Hoppa yfir valmynd
25. mars 2014 Félagsmálaráðuneytið

Fjölgun starfa, hærra atvinnustig og aðgerðir gegn atvinnuleysi

Fánar Norðurlanda. Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org
Fánar Norðurlanda. Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org

Áhugaverðar upplýsingar um samstarf Norðurlandaþjóðanna, meðal annars á sviði vinnumála, koma fram í skýrslu um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2013 sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda kynnti á Alþingi í liðinni viku.

Sem fyrr felst samstarfið einkum í miðlun reynslu og upplýsinga um aðgerðir landanna og niðurstöður sem snerta sameiginleg úrlausnarefni. Megináhersla samstarfs á vinnumarkaðssviði er fjölgun starfa, aukið atvinnustig og að draga úr atvinnuleysi.

Áherslur í vinnuvernd snúa einkum að því að efla gott vinnuumhverfi, þróa vinnuvernd og vinnueftirlit, koma í veg fyrir óásættanleg starfskjör, félagsleg undirboð og mismunun á vinnumarkaði.

Forgangsmál norrænu ráðherranefndarinnar á öllum sviðum vinnumála er að afnema og fyrirbyggja stjórnsýsluhindranir á norrænum vinnumarkaði til að liðka fyrir hreyfanleika á milli svæða og gera vinnumarkaðinn meira aðlaðandi og sveigjanlegri. Samstarf við aðila vinnumarkaðarins er mikilvægur þáttur í samstarfinu.

Staða ungs fólks

Svíar sem fóru með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2013 settu ungt fólk og aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi ungs fólks á oddinn. Um 700 manns hvaðanæva af Norðurlöndunum sátu fund um atvinnumál ungs fólks þar sem kynnt var úrval verkefna sem þjóðirnar hafa unnið að í þessu skyni. Forsætisráðherrar og vinnumálaráðherrar landanna tóku þátt í fundinum. Alls voru kynnt 25 verkefni, þarf af þrjú íslensk.

Verkefni um atvinnuleysi ungs fólks á Norðurlöndum hófst haustið 2011 þar sem markmiðið var meðal annars að greina samspil skóla og vinnumarkaðar þegar ungt fólk lýkur námi og fer út á vinnumarkaðinn. Stöðurskýrslu um verkefnið var skilað á liðnu ári en lokaniðurstöður eru væntanlegar seinni hluta þessa árs.

Mikill ávinningur af norrænu samstarfi

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og samstarfsráðherra Norðurlanda árið 2014 segir skýrsluna um störf ráðherranefndarinnar fyrir liðið ár afar áhugaverða. Hún sýni vel hvað þjóðirnar eigi margt sameiginlegt, hvað áherslur þeirra séu líkar í mörgum efnum og gagnkvæmur hagur af samstarfi þeirra þar af leiðandi mikill: „Við erum sterkari saman, við getum lært hver af annarri og við getum unnið saman að mikilvægum málefnum. Atvinnumálin hafa verið ofarlega á baugi af skiljanlegum ástæðum síðustu ár. Ég tel áfram mikilvægt að sinna vel því samstarfi og eins legg ég mikið upp úr aðgerðum gegn stjórnsýsluhindrunum.“Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira