Hoppa yfir valmynd
31. mars 2011 Utanríkisráðuneytið

Rýnifundi um matvælaöryggi lokið

Rýnifundi um 12. kafla löggjafar Evrópusambandsins, matvælaöryggi, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var hinn síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Bryndís Kjartansdóttir, formaður samningahóps um EES I málefni. Á fundinum var rætt um framkvæmd reglna hérlendis á sviði matvælaöryggis en 12. kafli er hluti af EES-samningnum og stór hluti gerða Evrópusambandsins á sviðinu eru þegar innleiddar eða verða innleiddar á næstunni.

Nokkur munur er á gildandi reglum hér á landi og innan ESB. Var þessum mun skýrt haldið til haga af fulltrúum Íslands og athyglinni sérstaklega beint að reglum um innflutning lifandi dýra og dýrasjúkdómum, í samræmi við álit utanríkismálanefndar. Einnig var sérstaklega vikið að því að margir þeir sjúkdómar sem herja á búpening erlendis, þekkjast ekki hér á landi sem m.a. helgast af ströngu eftirliti og aðgerðum sem gripið hefur verið til.

Á grundvelli EES samningsins hefur verið samið um sérlausnir sem ástæða er talin til að halda en þær eru m.a.:

Undanþága frá reglum ESB um innflutning lifandi dýra.

Undanþága til að banna innflutning á kjöt- og beinamjöli og afurðum sem innihalda slíkar afurðir.

Undanþága varðandi ræktun á sauðfé sem talið er hafa arfbera fyrir þoli gegn riðuveiki.

Reglugerð um sýnatökur og rannsóknir vegna varnarefnaleifa.

Reglugerð sem veitir heimild til að nota fiskimjöl sem fóður fyrir jórturdýr á Íslandi.

Reglugerð um hámarksgildi tiltekinna mengunarefna í matvælum. Undanþágan felst í heimild til lægra hámarksgildis en ESB fyrir díoxín og díoxín lík PCB efni í olíu úr sjávardýrum.

Þessu til viðbótar var sérstaklega vikið að nauðsyn viðbótartrygginga vegna salmonellu í kjöti og eggjum og því að Ísland geti komið á sértækum ráðstöfunum vegna kampýlóbakter í alifuglum. Þá var vikið að gildandi innflutningsbanni á hráu kjöti, hráum eggjum, ósótthreinsuðum hráum skinnum og húðum, alidýraáburði og rotmassa samkvæmt íslenskum lögum. Markmiðið er að tryggja núverandi stöðu sjúkdómavarna vegna dýra og manna, og er þá ekki síst höfð í huga langvarandi einangrun búfjárstofna.

Sama gildir um bann við innflutningi á plöntum til ræktunar á grænmeti í gróðurhúsum vegna hættu á að nýir skaðvaldar gætu borist með þeim. Jafnframt er í gildi bann við innflutningi á ættkvíslum ákveðinna skógartrjáa en bent var á að tryggja þyrfti áframhaldandi nýtingu á arfgerðum til skógræktar og á gömlum kartöflu- og gulrófuyrkjum sem reynst hafa vel til ræktunar á Íslandi.

Í þeim hluta löggjafarinnar er fjallar um sáðvöru eru heimildir til að innleiða þær ekki að hluta til eða að öllu leyti, eða til frestunar á innleiðingu. Forsendurnar til nýtingar slíkra heimilda væru almennt þær að íslenskt fræ og annað fjölgunarefni þeirra plöntutegunda sem tilskipanirnar ná yfir er alla jafna ekki markaðssett á Íslandi og tegundirnar sjálfar ýmist ekki ræktaðar eða ræktaðar að óverulegu leyti.

Þá var rætt um nauðsyn tímabundins aðlögunarfrests vegna innleiðingar á löggjöf um plöntuheilbrigði, eða í það minnsta frestun á innleiðingu hluta hennar.

Greinargerðir um matvæli og fóður, um dýraheilbrigði og um plöntuheilbrigði

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum