Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Vegagerðin kannar láglendisleiðir á sunnanverðum Vestfjörðum

Rætt var um vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum í sérstakri umræðu á Alþingi í gær. Minnt var á þau sjónarmið heimamanna að vegur um Gufudalssveit skuli lagður um láglendi og innanríkisráðherra sagði Vegagerðina nú kanna mögulegar leiðir í því sambandi.

Rætt var um leiðaval fyrir síðustu áfanga Vestfjarðavegar í sérstakri umræðu á Alþingi í gær.
Rætt var um leiðaval fyrir síðustu áfanga Vestfjarðavegar í sérstakri umræðu á Alþingi í gær.

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, varaþingmaður og oddviti Tálknafjarðarhrepps, hóf umræðuna og rifjaði upp það sem gerst hefði síðsumars og í haust varðandi næstu skref í fyrirhugaðri vegagerð um Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð. Eyrún sagði menn hafa tekið vel  frumkvæði innanríkisráðherra um samráð með fundum til að fá fram öll sjónarmið er varða leiðaval. Niðurstaða ráðherra um að endurbyggja vegi um Hjallaháls og Ódrjúgsháls hefði hins vegar valdið vonbrigðum innan sveitarfélaganna þriggja, Reykhólahrepps, Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. ,,Ef við höfum val um að leggja ekki vegi yfir fjöll og firnindi og illfæra hálsa hljótum við að velja láglendi,” sagði varaþingmaðurinn og sagði leiðaval um hálsa í ósamræmi við markmið um umferðaröryggi.

Eyrún Ingibjörg sagði alla þurfa að koma að þessu borði til að koma málinu í höfn, til að koma á heilsárssamgöngum við sunnanverða Vestfirði. Þetta væru einu þéttbýlisstaðirnir á landinu sem ekki tengdust vegakerfinu með bundnu slitlagi og heilsársvegi. Tíminn væri dýrmætur og kallaði hún eftir því að tilbúinn verði til útboðs láglendisleið um Gufudalssveit eftir þrjú ár.

Eindreginn vilji heimamanna

Ögmundur Jónasson innanríksráðherra þakkaði varaþingmanninum fyrir að minnastt á samráðsfundina og að þar hefðu í fyrsta sinn verið kallaðir saman allir sem málið snerti. Hann kvaðst benda á að niðurstaða væri ekki komin, tveir vegarkaflar Vestfjarðavegar væru eftir, annars vegar kaflinn Eiði-Þverá, sem vonandi kæmist brátt í útboð. Hinn kaflinn væru  vegabætur í Gufudalssveit. Ráðherra sagði hafa komið fram á samráðsfundunum að brýnt væri að hraða framkvæmdum. Hann hefði þá sett fram tillögu um breytta forgangsröð og kaflinn Eiði-Þverá yrði látinn bíða en núverandi vegir um hálsa yrðu endurbyggðir, það myndi taka skemmstan tíma og væri auk þess að sínu mati vel ásættanlegur kostur með hliðsjón af því hvað Vegagerðinni hefði tekist í glímu sinni við erfiða fjallvegi. Þessu hefðu heimamenn hins vegar hafnað á afgerandi hátt og viljað fá nánari könnun á láglendisvegi. Að því væri nú unnið samkvæmt þessum eindregna vilja heimamanna.

Ráðherra sagði nokkra kosti í stöðunni, meðal annars jarðgöng gegnum Hjallaháls sem Vegagerðin myndi kanna, líka í þveranir fjarða sem væru umdeildar en margir styddu. Kvað hann þær koma til greina og sagði athugun hafna. Ýmir kostir kæmu til greina meðal annars  þverun Þorskafjarðar utarlega og annar kostur væri leiðin frá Reykhólasveit með langri þverun við mynni Þorskafjarðar, Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Komið hefðu fram hugmyndir um sjávarfallavirkjun sem tengdist þeirri þverun en sú lausn væri dýr, kostaði líklega um 13 milljarða króna og því vart á dagskrá í bili. Hann kvaðst hafa óskað eftir því að Vegagerðin skoði þessa láglendiskosti. Hann kvaðst telja leið B, Teigsskóginn, út úr myndinni og líklegt að slíkt mál myndi tapast. Því væru láglendistillögurnar til skoðunar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira