Hoppa yfir valmynd
19. mars 2018 Utanríkisráðuneytið

Alvarlegar blikur á lofti í vatnsmálum í heiminum

Ljósmynd úr skýrslunni: UN Water - mynd

Rúmlega fimm milljarðar jarðarbúa gætu glímt við vatnsskort um miðja öldina vegna loftslagsbreytinga, aukinnar eftirspurnar og mengunar, segir í nýrri árlegri stöðuskýrslu um ástandið í vatnsmálum í heiminum. Vatnsþróunarskýrslan var gefin út í dag í Brasilíu á ráðstefnunni World Water Forum sem haldin er þriðja hvert ár. Í skýrslunni er varað við því að átök geti brotist út verði ekkert að gert til að draga úr álagi á ár, vötn, votlendi og lón.

Gilbert Houngbo yfirmaður UN Water segir í inngangi skýrslunnar að með hliðsjón af aukinni neyslu, aukinni landeyðingu og fjölþættum áhrifum loftslagsbreytinga þurfi greinilega að fara nýjar leiðir til að stýra samkeppni um ferskvatnslauðlindir heimsins.

Jarðarbúar nota um 4,600 rúmkílómetra af vatni ár hvert. Um 70% vatns er notað í landbúnaði, 20% í iðnaði og 10% til heimila, að því er fram kemur í skýrslunni. Á einni öld hefur vatnsnotkun sexfaldast og hún eykst um 1% ár frá ári. Álagið á birgðir jarðar af hreinu vatni á því eftir að aukast jafnt og þétt en samkvæmt mannfjöldaspám verða íbúar jarðarinnar 9,4 til 10,2 milljaðar árið 2050 en þeir eru í dag 7,7 milljónir. Um miðja öldina verða líka tveir af hverjum þremur íbúum jarðarinnar borgarbúar.

Fram kemur í skýrslunni að spurnin eftir vatni kemur til með að aukast mest í þróunarríkjum. Á sama tíma leiða loftslagsbreytingar til þess að álagið eykst því vot svæði verða blautari og þurr svæði verða enn þurrari. Þar segir líka að mesta hættan á náttúruhamförum tengist þurrkum og jarðvegseyðingu og sú hætta eigi eftir að aukast.

Nýjasta og alvarlegasta dæmið um vatnsskort vegna þurrka er Höfðaborg í Suður-Afríku þar sem undanfarna mánuði hafa verið miklar takmarkanir á vatnsnotkun vegna yfirvofandi vatnsskorts. Deginum sem vatnið þrýtur algerlega –  Núlldeginum (Day Zero) - hefur reyndar verið seinkað nokkrum sinnum frá því að vera fyrst 16. apríl, þá 11. maí og nýjasta dagsetningin er 9. júlí. Ástandið í Brasílíu, þar sem vatnsþróunarskýrslan er kynnt, er líka grafalvarlegt og hartnær tvær milljónir manna fá ekkert neysluvatn einn dag af hverjum fimm vegna langvinnra þurrka.

Samkvæmt skýrslunni koma á milli 4,8 milljarðar til 5,7 milljarðar manna til með að búa árið 2050 á svæðum þar sem vatnsskortur verður mikill að minnsta kosti einn mánuð á ári. Og þeim kemur til með að fjölga sem eiga hættu á verða fyrir búsifjum vegna flóða.

Skýrslan

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 15 Líf á landi
 Heimsmarkmið SÞ: 13 Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum