Hoppa yfir valmynd
29. júní 2016 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Gestastofa í þjóðgarðinum Snæfellsjökli að Malarrifi opnuð

Frá opnun gestastofunnar. - mynd

Margmenni var við opnun gestastofu að Malarrifi í gær, sama dag og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hélt upp á 15 ára afmæli sitt. Enduropnuð var sýning um náttúru og sögu þjóðgarðsins í húsnæði þjóðgarðsins að Malarrifi sem hefur nú verið gert upp með glæsibrag. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði gestastofuna formlega og flutt voru ávörp frá fulltrúum þjóðgarðsins, Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins Snæfellsbæjar.

Sagði ráðherra að afar vel væri að verki staðið við uppbyggingu þjóðgarðsins og gestastofunnar. „Þetta er augljóslega gert með mikilli alúð fyrir sögunni og umhverfinu þar sem gamalt fjárhús innan þjóðgarðsins er nýtt á skemmtilegan hátt í þessum tilgangi.“ Sagði hún að nú þegar þjóðgarðurinn væri orðinn 15 ára væri augljóst að hann væri að komast á legg – ánægjulega kæmi á óvart að sjá þá uppbyggingu sem ætti sér stað á fjölmörgum stöðum innan garðsins sem byggi yfir mikilli fjölbreytni. Opnun gestastofunnar myndi styrkja svæðið í heild og í henni fælist gott upphaf að frekari uppbyggingu en m.a. er áformað að reisa þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi.

Húsnæðið sem tekið var formlega í notkun í gær var áður fjárhús og hlaða, en þar rúmast nú gestastofa og upplýsingamiðstöð, vinnu- og fundaraðstaða, starfsmannaaðstaða, geymsla og vinnurými. Með því hefur aðstaða þjóðgarðsins, starfsmanna og gesta batnað til muna. Ber t.d. að nefna að nú eru aðgengileg salerni fyrir ferðamenn allan sólarhringinn í húsinu.

Gestastofa þjóðgarðsins hefur verið opin stærsta hluta ársins en stefnt verður að heilsársopnun alla daga ársins enda nauðsynlegt að bregðast við vaxandi fjölgun ferðamanna árið um kring. Í sumar verður opið frá klukkan 10 til 17 alla daga vikunnar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira