann telji því að greiðslurnar eigi að greiðast til hans og að hann hafi ekki verið með eldri skuldir á þeim tímapunkti sem ákvörðunin hafi verið tekin. Kærandi sé með samninga sem skuli standa, án annara íþyngjandi ákvarðana Tryggingastofnunar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé annars vegar sú ákvörðun stofnunarinnar, dags. 1. júlí 2021, að skuldajafna inneign sem hafi myndast við uppgjör ársins 2020 á móti kröfum sem hafi myndast við uppgjör áranna 2016 og 2018 og hins vegar ákvörðun stofnunarinnar um að greiða ekki vexti á vangreiddar bætur. Ekki sé ágreiningur um útreikning bótagreiðslna fyrir árið 2020.

Tryggingastofnun sé skylt að endurreikna bótafjárhæðir viðkomandi bótaárs þegar endanlegar upplýsingar um tekjur þess liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Komi í ljós við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna, sbr. 8. mgr. 16. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar beri Tryggingastofnun skylda til að draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kunni að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. ákvæðisins, hafi stofnunin eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum. Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum. Sambærilegt ákvæði sé í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Hafi bætur verið vangreiddar skuli Tryggingastofnun samkvæmt 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar greiða bótaþega eða dánarbúi hans það sem upp á vanti. Þegar bætur séu vangreiddar skuli greiða 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd hafi verið og skuli þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til bótanna séu uppfyllt, sbr. þó 53. gr. Ef bætur séu vangreiddar vegna skorts á upplýsingum, sbr. 41. gr., falli vextir hins vegar niður.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 598/2009 segi að komi í ljós við endurreikning samkvæmt III. kafla að bætur hafi verið vangreiddar skuli bótaþega eða dánarbúi hans greitt það sem upp á vanti. Greiða skuli 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd hafi verið, enda stafi vangreiðslan ekki af skorti á upplýsingum, sbr. 3. gr.

Í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 segi að umsækjanda og bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá segi í lokamálslið ákvæðisins að umsækjanda og bótaþega sé skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um breytingar á tekjum sem verði á yfirstandandi tekjuári.

Við uppgjör ársins 2020 hafi myndast inneign að fjárhæð 225.088 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Fjárhæðinni hafi verið ráðstafað inn á eldri kröfur kæranda sem útistandandi voru á hendur honum hjá stofnuninni vegna áranna 2016 og 2018. Eftir að búið hafi verið að ráðstafa inneigninni inn á kröfur kæranda skuldi hann Tryggingastofnun enn 192.409 kr. þegar þessi greinargerð sé rituð.

Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar sé Tryggingastofnun skylt að draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til. Undantekning frá þessu komi einkum fram í 2. mgr. og 2. málsl. 3. mgr. 55. gr. laganna, en síðara ákvæðið kveði á um að ekki sé heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, nema samið sé um annað, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla sé endurgreidd að fullu. Það ákvæði eigi hins vegar aðeins við um mánaðarlegar greiðslur til bótaþega en ekki inneignir sem myndist við uppgjör. Stofnuninni sé því skylt að draga inneignir í uppgjörum upp í útistandandi kröfur, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 55. gr laganna. Skilyrði 2. mgr. 55. gr. séu talin uppfyllt þar sem um tekjutengda ofgreiðslu og tekjutengda vangreiðslu er að ræða.

Fyrirvari komi ávallt fram í bréfum Tryggingastofnunar um samþykki beiðna um greiðsludreifingar, sbr. innheimtubréf til kæranda, dags. 17. desember 2020. Kæranda hafi ítrekað verið gerð grein fyrir þessari framkvæmd Tryggingastofnunar í öðrum bréfum og eigi að hafa verið fullkunnugt um hana.

Að lokum sé rétt að taka fram að til viðbótar við skyldu Tryggingastofnunar til þess að draga inneignir í uppgjörum upp í útistandandi kröfur, hafi stofnunin endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum kröfuréttar samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Það sé meginregla í íslenskum kröfurétti að heimilt sé að skuldajafna kröfum séu þær af sömu rót runnar, hæfar til að mætast og gjaldfallnar. Í þessu máli séu öll þau skilyrði uppfyllt.

Varðandi vexti á vangreiddar bætur hafi Tryggingastofnun sent kæranda tillögu að tekjuáætlun þann 17. janúar 2020 þar sem gert hafi verið ráð fyrir 2.204.436 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 3.036 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við áætlunina og hafi honum verið greiddur lífeyrir á grundvelli hennar allt árið 2020. Við bótauppgjör ársins 2020 hafi komið í ljós að á árinu 2020 hafi kærandi haft 1.675.065 kr. í lífeyrissjóðstekjur og engar aðrar tekjur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi verið sú að bætur kæranda hafi verið vangreiddar að fjárhæð 225.088 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Ljóst sé að vangreiðslan hafi stafað af því að kærandi hafi ekki veitt Tryggingastofnun réttar upplýsingar um tekjur sínar í tekjuáætlun. Tryggingastofnun sé því ekki heimilt að greiða vexti á vangreiddar bætur, sbr. lokamálslið 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar og 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Tryggingastofnun telji því skýrt að ekki sé heimilt að greiða vexti á vangreiddar bætur sem verði til við rangar upplýsingar í tekjuáætlunum lífeyrisþega. Ákvörðuninni til stuðnings megi nefna að með breytingalögum nr. 74/2002 hafi verið gerðar allnokkrar breytingar á lögum um almannatryggingar. Þar hafi meðal annars verið ákveðið að taka af allan vafa um það að vextir skyldu falla niður ef bætur væru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum frá lífeyrisþegum, en um það hafi sagt meðal annars í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar:

Í tengslum við þessa breytingu leggur nefndin til að vaxtagreiðslur skv. 4. efnismgr. 19. gr. falli niður ef vangreiðslu bóta má rekja til skorts á upplýsingum sem rekja má til bótaþega eða maka hans. Það verður að teljast óeðlilegt að reikna vexti á bótafjárhæð sem er vangreidd af ástæðum sem Tryggingastofnun ræður ekki við, enda er bótaþega og maka, ef við á, skylt að veita upplýsingar.

Einnig komi fram í áliti nefndarinnar:

Lagt er til að vextir samkvæmt ákvæðinu falli niður ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum og upplýsingaskortinn megi rekja til bótaþega eða maka hans. Eins og áður sagði er það forsenda þess að unnt sé að greiða bætur samkvæmt lögunum að tekjuupplýsingar liggi fyrir.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um endurreikning tekjutengdra bóta, innheimtu krafna vegna ofgreiddra bóta og vexti á vangreiddar bætur. Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skuldajafna inneign sem myndaðist við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 upp í eldri skuldir án greiðslu vaxta.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er greint frá skyldu Tryggingastofnunar til að endurreikna bótafjárhæðir viðkomandi bótaárs þegar endanlegar upplýsingar um tekjur þess liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda. Í 8. mgr. sömu greinar er vísað til þess að ef í ljós komi við endurreikning að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr.

[...]

Hafi Tryggingastofnun ríkisins vangreitt bótaþega bætur skal stofnunin greiða honum eða dánarbúi hans það sem upp á vantar. Þegar bætur eru vangreiddar skal greiða bótaþega 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var og skulu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til bótanna eru uppfyllt, sbr. þó 53. gr. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 13. gr., leiðir til þess að einstaklingur á rétt á bótum en hafði fengið synjun eða lægri bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. þó 53. gr. Ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum, sbr. 41. gr., falla vextir niður. Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr.“

Með heimild í 16. gr. laga um almannatryggingar var sett reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Í IV. kafla reglugerðarinnar er fjallað um vangreiddar bætur og tilhögun frádráttar af bótum vegna ofgreiðslna. Í 3. gr. reglugerðarinnar er greint frá upplýsingaskyldu greiðsluþega gagnvart Tryggingastofnun og í 8. gr. er fjallað um vangreiddar bætur.

Kærandi var með örorkulífeyri og tengdar greiðslur á árinu 2020. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 17. desember 2020, var greint frá greiðsludreifingu vegna krafna stofnunarinnar á hendur kæranda sem mynduðust vegna uppgjöra og endurreikninga áranna 2016 til og með 2019. Í bréfinu segir að verði breyting á rétti til greiðslna eða skuldastöðu, sé mögulegt að breyta þurfi endurgreiðslu. Þá segir einnig að ef inneign myndist vegna uppgjörs greiðslna eða af öðrum ástæðum, sé heimilt að nýta þær að hluta eða að öllu leyti til lækkunar á kröfum, þrátt fyrir umrædda greiðsludreifingu. Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun kæranda tekjuáætlun, dags. 17 janúar 2020, þar sem greint var frá tekjuforsendum við útreikning greiðslna á árinu 2020. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar út í samræmi við þær tekjuforsendur allt árið. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2020 reyndist kærandi hafa verið með lægri tekjur en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætlun ársins. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2020 leiddi í ljós vangreiðslur að fjárhæð 225.088 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu, sem voru greiddar inn á eldri skuldir.

Í málinu er deilt um hvort kærandi eigi rétt á greiðslu vaxta á vangreiddar bætur og hvort Tryggingastofnun sé heimilt að láta vangreiddar bætur ganga upp í eldri kröfur. Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að örorkulífeyrir og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Af gögnum málsins verður ráðið að vangreiðslu bóta til kæranda megi rekja til þess að hann upplýsti Tryggingastofnun ekki um að tekjuforsendur í tekjuáætlun, dags. 17. janúar 2021, væru rangar. Í 6. málsl. 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum, sbr. 41. gr., falli vextir niður. Þar sem kærandi uppfyllti ekki skyldu sína samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar uppfyllir kærandi ekki skilyrði til að fá greidda vexti á vangreiddar bætur á árinu 2020.

Varðandi þá ákvörðun Tryggingastofnunar að nota inneign kæranda sem myndaðist við endurreikning ársins 2020, kemur fram í 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í 2. mgr. 55. gr. segir að ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögunum séu ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar, skuli það sem sé ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlist rétt til. Þetta eigi eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli séu hærri en lagt hafi verið til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr. Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af framangreindu að Tryggingastofnun beri almennt að skuldajafna inneignum úr uppgjörum upp í útistandandi kröfur sem hafa myndast við uppgjör. Að mati úrskurðarnefndar er ekkert í gögnum málsins sem gefur tilefni til að ætla að slíkt hafi verið óheimilt í tilviki kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar um að skuldajafna inneign sem myndaðist við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 upp í eldri skuldir án greiðslu vaxta.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skuldajafna inneign sem myndaðist við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 upp í eldri kröfur A, án greiðslu vaxta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum