Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 17/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 17/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17120019

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 30. mars 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2017, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Ghana (hér eftir nefndur kærandi) um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda þann 3. apríl 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 8. apríl 2017. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 28. apríl 2017. Þann 22. maí 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð sinn. Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kæranda var synjað af kærunefnd þann 8. júní 2017. Þann 3. júlí 2017 barst kærunefnd kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar um að brottvísa kæranda frá landinu. Úrskurður kærunefndar þar sem sú ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest var birtur kæranda þann 5. september 2017. Þann 14. ágúst 2017 barst kærunefnd önnur beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð sinn. Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kæranda var synjað af kærunefnd þann 31. ágúst 2017. Þann 10. október 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð í máli hans. Með úrskurði kærunefndar, dags. 26. október 2017, var kröfu kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað. Þann 8. desember 2017 óskaði kærandi að nýju eftir endurupptöku málsins.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir aðallega á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að íþyngjandi ákvörðun í máli hans hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin. Því sé farið fram á að mál kæranda verði tekið upp að nýju og að kæranda verði annað hvort veitt alþjóðleg vernd hér á landi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. útlendingalaga.

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og fjölskyldu hans byggir kærandi beiðni sína um endurupptöku aðallega á því að heilsufar hans hafi versnað mjög, en þann 27. nóvember sl. hafi kærandi þurft að leita á bráðamóttökuna eftir blóðug uppköst og kviðverki. Samkvæmt beiðni um speglun, dags. 27. nóvember 2017, hafi blóðugu uppköstin varað í þrjá daga. Þá hafi kærandi jafnframt verið með verk í neðanverðum kvið sem hann hafi aðallega fengið í tengslum við máltíðir. Í beiðninni hafi læknirinn óskað eftir því að kærandi færi í magaspeglun.

Þá kemur jafnframt fram í greinargerð kæranda að eiginkonu hans hafi borist hótanir í smáskilaboðum og myndir frá einstaklingum bæði á Ítalíu og í Ghana sem tengist þeim sem hafi hneppt hana í mansal. Kærandi óttist um líf sitt og fjölskyldu sinnar verði þeim gert að snúa aftur til annaðhvort Ghana eða Ítalíu.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hans verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem íþyngjandi ákvörðun hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því ákvörðun var tekin. Er því farið fram á að mál kæranda verði tekið upp að nýju og að honum verði veitt alþjóðlega vernd hér á landi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram:

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 30. mars 2017 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda þann 3. apríl 2017. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku einkum á heilsufarslegum ástæðum. Í beiðni læknis um magaspeglun, dags. 27. nóvember 2017, kemur fram að kærandi hafi verið með blóðug uppköst í þrjá daga og að kærandi sé með verk í neðanverðum kvið. Við skoðun sé það mat læknisins að kærandi sé hvorki bráðveikindalegur að sjá né áberandi verkjaður. Þá hafi ekkert athugavert komið út úr blóðprufu kæranda. Sé stefnt að því að framkvæma magaspeglun á kæranda í þeim tilgangi að ganga úr skugga um alvarleika veikinda kæranda.

Með tölvupósti dags. 19. desember 2017 óskaði kærunefndin eftir því að fá frekari upplýsingar um heilsufar kæranda og þá helst niðurstöður úr magaspegluninni sem talsmaður kæranda kveður að hafi verið framkvæmd í byrjun desember. Kærunefnd veitti kæranda frest til 29. desember 2017 til að afla þessara gagna. Fyrir tilskilinn frest barst kærunefnd afrit úr sjúkraskrá Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja ásamt samskiptaseðli frá Læknavaktinni dags. 20. desember 2017. Í sjúkraskrá Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja kemur m.a. fram að þann 1. desember 2017 hafi kærandi ekki mætt í fyrirhugaða magaspeglun. Kærandi hafi fengið nýjan tíma og farið í magaspeglun þann 4. desember 2017. Í sjúkraskránni kemur fram að bæði magi kæranda og vélinda hafi litið eðlilega út og hafi læknirinn hvorki orðið var við sár né æxli. Vægur roði hafi fundist í skeifugörn kæranda en engin skýring hafi fundist á blóðugum uppköstum hans. Eigi kærandi að mæta í eftirfylgni hjá læknum í Keflavík. Í samskiptaseðli frá Læknavaktinni, dags. 20. desember 2017, kemur fram að kærandi hafi verið að fá blæðingar með hægðum og að kærandi þurfi að fara á salernið þegar hann sé búinn að borða. Læknirinn telur hugsanlegt að kærandi sé með bólgu í ristli og álítur læknirinn að kærandi ætti að fara í ristilspeglun.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar auk þess sem nefndin hefur yfirfarið fylgigögn fyrri beiðna kæranda á ný og aðrar upplýsingar um aðstæður í Ghana, einkum skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna (Ghana 2016 Country Reports on Human Rights Practices (U.S. Department of State, 3. mars 2017)), skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (Ghana: Country Cooperation Strategy at a glance (WHO, maí 2017)) og skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Freedom in the World 2017-Ghana (UNHCR, 23 maí 2017)). Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að allir Ganverjar hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu í landinu. Þrátt fyrir einhverja bið og tiltekinn lágmarkskostnað þá sé heilbrigðisþjónusta í boði í Ghana fyrir þá sem óski eftir henni. Lyf séu almennt fáanleg í höfuðborgum og á þéttbýlissvæðum en erfiðara geti verið að nálgast lyf á dreifbýlli svæðum.

Þær læknisfræðilegu upplýsingar sem kærandi hefur lagt fram eru, að mati kærunefndar, ekki þess eðlis að þær geti breytt fyrra mati kærunefndar. Gögn málsins beri ekki með sér að heilsufarsvandi kæranda sé nægjanlega alvarlegur að skilyrði séu fyrir hendi til endurupptöku á máli kæranda á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í úrskurðum kærunefndar í málum kæranda og fjölskyldu hans var fjallað um þær aðstæður sem bíða þeirra í Ghana. Í beiðni kæranda um endurupptöku koma ekki fram nýjar upplýsingar eða gögn um aðstæður kæranda sem gefa efni til endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þá er það afstaða kærunefndar að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram varðandi heilsufar sitt séu ekki þess eðlis né nái því alvarleikastigi að talið verði að aðstæður hans og fjölskyldunnar hafi breyst verulega í skilningi 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga frá því að nefndin úrskurðaði í málinu.

Að öðru leyti er það mat kærunefndar að ekki sé tilefni til endurupptöku málsins. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                            Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum