Hoppa yfir valmynd
25. júní 2021 Matvælaráðuneytið

Kristján Þór fylgir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu fyrir næsta fiskveiðiár. Reglugerðin fylgir vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Ráðgjöf stofnunarinnar byggir á því að nýta stofna miðað við hámarksafrakstur að teknu tilliti til vistkerfis- og varúðarnálgunar.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Það er ekkert launungamál að 13% lækkun aflamarks þorks er vonbrigði en ástæðan er meðal annars sú að tveir árgangur innan viðmiðunarstofnsins eru litlir. Við þær aðstæður kemur hins vegar ekki til greina að falla í þá freistni að láta skammtímasjónarmið ráða för og fara gegn hinni vísindalegu ráðgjöf með tilheyrandi óvissu um meðal annars vottanir sem hafa mikla þýðingu fyrir íslenskan sjávarútveg. Gleymum því ekki um leið að viðmiðunarstofn þorsks, og annarra helstu nytjastofna, er sterkur og eru árgangar 2019 og 2020 um og yfir meðaltali. Því er ástæða til bjartsýni til lengri tíma litið. Sú staða er merki upp þann árangur sem náðst hefur í uppbyggingu þorskstofnsins og annarra helstu nytjastofna á undanförnum árum og er bein afleiðing þess að okkur Íslendingum hefur auðnast að stunda sjálfbærar veiðar með því að byggja ákvörðun um leyfilegan heildarafla á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar. Með því tryggjum við hagsmuni íslensks sjávarútvegs og samfélagsins alls til lengri tíma.“

Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er lögð til 13% lækkun aflamarks þorsks fiskveiðiárið 2021/2022, en stofnmatið í ár sýnir að stofnstærðin hefur verið ofmetin á undanförnum árum. Í tillögu um ákvörðun á leyfilegum heildarafla eru 8.000 tonn dregin frá vegna ýsu sem ráðstafað var á fyrra fiskveiðiári. Því lækkar leyfilegur heildarafli í ýsu frá ráðgjöf úr 50.429 tonnum í 41.229 tonn að teknu tilliti til þessarar ráðstöfunar auk þess frádrags sem kemur í hlut erlendra ríkja. Litlar breytingar eru á ráðgjöf ufsa og er heildarafli ákveðinn 77.381 tonn. Viðsnúningur virðist vera í þróun stofnstærðar íslensku sumargotssíldarinnar og hækkar því ráðgjöf Hafró um 104% og er heildarafli 72.239 tonn.

Í meðfylgjandi töflu má sjá ákvörðun um heildaraflamark fyrir einstakar tegundir. Þess ber að geta að aflamark fyrir mikilvæga uppsjávarstofna verður ákveðið síðar á árinu.

 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni
15. Líf á landi
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum