Hoppa yfir valmynd
4. október 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Samstarfshópur skipaður um heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Elliði Vignisson bæjarstjóri
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Elliði Vignisson bæjarstjóri

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur í samstarfi við bæjarstjórn Vestmannaeyja skipað samstarfshóp sem á að fjalla um skipulag heilbrigðisþjónustu í Eyjum og gera tillögur um fyrirkomulag þjónustunnar með hagkvæmni og öfluga grunnþjónustu í þágu bæjarbúa að leiðarljósi. Hópnum er ætlað að skila tillögum 15. nóvember næstkomandi. Ráðherra hefur falið forstjóra sjúkrahússins að tryggja mönnun skurðstofu þar til samstarfshópurinn skilar tillögum sínum.

Lýsing á verkefnum samstarfshópsins og markmiðum þeirra fer hér á eftir og fylgir jafnframt sem pdf.-skjal:

Samstarfshópur heilbrigðisráðherra og bæjarstjórnar Vestmannaeyja

Heilbrigðisráðherra hefur í samstarfi við bæjarstjórn Vestmannaeyja skipað samstarfshóp um heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum. Hópurinn hefur fjórþætt verkefni:

1. Að tillögur samstarfshópsins leiði til eflingar grunnheilbrigðisþjónustu og tryggi sem best öryggi þeirra Vestmannaeyinga  sem þurfa inngrip eða aðkomu sérhæfðari þjónustu, s.s. vegna slysa, bráðra sjúkdóma eða fæðinga.

2. Að tillögur samstarfshóps leiði til aukinnar hagkvæmni í rekstri, skýrari stefnumörkun, hlutverks og samhæfingar heilbrigðisþjónustunnar í Vestmannaeyjum.

3. Að eftirfylgd með innleiðingu feli í sér formlegt eftirlit með árangri innleiðingar tillagna og öryggisþáttum heilbrigðisþjónustunnar.

4. Hópurinn kanni kosti og galla þess að Vestmannaeyjabær reki, samkvæmt samningi við ríkið, heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum.

Tillögurnar skulu ná til allra starfsþátta HSVE og hjúkrunarheimilisins Hraunbúða. Í því sambandi skal hópurinn leggja til leiðir til að samhæfa betur einstaka þjónustuþætti, s.s. heilsugæslu, legudeild, heimaþjónustu og hjúkrunarheimili.

Samstarfshópurinn skal leggja mat á útreiknaða rekstararhagræðingu sem næst með þessum aðgerðum til skemmri og lengri tíma.  Hópurinn mun einnig leggja mat á afleiddan kostnað vegna fyrirhugaðra breytinga á starfseminni, s.s. vegna öryggisþátta heilbrigðisþjónustunnar, sjúkraflutninga og starfsemi heilsugæslu og öldrunarþjónustu.  Samstarfshópurinn mun einnig leggja fram tillögur er lúta að stjórnunarlegum þáttum, sem marka sýn og stefnu starfseminnar til framtíðar og sem mætir heilbrigðisþjónustuþörfum nærsamfélagsins.  Með slíkt að leiðarljósi mun hópurinn leggja mat á heilbrigðisþarfir samfélagsins m.t.t. hvaða þjónustu er brýnt að veita á heilbrigðisstofnuninni.

Samstarfshópurinn mun leita ráðgjafar tilgreindra aðila er lýtur að öryggisþáttum er varða sjúkraflutninga og meðgöngu/fæðingar í Vestmannaeyjum.  Hópurinn mun leggja fram tillögu til verklags vegna þessa í samráði við sömu aðila.  Samstarfshópurinn mun ennfremur leggja fram verkáætlun í samráði við eftirlits- og gæðasvið Embættis landlæknis um eftirfylgd með árangri, eins og kostur er og öryggi þjónustunnar eftir innleiðingu aðgerða.

Í hópnum sitja fyrir hönd ráðuneytisins  Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson sem leiðir störf hópsins og Steinunn Sigurðardóttir. Fyrir hönd bæjarins Hjörtur Kristjánsson og Trausti Hjaltason.  Hópnum er ætlað að skila áfangaskýrslu eigi síðar en 15. nóvember nk.

Samhliða samstarfshópnum starfar hópur sem hefur með höndum skipulag fæðingarþjónustu í Vestmannaeyjum . Hópinn skipa: Ágúst Óskar Gústafsson, læknir sem leiðir hópinn, Drífa Björnsdóttir, ljósmóðir HSVe, Sigrún Kristjánsdóttir, ljósmóðir HSU, Hildur Harðardóttir, yfirlæknir LSH og Anna Sigr. Vernharðsdóttir, yfirljósmóðir á  LSH. Hópnum er gert að ljúka vinnu sinni 1. nóvember nk.

Heilbrigðisráðherra og bæjarstjórn Vestmannaeyja,
4. október 2013

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum