Hoppa yfir valmynd
4. desember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/2008

Fimmtudaginn 4. desember 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 4. september 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 2. september 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 19. ágúst 2008 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Forsaga málsins er að eftir erfiða grunnskólagöngu vegna lesblindu minnar fæ ég aðstoð við að takast á við hamlandi einkenni lesblindunnar með Davis leiðréttingu og byrja í því í ársbyrjun 2006 og útskrifast í maí 2006. Strax á haustönn 2006 hef ég aftur nám í B-skóla. Lýk á þeirri önn 10. bekknum. Á þeim tímapunkti er það orðinn staðfastur ásetningur minn að ljúka einhvers konar námi. Hef nám á vorönn 2007 í B-skóla á meðan ég er að velta framtíðinni námslega séð fyrir mér. Tek loks ákvörðun um að fara í D-nám og líst best á E-skóla til þess. Vil taka fram að haustönn 2007 náði ég 9 einingum ekki 13 eins og þarf. Bið ykkur að hafa í huga að þetta eru fög eins og stærðfræði og enska. Hefði ég verið í fleiri verklegum fögum á þeirri önn hefði einingafjöldi orðið annar.

Ég vil líka taka fram að alla skólagönguna hef ég rekið heimili fyrir mig og son minn 6 ára gamlan og að sumarið 2007 starfaði ég sem J hjá K. Hef nám í E-skóla janúar 2008 og fer strax að fá gríðarleg uppköst sem fljótlega fara að hamla skólasókn. Þurfti á þessu tímabili að leggjast nokkrum sinnum inn á spítala til að fá næringu í æð vegna ofþornunar. Læknisfræðiheitið á þessu ástandi er hyperemesis en orsökin er óþekkt. Í apríl 2008 er mér ráðlagt af G sem er áfangastjóri og H námsráðgjafa að vegna fjarvista sem veikindi mín höfðu orsakað væri best upp á áframhaldandi námsmöguleika mína að ég segði mig úr námi sem ég og gerði.

Ég bið ykkur um að hugleiða eftirfarandi atriði:

1 Hef aftur nám eftir erfiða grunnskólagöngu og tekst á við lesblinduna.

2 Er einstæð móðir með 6 ára gamla dreng á framfæri.

3 Hef sýnt staðfestu í námi síðan 2006.

4 Gat því miður vegna veikinda ekki stundað það nám sem ég var skráð í 2008.

5 Þau veikindi eru óléttutengd.“

 

Með bréfi, dagsettu 9. september 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 22. september 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. ágúst 2008, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann X. september 2008 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá X. september 2007 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsáætlun frá B-skóla stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2007. Var kærandi skráður í 15 einingar. Lauk 9 einingum, féll í 4 einingum og sagði sig úr 2 einingum. Á staðfestingu um skólavist frá E-skóla kemur fram að vorönn 2008 sé frá 3. janúar – 24. maí. Kærandi hafi stundað nám á þeirri önn til 14. apríl er hún sagði sig úr námi.

Þegar um er að ræða nám við framhaldsskóla teljast 18 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 13-18 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 19. ágúst 2008. Kærandi á þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 30. september 2008, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, segir að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þó að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Móðir skal leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám.

Barn kæranda er fætt þann X. september 2008. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá X. september 2007 fram að fæðingu barns. Samkvæmt námsferilsáætlun útgefinni af B-skóla var kærandi skráð í 15 eininga nám á haustönn 2007 og lauk 9 einingum. Samkvæmt staðfestingu E-skóla stundaði hún þar nám á vorönn 2008 en sagði sig úr námi þann 14. apríl 2008. Kveðst kærandi hafa sagt sig úr námi vegna veikinda á meðgöngu. Í læknisvottorði I dagsettu 5. febrúar 2008 segir að hún hafi ekki getað stundað skólann frá 25. janúar 2008.

Fullt nám í framhaldsskóla telst vera 18 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er því 13–18 einingar á önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Kærandi uppfyllir samkvæmt því ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns þar sem hún getur hvorki talist hafa verið í fullu námi á haustönn 2007 eða vorönn 2008.

Þar sem ekki er uppfyllt skilyrði um fullt nám á haustönn 2007 er ekki tilefni til að fjalla um hugsanlega heimild til undanþágu vegna veikinda kæranda á meðgöngu á vorönn 2008 á grundvelli 13. mgr. 19. gr. ffl. Þá eru hvorki í ffl. né reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks ákvæði sem heimila að vikið sé frá skilyrði um fullt nám vegna annarra aðstæðna kæranda.

Með hliðsjón af framanrituðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum