Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2005 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 9/2004

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 9/2004:

A

gegn

Ísfélagi Vestmannaeyja hf.

 

--------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 23. febrúar 2005 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dags. 25. ágúst 2004, óskaði B hrl. eftir því, fyrir hönd A, við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort uppsögn A úr starfi sem verkamaður hjá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. bryti í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Ísfélagi Vestmannaeyja hf. með bréfi, dags. 3. september 2004. Þar var, með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000, óskað upplýsinga um afstöðu fyrirtækisins til erindis kæranda, upplýsinga um starfssvið kæranda frá árinu 2000 og um gildandi sérkjarasamninga. Þá var óskað eftir afriti af uppsagnarbréfi kæranda og nánari tilgreiningu á ástæðum uppsagnarinnar. Kærunefnd jafnréttismála óskaði sérstaklega eftir afstöðu fyrirtækisins til þeirrar fullyrðingar í kæru að „stór hluti þeirra karlkyns starfsmanna fiskimjölsverksmiðjunnar sem ekki var sagt upp höfðu minni starfsreynslu, minni menntun og styttri starfstíma hjá kærða en kærandi“. Að lokum var fyrirtækinu gefinn kostur á að koma á framfæri öðru því sem það teldi til upplýsinga fyrir málið.

Svar barst með bréfi D, framkvæmdastjóra Ísfélags Vestmannaeyja hf., dags. 29. september 2004. Kæranda var kynnt bréfið með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 1. október 2004, og henni gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi B hrl., dags. 29. október 2004. Það bréf var sent Ísfélagi Vestmannaeyja hf. með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 3. desember 2004, og óskað frekari upplýsinga af hálfu félagsins. Svar Ísfélags Vestmannaeyja barst með bréfi, dags. 12. janúar 2005, og var það, ásamt fylgigögnum, sent kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 31. janúar 2005, og óskað athugasemda ef einhverjar væru. Engar frekari athugasemdir hafa borist nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Kærandi hóf störf hjá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. árið 1983 og starfaði þar með hléum til ársins 2000, en síðan að mestu samfellt eins og fram kemur á málsskjali nr. 7.1, þar til henni var sagt upp störfum í apríl 2004. Kærandi var starfsmaður í fiskimjölsverksmiðju Ísfélags Vestmannaeyja eins og fram kemur í ráðningarsamningi sem gerður var við hana 7. febrúar 2003. Hinn 18. desember 2003 var gerður nýr ráðningarsamningur við kæranda þar sem starfssviði hennar var breytt þannig að henni var ætlað að vinna almenn verkamannastörf hjá Ísfélaginu, við fiskvinnslu, bræðslu, löndun, útskipun, flokkun og almenn viðhaldsstörf samkvæmt nánari ákvörðun verkstjóra/yfirmanns hverju sinni, en ekki eingöngu í fiskimjölsverksmiðjunni.

Í fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins störfuðu samtals átta manns þegar kæranda og öðrum karlkyns starfsmanni var sagt upp störfum í apríl 2004 og var kærandi eina konan í hópnum. Kærandi kveðst hafa verið með lengri starfsreynslu og betri menntun en karlkyns starfsmenn sem héldu starfi sínu og telur uppsögn sína vera til komna vegna kynferðis hennar.  

Af hálfu Ísfélags Vestmannaeyja hf. er því haldið fram að ástæður uppsagnar kæranda hafi verið samstarfserfiðleikar. Því til stuðnings hefur félagið meðal annars lagt fram bréf Mímis-símenntunar, dags. 29. desember 2004, þar sem staðfest er að Menningar- og fræðslusamband alþýðu hafi veitt félaginu ágreiningsráðgjöf frá febrúar 2002 til 24. október sama ár. Kærandi hefur mótmælt því að um samstarfserfiðleika hafi verið að ræða. 

 

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að með uppsögn hennar hafi Ísfélag Vestmannaeyja hf. brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Af hálfu kæranda er á því byggt að hún hafi starfað hjá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. allt frá árinu 1983, með hléum, en að fullu frá árinu 2000. Hafi kærandi sótt fjölmörg námskeið fyrir sérhæfða verkamenn í mjölvinnslu og auk þess aflað sér víðtækra vinnuvélaréttinda sem nýttust í þessu tiltekna starfi. Hafi kærandi verið eina konan sem starfaði í fiskimjölsverksmiðjunni, auk þess sem hún hafi verið eina konan sem starfaði í þessari grein í Vestmannaeyjum og ein af örfáum á landsvísu. Laun fyrir störf í fiskimjölsverksmiðju séu almennt hærri en fyrir almenn fiskvinnslustörf og hafi tekjur kæranda í þessu starfi því verið ágætar. Kærandi byggir á því að hún hafi ekki verið áminnt í starfi og ekki hafi verið gerðar athugasemdir við starfshætti hennar. Kærandi bendir á að gerður hafi verið ráðningarsamningur við hana 7. febrúar 2003, en sá samningur hafi komið til vegna kjarabreytinga. Í umræddum samningi hafi starfssvið kæranda verið tilgreint í fiskimjölsverksmiðju. Undir lok ársins 2003 hafi ráðningarsamningum sumra starfsmanna verið breytt og hafi kærandi undirritað nýjan ráðningarsamning, dags. 18. desember 2003, þar sem tilgreiningu starfssviðs hennar hafi verið breytt en sú tilgreining hafi á engan hátt haft í för með sér breytingar á störfum kæranda sem starfaði eftir sem áður í fiskimjölsverksmiðjunni. Í lok apríl 2004 hafi kæranda ásamt karlkyns samstarfsmanni í fiskimjölsverksmiðjunni verið sagt upp störfum, en engar skýringar hafi verið gefnar á uppsögninni en fyrir liggi að stór hluti þeirra karlkyns starfsmanna fiskimjölsverksmiðjunnar sem ekki var sagt upp hafi haft minni starfsreynslu, minni menntun og styttri starfstíma en kærandi. Kærandi kveðst hafa gert athugasemdir við uppsögn sína en í bréfi Samtaka atvinnulífsins, dags. 16. júní 2004, hafi ástæða uppsagnarinnar verið tilgreind sem erfiðleikar í samstarfi við þá tvo starfsmenn sem sagt var upp störfum. Af hálfu kæranda er á því byggt að ekki hafi komið upp erfiðleikar í samstarfi hennar og yfirmanna hennar þann tíma sem hún starfaði hjá fyrirtækinu og engar athugasemdir hafi verið gerðar við störf hennar svo sem að framan er rakið. Kærandi bendir sérstaklega á að hún hafi í senn lengri starfsreynslu og meiri menntun en karlkyns samstarfsmenn sem héldu starfi sínu. Uppsögn kæranda úr starfi hafi því verið ólögmæt og farið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

IV

Sjónarmið Ísfélags Vestmannaeyja hf.

Af hálfu Ísfélags Vestmannaeyja hf. er því haldið fram að uppsögn kæranda hafi ekki byggst á kynferði hennar. Henni hafi verið sagt upp vegna samstarfserfiðleika sem staðið hafi um nokkurn tíma. Tveimur starfsmönnum hafi verið sagt upp í lok apríl 2004 og hafi uppsagnirnar eingöngu tengst umræddum samstarfsörðugleikum en hafi ekki verið að rekja til hagræðingar eða skipulagsbreytingar. Í þessu sambandi bendir Ísfélag Vestmannaeyja hf. einnig á að sambærilegar ástæður hafi legið að baki þeirri ákvörðun fyrirtækisins í desember 2003 að gera nýjan ráðningarsamning við kæranda í stað fyrri ráðningarsamnings frá febrúar 2003, þar sem vinnustaður hennar og starfssvið hafi verið skilgreint upp á nýtt og með almennari hætti en var í fyrri ráðningarsamningi. Byggir fyrirtækið á því að tilgangur með breytingu á ráðningarsamningum hafi verið sá, á þeim tíma, að ná fram breytingum á starfssviði ákveðinna starfsmanna.

Starfsreynsla, menntun og starfstími þeirra tveggja sem sagt var upp hjá félaginu hafi því ekki haft nokkra þýðingu fyrir ákvörðun félagsins að segja þeim upp.

Af hálfu Ísfélags Vestmannaeyja hf. er á því byggt að ekki fái staðist að kærandi kannist ekki við neina samstarfserfiðleika milli stjórnenda og verkamanna hjá fiskimjölsverksmiðjunni. Í því sambandi bendir Ísfélag Vestmannaeyja hf. á að fyrirtækið hafi séð sig knúið til þess að óska utanaðkomandi aðstoðar til freista þess að bæta samstarf milli starfsmanna og yfirmanna í fiskimjölsverksmiðjunni og hafi fyrirtækið því leitað til Menningar- og fræðslusambands alþýðu og vísar í því sambandi til bréfs Mímis-símenntunar, dags. 29. desember 2004, þar sem gerð er grein fyrir þeirri aðstoð. Ráðgjöfin hafi þó ekki skilað þeim árangri sem að hafi verið stefnt og hafi stjórnendur fyrirtækisins ekki haft önnur ráð en að segja tveimur starfsmönnum upp eins og að framan greinir.

Í athugasemdum Ísfélags Vestmannaeyja hf. var einnig rakið fyrirkomulag á starfsemi fiskimjölsverksmiðjunnar, tilgreining starfssviðs í ráðningarsamningum og gerð grein fyrir starfsreynslu og menntun þeirra starfsmanna sem störfuðu í fiskimjölsverksmiðjunni.

 

V

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við uppsögn hennar úr starfi hjá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsmönnum við uppsögn úr starfi á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis, skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Fyrir liggur í máli þessu að tveimur starfsmönnum var sagt upp af hálfu Ísfélags Vestmannaeyja hf. þann 29. apríl 2004, kæranda og karlmanni. Af hálfu kæranda er á því byggt að Ísfélag Vestmannaeyja hf. hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga með uppsögn hennar, þar sem hún hafi verið með lengri starfsreynslu og menntun en aðrir karlkyns starfsmenn, sem ekki var sagt upp.

Ísfélag Vestmannaeyja hf. hefur í athugasemdum sínum til nefndarinnar gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar við ákvörðun um það að framangreindum tveimur starfsmönnum var sagt upp, en ástæðu uppsagnar kæranda var ekki getið í uppsagnarbréfi. Á því er byggt af hálfu Ísfélags Vestmannaeyja hf. að ástæða uppsagnanna hafi eingöngu verið samstarfsörðugleikar kæranda, og karlmannsins sem sagt var upp störfum, við yfirmenn sína en ekki hafi verið um neinar skipulagsbreytingar eða því um líkt að ræða innan fyrirtækisins. Er einnig byggt á því að sama ástæða hafi legið að baki breytingu á tilgreiningu vinnustaðar og starfssviðs í ráðningarsamningi kæranda í desember 2003.

Kærandi telur að fullyrðingar Ísfélags Vestmannaeyja hf. þess efnis að ástæður uppsagnarinnar hafi verið samstarfsörðugleikar kæranda við yfirmenn sína, eigi ekki við rök að styðjast. Kannast kærandi ekki við að upp hafi komið samstarfsörðugleikar hjá henni og yfirmönnum hennar allan þann tíma er hún starfaði fyrir Ísfélag Vestmannaeyja hf.

Ljóst er að allnokkur ágreiningur er milli málsaðila um atvik málsins og aðdraganda uppsagnarinnar, svo sem að framan er rakið.

Það þykir renna nokkrum stoðum undir fullyrðingar Ísfélags Vestmannaeyja hf. að í gögnum málsins er að finna staðfestingu frá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, þess efnis að árið 2002 hafi Ísfélag Vestmannaeyja hf. fengið ráðgjöf hjá sambandinu, vegna samstarfsörðugleika milli starfsmanna og stjórnenda í fiskimjölsverksmiðjunni, sem fólst m.a. í fjölda funda með einstökum starfsmönnum, hópi starfsmanna og stjórnendum. Ætla verður að framangreindir samstarfsörðugleikar hafi vart getað farið fram hjá starfsmönnum fiskimjölsverksmiðjunnar, þar með talið kæranda, sem skv. gögnum málsins var nánast í fullu starfi í fiskimjölsverksmiðjunni frá árinu 2000. Þá verður einnig að líta til þess að samhliða uppsögn kæranda var öðrum starfsmanni, karlmanni, sagt upp störfum.  

Með vísan til þess sem rakið hefur verið um ástæður Ísfélags Vestmannaeyja hf. fyrir uppsögn kæranda þann 29. apríl 2004, og með hliðsjón af gögnum málsins, þykir Ísfélag Vestmannaeyja hf. hafa leitt nægilegar líkur að því að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun þess. 

Það er því niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að með uppsögn kæranda úr starfi hafi Ísfélag Vestmannaeyja hf. ekki brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

   

   

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása ÓlafsdóttirEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira