Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2009 Innviðaráðuneytið

Sameining Grímseyjar og Akureyrar samþykkt

Samþykkt var laugardaginn 25. apríl sameining sveitarfélaganna Grímseyjarhrepps og Akureyrakaupstaðar. Kosið var um sameininguna samhliða kosningunum til Alþingis.

Akureyringar samþykktu sameininguna með 69% atkvæða og Grímseyingar með 88%. Íbúar í Grímsey voru 1. desember síðastliðinn 92 en 17.552 á Akureyri. Með sameiningunni fækkar sveitarfélögum landsins úr 78 í 77. Sameiningin tekur gildi 1. júní næstkomandi.

Fram að sveitarstjórnarkosningum vorið 2010 verður yfirstjórn hins sameinaða sveitarfélags þannig háttað að bæjarstjórn Akureyrar mun hafa með höndum stjórn þess. Fagnefndir Akureyrar munu hver á sínu sviði fara með málefni sem varða Grímsey og heyra undir þær.

Hreppsnefnd Grímseyjarhrepps verður samráðsnefnd fram að sveitarstjórnarkosningum 2010. Hlutverk hennar er að vera tengiliður fagnefnda og íbúa Grímseyjar og getur hún skipað áheyrnarfulltrúa úr nefndinni til setu á fundum fagnefnda þegar málefni Grímseyjar eru til umfjöllunar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum