Hoppa yfir valmynd
22. desember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áslaug Arna ræddi samnorræna stefnu um netöryggi við forsætisnefnd Norðurlandaráðs

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ásamt Kristinu Háfoss, framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs. - mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mætti á fund forsætisnefndar Norðurlandaráðs 15. desember sl. til að ræða samnorræna stefnu um netöryggi og norræna framkvæmdaáætlun þar um.

Í opnunarávarpi Áslaugar Örnu fór hún yfir stöðu netöryggismála á Íslandi og samnorrænt samstarf á því sviði. Hún lýsti tækifærum sem fólgin eru í því að leiða saman málefnasvið netöryggis, háskóla, vísinda, nýsköpunar, tækni og iðnaðar. Aldrei hefur verið jafn mikil þörf og nú að auka hæfni og getu þjóða til að efla netöryggi. Í því samhengi ættu Norðurlöndin að stefna að öflugu samstarfi varðandi netöryggismenntun, t.a.m. á háskólastigi.

„Öryggi net- og upplýsingakerfa er grundvöllur þess að hægt verði að nýta til fulls möguleika stafrænna lausna,“ sagði Áslaug Arna. „Alþjóðlegt samstarf er í þessu samhengi mjög mikilvægt, því netöryggismál eru án landamæra og áskoranir þeirra stöðugt vaxandi. Ef Norðurlöndin vilja vera fremst í röð í nýtingu stafrænnar tækni með öruggum hætti er mikilvægt að efla samstarf á milli þeirra.“

Áslaug Arna nefndi fleiri dæmi um möguleika á auknu samstarf Norðurlandanna, t.d. með því að útvíkka samstarf landsbundna öryggis- og viðbragðsteyma á Norðurlöndunum, með samnýtingu á kostnaðarsömum tækjum fyrir djúpgreiningar á veikleikum og atvikum og með gagnkvæmri miðlun áhættumats á sviði netöryggis. Þá eru tækifæri fólgin í að auka samstarf Norðurlandanna þegar kemur að áherslum á netöryggi hjá Evrópusambandinu, t.d. í tengslum við evrópskt regluverk.

Áhugaverðar umræður spruttu í framhaldi af opnunarávarpi Áslaugar Örnu þar sem fulltrúar forsætisnefndar lögðu fram spurningar til ráðherra.

Um forsætisnefnd Norðurlandaráðs

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er pólitísk stjórn Norðurlandaráðs og ber ábyrgð á umfangsmiklum pólitískum málum, skipulagningu og fjárhagsáætlunum auk utanríkis- og varnarmálasamstarfi þjóðþinganna. Forsætisnefndin ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir. Forsætisnefndin hefur mikið samstarf við Eystrasaltsráðið, sem er vettvangur þingsamstarfs Eistlands, Lettlands og Litháens.

Meira um forsætisnefnd Norðurlandaráðs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum