Hoppa yfir valmynd
9. október 2001 Utanríkisráðuneytið

Fundur EES ráðsins í Lúxemborg 09. október 2001

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 092


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat ráðsfund Evrópska efnahagssvæðisins í Lúxemborg í dag.
Í upphafi fundarins áttu sér stað pólitísk skoðanaskipti milli EFTA/EES-ríkjanna og Evrópusambandsins, þar sem fjallað var um afleiðingar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum, evrópsk öryggis- og varnarmál og ástand og horfur í sunnanverðri Afríku. Ráðherrarnir voru einhuga um aðgerðir gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Tóku íslensk stjórnvöld formlega undir yfirlýsingu fundar utanríkisráðherra ESB um þetta efni 8. október s.l. Umræðan um þróun sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB endurspeglaði ofangreinda válega atburði og breyttar aðstæður í kjölfar þeirra. Utanríkisráðherra lagði í því sambandi áherslu á mikilvægi aukins samstarfs ESB og Atlantshafsbandalagsins og aðildarríkja þeirra. Fulltrúi ESB gerði grein fyrir efldu frumkvæði í samskiptum við ríki sunnanverðrar Afríku.
Á ráðsfundinum var fjallað um framkvæmd EES-samningsins, m.a. í ljósi fyrirsjáanlegrar fjölgunar aðildarríkja ESB. Af hálfu EFTA/EES-ríkjanna var ítrekað mikilvægi þess að hefja undirbúning samhliða stækkunar EES í því skyni að tryggja áframhaldandi einsleitni innri markaðarins. Lýstu ráðherrar EFTA/EES-ríkjanna ánægju með yfirlýstan vilja ESB til að kanna leiðir til viðeigandi þátttöku ríkjanna þriggja í svonefndu Lissabon-ferli, sem miðar að því að ESB verði virkasta og samkeppnishæfasta efnahagssvæði heims árið 2010. Fjallað var um þær breytingar sem orðið hafa á ESB síðan EES-samningurinn var gerður og hugsanleg áhrif misræmis á einsleitni innri markaðarins. Af því tilefni var af hálfu EFTA/EES-ríkjanna lýst vilja til að kanna með hvaða hætti væri hægt að aðlaga lagalegan grundvöll samningsins að breyttum aðstæðum. Loks var ESB bent á að frjálsu vöruflæði væri enn ábótavant vegna tolla á sumar tegundir fisks og annarra sjávarafurða frá EFTA/EES-ríkjunum. Það væri ekki í samræmi við viðleitni allra samningsaðila til að tryggja fyrrnefnda einsleitni innri markaðarins.
Fulltrúi formennskuríkis ESB gerði stuttlega grein fyrir aðdraganda fyrirhugaðs leiðtogafundar sambandsins í Laeken í Belgíu, þar sem m.a. verður fjallað um tilhögun undirbúnings næstu ríkjaráðstefnu ESB árið 2004. Utanríkisráðherra lýsti ánægju með að EFTA/EES-ríkjunum gæfist tækifæri til að leggja orð í belg um þessi framtíðaráform aðildarríkja ESB því niðurstaðan myndi hafa bein áhrif á framkvæmd EES-samningsins. Hann sagði að vísbendingar um aukna áherslu ESB á bætta upplýsingamiðlun og lýðræðislega stjórnsýslu væru til þess fallnar að renna styrkari stoðum undir EES-samninginn.
Utanríkisráðherrar EFTA/EES-ríkjanna sátu vinnukvöldverð 8. október s.l. Þar voru m.a. ákveðnar endurráðningar fulltrúa Íslands og Liechtenstein í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA og ráðning nýs fulltrúa Noregs.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 9. október 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum