Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 295/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 295/2021

Miðvikudaginn 17. nóvember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 16. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. maí 2021 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2020 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 126.789 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. maí 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. júní 2021. Með bréfi, dags. 21. júní 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. júlí 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. júlí 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að samkvæmt útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins skuldi kærandi 126.000 kr. eða þurfi að endurgreiða vegna breytinga á tekjuáætlun. Samkvæmt hennar bestu vitund sé séreignarsparnaður ekki tekinn til skerðingar á ellilífeyri en í tekjuáætlun Tryggingastofnunar séu greiðslur úr séreignarsjóði reiknaðar sem tekjur og skerði greiðslur. Kærandi óski eftir útskýringu á þessu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2020.

Greiðslur vegna ársins 2020 hafi verið endurreiknaðar á grundvelli skattframtals 2021 og árið 2020 hafi verið gert upp. Niðurstaða uppgjörsins hafi verið birt kæranda með bréfi, dags. 20. maí 2021, og hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt umfram rétt á árinu 2020. Þess vegna hafi myndast skuld að fjárhæð 126.789 kr. sem kæmi til með að vera innheimt í samræmi við 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort endurreikningur á tekjutengdum greiðslum ársins 2020 til kæranda hafi verið byggður á réttum forsendum.

Í 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar segi að ellilífeyrir skuli lækka í tilteknu hlutfalli við tekjur lífeyrisþegans. Ellilífeyrir sé því tekjutengd greiðsla.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. a-liðar 1. mgr. 30. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um fjármagnstekjur og þar segi: „Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

Í II. kafla laga um tekjuskatt sé fjallað um það hvaða tekjur séu skattskyldar samkvæmt lögunum. Í 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt sé kveðið á um að arður, landskuld og leiga eftir hvers konar fasteign og fasteignaréttindi teljist til skattskyldra tekna. Í 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt sé kveðið á um það að vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður teljist til skattskyldra tekna.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar teljist þó ekki til tekna þegar um sé að ræða ellilífeyri, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Greiðsluþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli upplýsinga um tekjur frá skattyfirvöldum. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi því ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest af dómstólum.

Þegar í ljós komi við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kærandi hafi þegið ellilífeyri frá 1. ágúst 2018. Tryggingastofnun hafi gert tillögu að tekjuáætlun vegna ársins 2020 fyrir kæranda, dags. 17. janúar 2020. Hafi þá einnig verið vakin athygli kæranda á ábyrgð hennar að upplýsa stofnunina ef áætlunin væri ekki rétt og einnig ef forsendur myndu breytast á árinu þar sem tekjuáætlunin sé grundvöllur útreiknings bóta. Engar beiðnir um breytingar hafi borist stofnuninni frá kæranda og hafi því verið greitt samkvæmt tillögunni út árið.

Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 sé Tryggingastofnun skylt að endurreikna greiðslur á grundvelli tekna eins og þær séu skráðar á skattframtali þegar það liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda. Við þann endurreikning hafi komið í ljós mismunur á milli þeirra tekna sem annars vegar hafi verið áætlaðar samkvæmt áðurnefndri tillögu að tekjuáætlun, dags. 17. janúar 2020, og hins vegar þeirra tekna sem hafi komið fram á skattframtali 2021. Þennan mismun megi rekja til þess að ekki hafi verið gert ráð fyrir jafn miklum fjármagnstekjum í tillögu að tekjuáætlun, dags. 17. janúar 2020, og hafi komið fram á skattframtali ársins 2021. Nánar tiltekið hafi fjármagnstekjur kæranda á árinu 2020, sem hafi komið til vegna leigutekna og tekna af vöxtum og verðbótum, verið hærri samkvæmt skattframtali 2021 en áætlað hafi verið í tillögu að tekjuáætlun, dags. 20. janúar 2020.

Þessi mismunur hafi leitt til þess að þær upphæðir sem kærandi hafi fengið greiddar í formi ellilífeyris hafi verið hærri en þær upphæðir sem kærandi hafi átt rétt til samkvæmt endurreikningi. Greiðslur sem kærandi hafi fengið úr séreignarlífeyrissparnaði hafi ekki haft áhrif á endurreikninginn þar sem slíkar greiðslur teljist ekki til tekna samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og hafi þess vegna ekki komið til skerðingar á ellilífeyri.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra greiðslna ársins 2020 hafi verið sú að heildargreiðslur til kæranda hafi verið 865.812 kr. en að kærandi hafi í raun átt rétt á 670.632 kr. í heildargreiðslur samkvæmt skattframtali 2021. Niðurstaða uppgjörs fyrir árið 2020 hafi því verið sú að kærandi hafi fengið 126.789 kr. ofgreitt, að teknu tilliti endurgreiddrar staðgreiðslu.

Kæranda hafi verið sent bréf með upplýsingum um endurreikning á réttindum hennar, uppgjör ársins 2020, sundurliðun á tekjum á árinu 2020, auk samanburðar á greiðslum og réttindum, dags. 20. maí 2021. Auk þess hafi kæranda verið sent innheimtubréf vegna ofgreiddra bóta, dags. 22. maí 2021.

Kærandi hafi fengið greiddan ellilífeyri samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar allt árið 2020. Ellilífeyrir sé tekjutengdur samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 16. gr. sömu laga. Samkvæmt 1.-8. tölul. C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt teljast meðal annars vextir, verðbætur og leigutekjur til skattskyldra tekna og því einnig til tekna í skilningi 16. gr. laga um almannatryggingar. Slíkar tekjur hafi því áhrif á rétt kæranda til ellilífeyris.

Kærandi beri ábyrgð á að tekjuáætlun sem liggi til grundvallar greiðslum, endurspegli réttar árstekjur samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé Tryggingastofnun skylt að endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna og skuli þessi endurreikningur byggður á skattframtölum hvers árs fyrir sig. Það sé því ljóst að tekjur sem komi fram á skattframtali 2021 komi til skerðingar á þeim bótum sem kærandi hafi fengið á árinu 2020.

Kærð ákvörðun sé því í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra greiðslna Tryggingastofnunar. Með vísan til framanritaðs telji stofnunin að endurreikningur á tekjutengdum greiðslum kæranda á árinu 2020 hafi verið byggður á réttum forsendum og því sé ekki tilefni til að breyta fyrri ákvörðun. Tryggingastofnun krefjist þess vegna staðfestingar á hinni kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2020.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2020. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar teljast greiðslur úr séreignarsparnaði ekki til tekna við útreikning á ellilífeyri samkvæmt 17. gr. sömu laga.

Fjármagnstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og einnig C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skulu fjármagnstekjur skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta. Í 23. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um útreikning ellilífeyris en þar segir að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr. laganna, uns lífeyririnn fellur niður að undanskildum greiðslum frá Tryggingastofnun, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og úttekt á séreignarlífeyrissparnaði. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Í tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun fyrir árið 2020, dags. 17. janúar 2020, var gert ráð fyrir að kærandi fengi 3.366.170 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 276.024 kr. í séreignarsparnað, 1.017.043 kr. í vexti og verðbætur og 2.697.953 kr. í leigutekjur á árinu. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar út miðað við hana. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2020 reyndust lífeyrissjóðstekjur kæranda vera 3.348.018 kr., greiðslur úr séreignarsparnaði reyndust vera 900.000 kr. og fjármagnstekjur reyndust mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun, eða samtals 4.618.779 kr. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins leiddi í ljós að ellilífeyrir var ofgreiddur að samtals 126.789 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að fjármagnstekjur voru vanáætlaðar í tekjuáætlun. Fjármagnstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Bent er á að greiðslur til kæranda úr séreignarsparnaði höfðu engin áhrif á endurreikning Tryggingastofnunar, enda teljast slíkar greiðslur ekki til tekna við útreikning á ellilífeyri samkvæmt 17. gr. sömu laga, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2020.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum