Hoppa yfir valmynd
16. september 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 149/2020

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 149/2020

Miðvikudaginn 16. september 2020

Dánarbú A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. mars 2020, kærði B, f.h. dánarbús A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. desember 2019 um niðurfellingu ofgreiðslukröfu vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

A lést X 2018. Á árinu 2018 fékk A tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2019, var kæranda tilkynnt að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2018 hafi leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 525.255 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2019, sótti kærandi um niðurfellingu á kröfu stofnunarinnar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. desember 2019, var kæranda synjað um niðurfellingu ofgreiðslukröfu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. mars 2020. Með bréfi, dags. 15. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 22. maí 2020, og var hún tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 25. maí 2020. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. desember 2019 um að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu. Kærandi fer fram á niðurfellingu kröfunnar.

Í kæru segir að málavextir séu þeir að A hafi látist þann X 2018. Erfðafjárskýrslunni hafi verið skilað inn í lok X 2019 til Ríkisskattstjóra og hafi erfingjarnir aðeins haft 10 daga eftir það til að borga erfðafjárskatt sem gert hafi verið á tilsettum tíma. Kæranda hafi engin gögn borist um að A hafi fengið ofgreiddar bætur fyrr en búið hafi verið að gera dánarbúið upp. Umboðsmaður kæranda hafi séð um að gera erfðafjárskýrslu með skriflegu leyfi annarra erfingja. Innheimta bótanna hafi verið send á heimili A 22. maí 2019 og hafi ekki skilað sér til umboðsmanns kæranda fyrr í október 2019. Umboðsmaður kæranda hafi hringt í Tryggingastofnun ríkisins sama dag og hún hafi fengið innheimtubréfið og hafi fengið þau svör frá Tryggingastofnun að heimilisfang hennar hafi ekki fundist og því hafi ekki verið unnt að senda bréfið fyrr. Að mati kæranda eigi þessi svör ekki við rök að styðjast þar sem starfsmaður Tryggingastofnunar hafi sagt henni stuttu síðar, þegar hún hafi mætt á staðinn, að þau væru með allar hennar upplýsingar í kerfinu eins og heimilisfang, netfang og símanúmer.

Kærandi bendi á reglugerð nr. 598/2009, ákvæði 11. gr. reglugerðarinnar þar sem segi orðrétt:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Kærandi telji að í málinu sé um að ræða sérstakar aðstæður í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Þær ofgreiddu bætur sem um ræði í málinu hafi verið ofgreiddar bætur til A og hafi kærandi ekki haft hugmynd um að A hafi fengið ofgreiddar bætur fyrr en eftir að búið hafi verið að ganga alveg frá dánarbúi hennar.

Óskað sé eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála afli upplýsinga um það hvort Tryggingastofnun ríkisins hafi haft upplýsingar um umboðsmann kæranda í kerfum sínum þegar innheimtubréfið hafi verið sent ef talin sé þörf á því. Þau mistök að senda ekki bréfið á það heimilisfang sem skráð sé í kerfunum og auðvelt sé að nálgast hafi orðið til þess að þegar bréfið hafi borist hafi verið búið að gera dánarbúið upp og búið að skila erfðafjárskýrslunni.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar á umsókn um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu. Ofgreiðslukrafan sé tilkomin eftir endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2018.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til þess að samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, taki dánarbú við andlát við öllum réttindum og skyldum látins einstaklings nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli þeirra réttinda eða skyldna sem um ræðir. Þar á meðal falli kröfur hins látna á hendur þriðja manni og kröfur þriðja manns á hendur hinum látna. Kærandi sé umboðsmaður dánarbús A. Erfingjar hafi gengið frá einkaskiptum búsins og hafi þeir því tekið á sig sjálfskuldarábyrgð, in solidum, á öllum skuldbindingum sem kunni að hvíla á búinu, sbr. 28. gr. sömu laga. 

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003 varðandi hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laganna. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar, sem sé svohljóðandi:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.”

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins eru málavextir sagðir vera þeir að á árinu 2018 hafi A notið ellilífeyris og tengdra greiðslna frá 1. janúar til 31. júlí. 

Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri á hendur kæranda sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2019 vegna tekjuársins 2018 hafi farið fram, hafi komið í ljós að tekjur A hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi byggst á upplýsingum á skattframtölum bótaþega lögum samkvæmt.

Ahafi verið send tekjuáætlun með bréfi, dags. [17. janúar 2018]. Í tekjuáætluninni hafi verið gert ráð fyrir því að A hefði 4.087.456 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 389.148 kr. í vexti og verðbætur og 2.364 kr. í arð árið 2018. Ekki hafi verið gert ráð fyrir öðrum tekjum hjá A. A hafi ekki gert athugasemdir við tekjuáætlunina og fengið greitt á grundvelli hennar frá 1. janúar til 31. júlí 2018.

A hafi látist þann X 2018. Á því tímabili sem hún hafði fengið greitt fyrir, þ.e. 1. janúar til 31. júlí 2018, hafi verið gert ráð fyrir í tekjuáætlun hennar að hún hefði 2.384.349 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 227.003 kr. í vexti og verðbætur og 1.379 kr. í arð.

Við bótauppgjör ársins 2018 hafi komið í ljós að tekjur A hafi verið hærri en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætluninni fyrir tímabilið 1. janúar til 31. júlí 2018. Tekjur A árið 2018 hafi verið 2.413.598 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 3.560.838 kr. í vexti og verðbætur og 2.540 kr. í arð. 

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2018 hafi verið sú að A hafi fengið greitt á árinu 832.940 kr. en hafi ekki átt að fá neinar greiðslur. A hafi því fengið ofgreitt að fullu í öllum bótaflokkum. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 525.255 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

 

Um forsendur samráðsnefndar Tryggingastofnunar ríkisins segir að við afgreiðslu á beiðni kæranda um niðurfellingu vegna erfiðra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hafi, ásamt fyrirliggjandi gögnum, meðal annars verið skoðað ástæða ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.

Ákvæði 55. gr. almannatryggingalaga fjalli um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slík skuli skýra hana þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Umræddar kröfur hafi orðið til við endurreikninga ársins 2018. Eins og meðfylgjandi gögn beri með sér sé ljóst að ástæða ofgreiðslna hafi verið rangar tekjuáætlanir. Kröfurnar séu réttmætar. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs. Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Bótaþegi beri skýra ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki. Þessi skylda bótaþega eigi ekki bara við þegar tekjuáætlun sé gerð heldur alltaf þegar einstaklingur fái bætur frá Tryggingastofnun.

Samráðsnefnd hafi metið fjárhagsaðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem Tryggingastofnun hafi aðgang að. Við skoðun þeirra hafi það verið mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til að fella niður kröfuna. Einkum hafi verið horft til þess að eignir kæranda hafi verið verulegar og að tekjur A á andlátsári hafi einnig verið verulegar.

Það hafi því verið mat Tryggingastofnunar að fjárhags- og félagslegar aðstæður kæranda hafi ekki verið nægilega sérstakar að þær uppfylltu undanþáguákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Í kæru komi fram tvær ástæður fyrir því að fella ætti niður kröfu í máli þessu. Annars vegar vegna þess að ofgreiddar bætur hafi farið til A heitinnar en ekki til kæranda og hins vegar vegna þess að kæranda hafi borist upplýsingar um kröfuna eftir að búið hafi verið að ljúka skiptum búsins.

Hvað varði fyrra atriðið þá hafi áður komið fram að samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 taki dánarbú við andlát við öllum réttindum og skyldum látins einstaklings nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli þeirra réttinda eða skyldna sem um ræðir. Þar á meðal falli kröfur hins látna á hendur þriðja manni og kröfur þriðja manns á hendur hinum látna. Kærandi sé umboðsmaður dánarbús A. Erfingjar hafi gengið frá einkaskiptum búsins og hafi þeir því tekið á sig sjálfskuldarábyrgð, in solidum, á öllum skuldbindingum sem kunni að hvíla á búinu, sbr. 28. gr. sömu laga.

Tryggingastofnun taki fram að þó að áhrif andláts bótaþega hafi augljóslega veruleg áhrif á eftirlifandi aðstandendur sé það eitt og sér ekki fullnægjandi til þess að fella eigi niður allar kröfur á hendur dánarbúi/erfingjum. Sé rétt að vísa meðal annars til orðalags ákvæðis 9. og 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sem og 55. gr. almannatryggingalaga, en í þeim ákvæðum sé alveg skýrt að gert sé ráð fyrir því að ofgreiddar bætur séu innheimtar hjá dánarbúum.

Hvað varði síðara atriðið sé rétt að taka það fram að eins og fram komi í lögum um skipti dánarbúa sé alveg ljóst að þegar skiptum ljúki með einkaskiptum þá beri erfingjar ábyrgð á öllum þeim skuldum sem kunni að hvíla á dánarbúinu hvort sem þeim hafi verið kunnugt um þá skuld eða ekki. Það sé á ábyrgð erfingja að kynna sér mögulega skuldastöðu búsins áður en skiptum ljúki.

Hvað varði bréfasendingar Tryggingastofnunar þá hafi þann 13. ágúst 2018, eða rúmum mánuði áður en leyfi til einkaskipta hafi verið veitt, verið sent bréf á heimilisfang kæranda þar sem fram hafi komið ýmsar almennar upplýsingar í tengslum við andlát bótaþega. Sé þar meðal annars tekið fram að Tryggingastofnun myndi endurreikna tekjutengd réttindi þegar framtal 2019 lægi fyrir. Hafi aðstandendum verið bent á að óska eftir bráðabirgðauppgjöri til þess að fá raunhæfa mynd af endanlegri niðurstöðu. Slíkt erindi hafi ekki borist. Þann 22. maí 2019 hafi svo endanlegt uppgjör verið sent á sama heimilisfang og fyrra bréf.

Þann 14. júní 2020 hafi Tryggingastofnun fengið yfirlit yfir framvindu skipta og frá þeirri dagsetningu hafi öll bréf vegna hinnar látnu verið send á umboðsmann kæranda, þar á meðal ítrekun á innheimtu. Fyrir þann tíma hafi Tryggingastofnun engar upplýsingar haft um hverjir erfingjar hinnar látnu voru.

Að lokum vilji stofnunin taka það fram að í kjölfar dóms Landsréttar í  máli nr. 466/2018 hafi Tryggingastofnun leiðrétt réttindi hinnar látnu vegna janúar og febrúar 2017. Inneigninni ásamt vöxtum hafi verið ráðstafað inn á fyrirliggjandi skuld og hafi skuldin því lækkað úr 525.255 kr. í 229.977 kr.

Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins en telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni um synjun á ósk kæranda um niðurfellingarbeiðni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta ársins 2018.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt. 

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um tengingu fjármagnstekna við bætur almannatrygginga:

„Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 17.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar er meginreglan sú að Tryggingastofnun beri að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar.

Undantekningu frá framangreindri meginreglu er að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Tryggingastofnun ríkisins hefur hafnað því að heimild tilvitnaðs reglugerðarákvæðis eigi við í tilviki kæranda.

A var ellilífeyrisþegi árin 2016-2018 og fékk greiddar tekjutengdar bætur. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2018 með bréfi, dags. 22. maí 2019. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 525.255 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til vanáætlaðra tekna í tekjuætlun A vegna ársins 2018.

Kærandi sótti um niðurfellingu kröfunnar með umsókn, dags. 12. nóvember 2019, en Tryggingastofnun synjaði kæranda með bréfi, dags. 16. desember 2019. Í bréfinu segir að krafan sé réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðarinnar um alveg sérstakar aðstæður séu ekki talin vera fyrir hendi.

Í kæru er meðal annars byggt á því að kæranda hafi ekki verið kunnugt um að A hafi fengið ofgreiddar bætur fyrr en búið var að gera dánarbúið upp. Innheimta bótanna hafi verið send á heimili A þann 22. maí 2019 og hafi ekki skilað sér til umboðsmanns kæranda fyrr en í október 2019. Erfðafjárskýrslu vegna dánarbús A hafi verið skilað inn í lok ágúst 2019 til Ríkisskattstjóra og því hafi skiptum dánarbúsins verið lokið þegar erfingjum varð kunnugt um að A hafði fengið ofgreiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Byggt er á því að um sérstakar aðstæður í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé að ræða. Þær ofgreiddu bætur sem um ræði séu ofgreiddar bætur til A og umboðsmaður dánarbúsins og aðrir erfingjar hafi ekki haft vitneskju um þær ofgreiddu bætur fyrr en skiptum dánarbúsins var lokið. Upplýsingar hafi ekki verið sendar á heimili umboðsmanns dánarbúsins, þrátt fyrir að allar upplýsingar hafi legið fyrir hjá Tryggingastofnun.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess að ellilífeyrir og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Samkvæmt gögnum málsins var A upplýst um þessa skyldu sína. Henni bar því að tilkynna Tryggingastofnun um fjármagnstekjurnar.

Enn fremur lítur nefndin til þess að í 1. mgr. 2. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 segir:

„Þegar maður er látinn tekur dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna.“

Í 2. mgr. sömu greinar segir:

„Dánarbú tekur við öllum fjárhagslegum skyldum sem hvíldu á þeim látna þegar hann lést, nema réttarreglur eða löggerningar kveði á um brottfall þeirra eða það leiði af eðli þeirra. […]“

Fái erfingjar leyfi til einkaskipta, sbr. 28. gr. laganna, taka þeir sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku, sbr. 5. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Gildir það jafnt um þær skuldir sem erfingjum er kunnugt um sem og þær skuldir sem erfingjum er ekki kunnugt um að hvíldu á hinum látna og koma síðar fram, sbr. 97. gr. laganna.

Fyrir liggur að erfingjar A fengu leyfi til einkaskipta. Með því að gangast í sjálfskuldarábyrgð ábyrgðust  erfingjarnir að afla sjálfir upplýsinga um eigna- og skuldastöðu dánarbúsins. Líkt og fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar var erfingjum gert kunnugt um möguleika á að kalla eftir bráðabirgðaútreikningi með bréfi í kjölfar andláts A, dags. 13. ágúst 2018, áður en leyfi til einkaskipta var veitt hjá sýslumanni. Beiðni um slíkan bráðabirgðaútreikning barst ekki. Endanlegt uppgjör Tryggingastofnunar var sent á heimilisfang hinnar látnu þann 22. maí 2019, en líkt og að framan greinir bera erfingjar sem fengið hafa leyfi til einkaskipta ábyrgð á skuldbindingum dánarbús sem kunna að stofnast eftir að einkaskiptum er lokið.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að skilyrðið um góða trú í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé ekki uppfyllt í máli þessu.

Kemur því næst til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður gefi tilefni til niðurfellingar, en samkvæmt 3. málsl. 11. gr. reglugerðarinnar gildir sama um dánarbú eftir því sem við á.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að við mat á því hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður teljist vera sérstakar aðstæður í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2008 beri að líta heildstætt á aðstæður. Af gögnum málsins verður ráðið að eignir dánarbúsins séu umtalsverðar og skuldir óverulegar. Úrskurðarnefndin lítur til þess að samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta, dags. 16. desember 2019, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja dánarbúi A, um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2018, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum