Hoppa yfir valmynd
31. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 48/2008

Föstudaginn, 31. október 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. ágúst 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 26. ágúst 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfum dagsettum 14. júlí og 25. júlí 2008 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Umsókn minni um fæðingarstyrk var synjað vegna þess að ég á ekki lögheimili á Íslandi. Ég bý erlendis tímabundið vegna náms maka en stunda sjálf fjarnám frá Íslandi og skilaði inn staðfestingu á því til fæðingarorlofssjóðs.“

 

Með bréfi, dagsettu 2. september 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 6. september 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 15. maí 2008, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 3 mánuði vegna barnsfæðingar, 5. júní 2007 og þann 22. júlí 2008 sótti kærandi um fæðingarstyrk utan vinnumarkaðar í 3 mánuði.

Með umsóknum kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 15. maí 2008. Staðfesting um námsframvindu frá B-háskóla, dags. 15. maí 2008. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 14. júlí 2008, var henni synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni þar sem hún hefði ekki verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Í því sama bréfi urðu þau mistök gerð að kæranda var bent á rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns og sýnt viðunandi námsárangur, rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur.

Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í 3. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, kemur fram að foreldri sem flutt hefur lögheimili sitt tímabundið og stundar fjarnám við íslenskan skóla geti einnig átt rétt á fæðingarstyrk námsmanna enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning og fullnægi öðrum skilyrðum um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi.

Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann X. júlí 2008 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá X. júlí 2007 fram að fæðingardegi barnsins. Samkvæmt vottorði frá B-háskóla er kærandi skráður í nám við skólann háskólaárin 2007 – 2009. Kærandi lauk 5 einingum á haustönn 2007 og var skráð í 15 einingar á vorönn 2008.

Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11-15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. ffl., með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Barn kæranda fæddist X. júlí 2008 og þá átti kærandi lögheimili erlendis. Verður því ekki annað séð en að kærandi eigi ekki heldur rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi og greiðslu fæðingarstyrks foreldris utan vinnumarkaðar hafi réttilega verið synjað.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 19. september 2008, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni og sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk.

Fullt nám er skilgreint í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðarinnar teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilega kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljist ekki til fulls náms.

Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16.gr.laga nr. 74/2008, getur foreldri sem flutt hefur lögheimili sitt tímabundið og stundar fjarnám við íslenskan skóla einnig átt rétt á fæðingarstyrk námsmanna enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning og fullnægi öðrum skilyrðum um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með lögheimili í E-landi við fæðingu barns þann X. júlí 2008. Samkvæmt vottorði D-háskóla dagsettu 15. maí 2008 var hún skráður nemandi við skólann í nám til Z-réttinda á meistarastigi háskólaárin 2007-2009. Hafi hún lokið 5 einingum á haustönn 2007 og sé skráð í 15 einingar á vorönn 2008. Fullt nám við íslenska háskóla telst almennt vera 15 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðar nr. 1056/2004 telst því vera 11 – 15 einingar á önn, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt því uppfyllti kærandi ekki skilyrði 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns þann X. júlí 2008.

Í 1. mgr. 18. gr. ffl. er kveðið á um að foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eigi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. ffl., sbr. 15. gr. laga nr. 74/2008, skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Í ffl. eða reglugerð nr. 1056/2004 eru ekki ákvæði sem heimila að vikið sé frá því skilyrði. Kærandi átti ekki lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og öðlaðist því ekki rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Samkvæmt framansögðu uppfyllti kærandi hvorki skilyrði um rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður eða fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. Með vísan til þess ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum