Hoppa yfir valmynd
26. október 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál rædd á Alþingi

Alþingishúsið - myndVelferðarráðuneytið

Skýrsla Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar var til umfjöllunar á Alþingi í gær. Markmið ráðherra með framlagningu skýrslunnar er að veita yfirsýn um stöðu þessara mála og leggja með því grundvöll að skýrari stefnu á þessu sviði.

Svandís fór yfir helstu verkefni sem unnið er að í geðheilbrigðismálum og varpaði ljósi á hve viðamikill málaflokkurinn og hvað geðræn vandamál geta verið margvísleg og flókin. Hún benti á að einn af hverjum fórum einstaklingum glími við geðheilsuvanda um ævina. Samstarf væri nauðsynlegt til að ná árangri, þvert á málaflokka. Ráðherra sagði  meðal annars í ræðu sinni:

Geðheilbrigði þjóðarinnar er á ábyrgð okkar allra. Við stöndum nú frammi fyrir einstökum tækifærum til framfara í geðheilbrigðismálum. Sókn á þeim vettvangi þarf að byggjast á þeirri grundvallarkröfu að mannréttindi, almennar siðareglur og siðareglur heilbrigðisstarfsfólks séu í forgrunni við veitingu geðheilbrigðisþjónustu sem og annarrar heilbrigðisþjónustu, á öllum stigum. Í því felst virðing fyrir fólki og rétti þess til upplýstrar þátttöku og valfrelsis hvað varðar eigin meðferð. Til þess að gera fólki kleift að taka upplýstar ákvarðanir varðandi eigin meðferð þarf það að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um árangursríkar meðferðarleiðir sem byggjast á vísindalega raunprófuðum aðferðum.

Í framtíðinni verða menntakerfi, félagsþjónusta, dómskerfi, samgöngur, skipulagsmál, atvinnulíf og heilbrigðisþjónusta að vinna saman að því að stuðla að heilbrigðara samfélagi þar sem mannréttindi eru höfð að leiðarljósi. Skýrt verður að vera hver gerir hvað og með hvaða hætti við vinnum saman að okkar sameiginlegu markmiðum. Hvatar verða að vera fyrir lausnamiðaðri samvinnu. Við þurfum öll að taka höndum saman sem sterkt og manneskjulegt þjóðfélag og standa vörð um geðheilbrigði okkar og barnanna okkar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum