Hoppa yfir valmynd
14. september 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 507/2017 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 507/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17070047

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. júlí 2017 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. maí 2017, um að hafna honum um að fá að dveljast á landinu á meðan umsókn hans um dvalarleyfi, sem móttekin var hjá Útlendingastofnun 24. febrúar 2017, væri í vinnslu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði hrundið og að kærandi fái að dveljast á landinu á meðan að umsókn hans um dvalarleyfi er í vinnslu.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kæranda var fyrst veitt dvalarleyfi hér á landi með gildistíma frá 9. júní 2011 til 1. febrúar 2012 á grundvelli námsdvalar. Síðan þá hefur kærandi dvalið hér ýmist á grundvelli námsdvalar eða sérfræðiþekkingar. Kærandi sótti um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar 1. júní 2016. Þeirri umsókn var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar 7. desember 2016. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Með úrskurði dags. 16. febrúar 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun stofnunarinnar um synjun um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Hinn 24. febrúar 2017 lagði kærandi inn umsókn um dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 61. gr. útlendingalaga nr. 80/2016. Útlendingastofnun sendi kæranda tilkynningu, dags. 2. mars 2017, þar sem fram kom að hann yrði að yfirgefa landið innan nánar tilgreinds frests þar sem hann hefði ekki lengur dvalarleyfi hér á landi. Hinn 20. mars 2017 lagði kærandi jafnframt inn umsókn um atvinnuleyfi á grundvelli nýs ráðningarsamnings og óskaði eftir dvalarleyfi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Með bréfi, dags. 22. mars 2017, óskaði kærandi eftir heimild til að dvelja á landinu á meðan umsókn hans væri í vinnslu hjá Útlendingastofnun. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. maí 2017, var beiðni kæranda hafnað. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar þann 20. júlí 2017. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 4. ágúst 2017. Viðbótargögn bárust frá kæranda þann 18. ágúst 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í niðurstöðum ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin fallist ekki á túlkun kæranda á 3. mgr. 61. gr. laga um útlendinga. Kæranda hafi verið synjað um endurnýjun dvalarleyfis með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 7. desember 2016 sem hafi verið staðfest með úrskurði kærunefndar 16. febrúar 2017 og því geti ný umsókn ekki talist vera umsókn um endurnýjun dvalarleyfis heldur verði hún að teljast vera umsókn um fyrsta dvalarleyfi, en ekki endurnýjun dvalarleyfis.

Útlendingastofnun taldi sér ekki heimilt að veita kæranda heimild til dvalar á landinu á meðan umsókn hans er til afgreiðslu hjá stofnuninni á grundvelli c-liðar 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga í ljósi þess að kærandi er áritunarskyldur, enda sé hann frá [...] og ekki með vegabréfsáritun, sbr. 2. mgr. 51. gr. sömu laga. Stofnunin tók til skoðunar hvort ríkar sanngirnisástæður mæli með því, sbr. 3. mgr. 51. gr., að kæranda ætti að vera heimil dvöl á landinu. Fram kom að ákvæðið sé undantekning frá meginreglu laganna og bæri að túlka allar slíkar undanþáguheimildir þröngt. Að mati Útlendingastofnunar voru aðstæður kæranda ekki til þess fallnar að eiga undir þröngt gildissvið undanþáguheimildar 3. mgr. 51. gr. laganna. Umsókn hans um heimild til að dveljast á landinu meðan dvalarleyfisumsókn hans er í vinnslu var því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því í greinargerð sinni að hann sé ekki að sækja um dvalarleyfi í fyrsta skipti. Hann hafi margoft sótt um dvalarleyfi og fengið útgefin dvalarleyfi áður. Kærandi telji sig hafa haft heimild til dvalar á landinu er hann lagði fram umsókn sína um dvalarleyfi og því hafi honum borið að fá að dvelja á landinu á meðan umsókn hans væri til meðferðar, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggi beiðni sína jafnframt á sanngirnissjónarmiðum. Móðir hans sé mjög veik og vísi kærandi í læknisvottorð, dags. 13. júlí 2017, þar sem fram komi að hún [...]. Þá stundi kærandi nú nám við Háskóla Íslands en hann sé á sínu öðru ári að læra ítölsku. Hann muni ekki geta sótt þá fyrirlestra sem hann sé skráður í verði honum gert að fara af landinu. Kærandi byggi einnig á því að hann standi í dómsmáli gagnvart íslenska ríkinu og tilteknum aðilum. Ljóst sé að úrslit þessa dómsmáls skipti miklu fyrir kæranda. Kærandi telji það ósanngjarnt yrði honum gert að víkja af landinu undir rekstri málsins. Þá byggi kærandi á því að hann hafi dvalið á Íslandi frá árinu 2011 og það væri ósanngjarnt í ljósi þess hve lengi hann hafi búið hér á landi að að leyfa honum ekki að dvelja á landinu á meðan umsókn hans sé til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Af hálfu kæranda er því einnig haldið fram að fái hann ekki að dvelja á landinu á meðan umsókn hans er til meðferðar hafi það áhrif á rétt hans til ótímabundinnar dvalar skv. b-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga svo og rétt hans til að öðlast ríkisborgararétt með stjórnsýsluákvörðun. Að lokum vísi kærandi í úrskurð innanríkisráðuneytisins, mál nr. IRR4020086, þar sem byggt hafi verið á sanngirnissjónarmiðum í ákvæði eldri laga um útlendinga nr. 96/2002, ákvæði sem nú sé að finna í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji málsatvik nú sambærileg þeim sem hafi verið uppi er leyst hafi verið úr málinu hjá ráðuneytinu og því beri að leysa úr þessu máli á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslum og gert var í úrskurði ráðuneytisins.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja beiðni kæranda um að dveljast á landinu meðan umsókn hans um dvalarleyfi er í vinnslu og synja honum um dvalarleyfi hér á landi.

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann komi til landsins og sé honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hafi verið samþykkt. Frá þessu sé heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi sé undanþeginn áritunarskyldu eða hann sé staddur hér á landi m.a. sem umsækjandi um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar skv. 61. gr. laga um útlendinga, sbr. c-lið 1. mgr. 51. gr. laganna. Undantekningar skv. c-lið 1. mgr. 51. gr. gilda meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar án áritunar. Þá er heimilt að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum, þ.m.t. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi sækir um dvalarleyfi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. skal hafna umsókninni á þeim grundvelli, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Líkt og rakið hefur verið byggir kærandi á því að umsókn hans um dvalarleyfi geti ekki verið fyrsta umsókn hans þar sem hann hafi áður verið með dvalarleyfi hér á landi. Kærandi byggir einnig á því að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að undanskilja hann frá skilyrðum 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 51. gr. laganna. Í fyrsta lagi telji kærandi ríkar sanngirnisástæður vera fyrir hendi vegna þess að móðir hans sé veik og ekki ferðafær. Í öðru lagi að hann reki mál fyrir héraðsdómi og þurfi að vera á landinu til að gefa skýrslu og rithandarsýnishorn. Í þriðja lagi að það væri ósanngjarnt að senda hann úr landi þar sem hann stundi nú nám við Háskóla Íslands. Þá vísar hann í úrskurð innanríkisráðuneytisins í máli IRR14020086 frá 16. júní 2014 þar sem ráðuneytið felldi ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og lagði fyrir stofnunina að veita honum heimild til að vera á landinu á meðan umsókn hans um dvalarleyfi var í vinnslu á þeim tíma.

Kærunefnd tekur undir mat Útlendingastofnunar á því að líta verði á umsókn kæranda um dvalarleyfi sem nýja umsókn en ekki endurnýjun á gildandi dvalarleyfi og því eigi ákvæði 51. gr. við um kæranda.

Í athugasemdum við 51. gr. laga um útlendinga í frumvarpi til laganna segir, um 3. mgr. 51. gr., að í ákvæðinu felist almenn heimild til að undanskilja umsækjendur frá skilyrði 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því og sé ætlunin að þessu sé beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi.

Ljóst er að undantekningarákvæði 1. og 2. mgr. 51. gr. eiga ekki við um aðstæður kæranda og kemur því fyrst og fremst til skoðunar hvort ríkar sanngirnisástæður mæli með því að hann fái að dveljast á Íslandi á meðan Útlendingastofnun hefur umsókn hans um dvalarleyfi til meðferðar. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð, dags. 13. júlí 2017, þar sem fram kemur að móðir kæranda sé ekki ferðfær í náinni framtíð vegna alvarlegs [...]. Þá kemur fram í nýlegu læknisvottorði, dags. 17. ágúst 2017, að móðir kæranda [...]. Að mati [...], læknakandídats, væri óæskilegt að hún væri ein ef eitthvað kæmi upp á eða á meðan uppvinnslu sjúkdóms hennar standi.

Kærandi hefur dvalið hér á landi samfellt síðan 2011. Hann hefur ýmist verið með dvalarleyfi á grundvelli náms eða sérfræðiþekkingar. Hann er skráður í Háskóla Íslands fyrir námsárið 2017-2018 en samkvæmt upplýsingum frá honum hófst námið 28. ágúst sl.

Fyrir liggur mat læknis á því að móðir kæranda er ekki ferðafær. Þá liggur fyrir læknisvottorð þar sem fram kemur að vegna veikinda hennar sé óæskilegt að hún sé ein. Í því ljósi er það mat kærunefndar að ríkar sanngirnisástæður í skilningi 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi í málinu.

Samkvæmt framansögðu er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um dvalarleyfi til efnismeðferðar þótt hann sé á landinu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um dvalarleyfi til efnismeðferðar þótt hann sé á landinu.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to examine the merits of the application of the applicant for residence permit.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                       Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum