Hoppa yfir valmynd
10. maí 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 166/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. maí 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 166/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15070014

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 27. júlí 2015, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags 21. júlí 2015, um að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002, um útlendinga.

Af greinargerð kæranda má ætla að hann krefjist þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna eða vernd, sbr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 4. apríl 2014 hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hann kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 24. apríl 2015 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags 21. júlí s.á., synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda um hæli ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 27. júlí 2015.

Kærandi kom þann 19. apríl 2016 fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru túlkur og talsmaður kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hjá Útlendingastofnun byggði kærandi kröfu sína um hæli hér á landi á því að hann hafi ríka þörf fyrir vernd í ljósi þess að hann hafi sætt ofsóknum í heimalandi sínu á grundvelli trúarbragða [...]. Hvorki lögregla né önnur yfirvöld þar í landi hafi áhuga eða möguleika á að veita honum þá vernd sem hann þurfi. Kærandi kvaðst einnig hafa ríka þörf fyrir vernd þar sem hann tilheyrði minnihlutahópi í heimaríki

sínu og hans muni bíða erfiðar félagslegar aðstæður þar og hann muni eiga á hættu að sæta ómannúðlegri, illri eða vanvirðandi meðferð eða hreinlega verða líflátinn verði honum gert að snúa til baka til heimaríkis.

Í ákvörðun sinni fjallar Útlendingastofnun um trúarbrögð í [...]. Þar kemur fram að [...]sé [...]í landinu samkvæmt stjórnarskrá landsins en stjórnarskráin verndi einnig rétt þegna landsins til þess að iðka hvaða trú sem þeir kjósi sér. [...]. Trúfélög væru skyldug til að skrá sig og ýmis [...] trúfélög væru skráð í landinu og [...] væri að finna í helstu borgum landsins. Fram kemur að það sé ólöglegt og refsivert að hindra annan mann eða menn í að iðka trú sína. Þá hafi þeim fjölgað sem segi sig úr trúfélögum og geti lifað lífi sínu afskiptalausir án áreitis af hálfu lögreglu og samfélagsins. Einstaklingar sem [...] verði ekki fyrir aðkasti vegna þess svo fremi að þeir boði ekki sjálfir trúskipti eða hvetji aðra einstaklinga til að [...].

Þá kemur fram að samkvæmt stjórnarskrá [...] skuli dómstólar vera sjálfstæðir og óháðir en sjálfstæði þeirra sé veikt í ljósi spillingar og utanaðkomandi þrýstings á dómara. Löggjöf í [...] taki á heiðursglæpum á sama hátt og öðrum glæpum og ekki sé gefin eftirgjöf vegna glæpa sem framdir séu á grundvelli heiðurs. Þá séu slíkir glæpir sjaldgæfir og ekki samfélagslega viðurkenndir. Gögn bendi ekki til að einstaklingar verði fyrir kerfisbundnum ofsóknum, ofbeldi eða mismunun vegna trúar sinnar í [...].

Frásögn kæranda var talin trúverðug og í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar um heimaland hans. Var frásögn hans því lögð til grundvallar í málinu.

Kærandi hafði ekki borið því við að hann teldi sig eiga á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimalandi sínu og taldi Útlendingastofnun því ljóst að hann ætti möguleika á að leita aðstoðar þeirra teldi hann sig eiga á hættu að verða fyrir ofbeldi eða öðru áreiti vegna [...]. Þá taldi stofnunin að sú árás sem kærandi hafði orðið fyrir af hálfu föður síns og bróður yrði ekki metin sem slík að hún teldist til ofsókna gegn honum á grundvelli trúar kæranda. Þá ætti kærandi möguleika á að setjast að á öðrum svæðum innan heimaríkis hans þar sem hann yrði öruggur. Synjaði því stofnunin kæranda um hæli hér á landi sbr. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga og taldi aðstæður hans ekki falla undir 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 45. gr. sömu laga.

Útlendingastofnun taldi ennfremur að ekki yrði talið að kærandi væri í þeirri aðstöðu í [...]að hann eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Því þótti ekki ástæða til að veita kæranda dvalarleyfi með vísan til mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla hans við Ísland skv. 12. gr. f laga um útlendinga.

Að lokum var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Með tilliti til atvika málsins ákvað stofnunin að kæra myndi ekki fresta framkvæmd ákvörðunar með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Af greinargerð má ráða að krafa kæranda um ógildingu ákvörðunar Útlendingastofnunar sé annars vegar byggð á því að stofnunin hafi við töku ákvörðunarinnar látið hjá líða að kanna með viðhlítandi hætti þær aðstæður sem einstaklingar í [...]búi við hafi þeir [...], sbr. ákvæði 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, 45. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Matið hafi ekki farið fram í samræmi við kröfur sem lagðar séu á íslensk stjórnvöld og Útlendingastofnun hafi þannig brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og 50. gr. laga um útlendinga. Einnig hafi Útlendingastofnun ekki fylgt ákvæðum laga um útlendinga, sbr. m.a.

1. mgr. 46. gr., 2. mgr. 44. gr. og 1. og 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga. Því brjóti ákvörðun Útlendingastofnunar bæði gegn lögum um útlendinga og stjórnsýslulögum.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur í borginni [...]en hafi síðast dvalið í borginni [...]. Að hann sé [...]. Kærandi sé giftur og eigi einn dreng. Faðir kæranda og [...] systkini hans búi enn í [...]en móðir hans sé látin. Kærandi kveðst hafa flúið [...] vegna þess að hann hafi [...]. Kærandi hafi sætt ítrekuðum hótunum um að verða drepinn vegna þessa og tilheyri ótvírætt minnihlutahópi í sínu heimaríki. Kærandi kveðst [...]. Kærandi kveðst óttast að verða drepinn eða verða fyrir ofbeldi, ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til [...].

Þá kemur fram að kærandi sé [...]og [...]. Þau megi rekja til þess ósættis sem hafi ríkt á milli föður hans og móður og þess ofbeldis sem hann hafi mátt þola af hendi föður síns. Faðir kæranda sé [...]. Hann hafi ítrekað beitt móður kæranda ofbeldi og beri jafnframt ábyrgð á andláti hennar. Þá hafi faðir kæranda beitt kæranda og systkini hans alvarlegu ofbeldi. Í kjölfar þess að [...] hafi faðir hans og bróðir haft ítrekað í hótunum við hann og meðal annars ógnað honum með hníf. Kærandi kveðst hafa fengið þær fréttir frá eiginkonu sinni að faðir hans og bróðir séu að leita að kæranda og ætli sér að drepa hann.

Kærandi kveður að einstaklingar sem [...] þar sem að þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins kveði á um trúfrelsi þá séu það aðeins orðin tóm. Stjórnvöld virði ekki þennan rétt þegna sinna og beiti sér [...]. Þessum einstaklingum sé hótað af [...]. Þá verði þessir einstaklingar fyrir áreiti frá yfirvöldum og séu oftar en ekki handteknir og fangelsaðir af tilefnislausu. Í þessu ljósi sé kærandi þess fullviss að hann muni ekki fá vernd frá yfirvöldum í [...] vegna ofsókna og ofbeldis af hálfu [...] sem leiti uppi einstaklinga sem hafi [...] og beiti þá hótunum, ofbeldi og lífláti. Kærandi óttist að vegna þess að faðir hans hafi [...]. Vegna þess að hann hafi [...] séu litlar líkur á að hann fái réttláta málsmeðferð hjá dómstólum. Það sem hann óttist þó mest sé að faðir hans og bróðir muni drepa hann verði honum gert að snúa til baka til [...].

Í greinargerð kemur fram að skv. skýrslum alþjóðlegra mannréttindasamtaka sé lögreglan í [...] grunuð um að standa að baki brottnámi á fólki, pyntingum og ástæðulausum frelsissviptingum. Lögreglumenn séu þekktir fyrir að komast hjá reglum sem banni pyntingar m.a. með því að fangelsa menn á laun og neita þeim um aðgang að lögmanni. Fjölmargar ásakanir hafi einnig komið fram af hálfu alþjóðlegra mannréttindasamtaka um spillingu í dómskerfinu og takmarkanir á tjáningarfrelsi bæði fjölmiðla og einstaklinga. Þessar upplýsingar styðji við frásagnir kæranda um ástæðuríkan ótta hans við föður sinn, öfgahópa og yfirvöld í [...] vegna þess að hann hafi [...]. Líkur séu á að [...] verði hann sendur til baka til heimaríkisins. Því ættu íslensk stjórnvöld að veita honum hæli á Íslandi svo trúfrelsi hans og réttur til almennra mannréttinda sé virtur. Þá eigi kærandi einnig rétt á að njóta viðbótarverndar hér á landi bæði vegna hins almenna hættulega ástands í [...] og vegna hinna sérstöku aðstæðna hans.

Einnig kemur fram að kærandi tilheyri minnihlutahópi í heimaríki sínu og að hans bíði afar erfiðar félagslegar aðstæður þar líkt og komið hafi fram og því ætti að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Í greinargerð er ítarleg umfjöllun um reglu 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga um bann við endursendingu (e. non refoulement). Fjallað er um dóma Mannréttindadómstóls Evrópu, m.a. mál nr. 54810/00 Jalloh gegn Þýskalandi þar sem dómstóllinn segi að líta verði til þess hvaða áhrif endursending muni hafa á líkamlega og andlega heilsu kæranda þegar metið sé hvort endursendingarríki hafi brotið gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af þeirri umfjöllun sé ljóst að aðstæður í [...]brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmálans og kærandi muni ekki lifa mannsæmandi lífi

þar í landi eða njóta þeirra réttinda sem kveðið sé á um í alþjóðlegum sáttmálum s.s. trúfrelsi. Ljóst sé af öllu ofangreindu að kærandi muni eiga raunverulega á hættu að verða fyrir illri og ómannúðlegri meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans og 68. gr. stjórnarskrár Íslands ef honum verði vísað úr landi.

Kærandi gagnrýnir ákvörðun Útlendingastofnunar í máli sínu. Þar komi fram ýmsar staðhæfingar sem ekki samræmist upplýsingum sem liggi fyrir um [...]. Í fyrsta lagi séu það orðin tóm að þegnar [...]njóti trúfrelsis og þá sérstaklega þeir [...]. Í öðru lagi þá komi fram að einstaklingar sem líkt og kærandi [...] séu beittir hótunum, þvingunum, ofbeldi og í sumum tilfellum teknir af lífi af öfgahópum eða sinni eigin fjölskyldu. Í þriðja lagi þá komi fram í gögnum að spilling viðgangist í dómskerfi [...]og að einstaklingar geti ekki treyst því að yfirvöld virði rétt þeirra. Samfélagið telji jafnframt að heimilt sé að beita þá sem [...], ofbeldi eða lífláti og slík hegðun sé ekki refsiverð þó kveðið sé á um það í landslögum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hann framvísað kennivottorð og ökuskírteini gefið út af [...]yfirvöldum. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...]ríkisborgari.

Landaupplýsingar

[...]

Kærunefnd útlendingamála hefur m.a. skoðað eftirfarandi skýrslur: [...]

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að mikil spilling fyrirfinnist í allri stjórnsýslu landsins. Þá sé virðingarleysi gagnvart landslögum mikið hjá öryggissveitum landsins. Réttarkerfið eigi að vera sjálfstætt en í málum er snerti öryggi ríkisins eða stjórnarfar þess eða önnur pólitísk mál hafi stjórnvöld óeðlileg áhrif á niðurstöðu mála. Í landinu hafi embætti umboðsmanns [...] m.a. sinnt sáttameðferð í einkamálum og hafi sinnt rannsóknum vegna kvartana sem beint hafi verið til hans um brot á grundvallarréttindum borgaranna. Þá séu heiðursglæpir afar sjaldgæfir og heiðursmorð nánast óþekkt í landinu og ekki viðurkennd af samfélaginu. Löggjöf landsins leyfi engar tilslakanir séu ofbeldisbrot framin vegna heiðurs fjölskyldunnar.

Einnig kemur fram að þrátt fyrir að trúfrelsi sé tryggt í stjórnarskrá landsins þá [...]. Því séu brot [...]litin alvarlegum augum og þeir sem [...]eigi á hættu fordæmingu af hálfu þeirra eigin fjölskyldu og samfélagsins alls. Þekkt sé að lögregla grípi stundum til aðgerða gegn [...]. Þá hafi einstaklingar sem [...]sætt handahófskenndum handtökum og verið yfirheyrðir af [...]öryggisþjónustunni [...]. Einnig kemur fram að orðið hafi ákveðinn uppgangur [...]á síðustu árum og því aukin hætta á að einstaklingum sem [...]stafi hætta frá slíkum [...].

Ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Kærandi kveðst vera í lífshættu í heimalandi vegna þess að hann [...]og faðir hans og bróðir hafi haft í hótunum við hann vegna þess. Þá stafi honum ógn af [...].

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli

heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).

Kærandi kveðst óttast að faðir hans og bróðir vinni honum mein. Þeir hafi ógnað honum með hnífi og haft í hótunum við hann vegna þess að kærandi [...]. Þá hafi [...]. Kærunefnd telur frásögn kæranda af [...]og þeim útistöðum sem hann hafi átt í við föður sinn trúverðuga í öllum megindráttum.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig ofsóknar af hálfu [...]stjórnvalda. Skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur skoðað benda ekki til þess stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd gegn ofsóknum, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Í því sambandi er bent á að skv. refsilöggjöf í [...] skal hver sá sem, með líkamlegu ofbeldi eða hótunum, kemur í veg fyrir eða hindrar annan mann eða menn í því að iðka trú sína, sæta fangelsisrefsingu í allt að þrjú ár auk fésekta. Þá er trúfrelsi tryggt í landslögum og stjórnvöld virtu þann rétt þegna sinna að mestu og gögn bentu ekki til þess að einstaklingar sem [...] yrðu fyrir ofbeldi eða væru myrtir á grundvelli þess, hvorki af hálfu stjórnvalda eða annarra borgara. Ferðafrelsi er ennfremur tryggt í stjórnarskrá landsins og stjórnvöld virða almennt þann rétt. [...]. Því er það mögulegt fyrir kæranda að flytja sig til innanlands telji hann þess þörf.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu réttarstöðu flóttamanns.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum teljist einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um [...] telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 45 gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í athugasemdum við 12. gr. f laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 115/2010, greinir að fara skuli fram heildarmat á öllum þáttum málsins áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er veitt.

Í 4. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga er kveðið á um að unnt sé að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða vegna sérstakra tengsla við landið ef útlendingur hefur dvalið hér á landi í tvö ár vegna málsmeðferðar stjórnvalda, og sérstakar ástæður mæla ekki gegn því. Viðkomandi þarf þó að uppfylla skilyrði a-e liðar 1. mgr. 12. gr. g.

Ljóst er að kærandi hefur dvalið hér á landi frá 4. apríl 2014, eða í rúmlega tvö ár. Kærandi lagði fram hælisumsókn við komuna til landsins og hefur mál hans verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum

síðan. Tafir á málsmeðferð verða ekki raktar til atvika er varða kæranda.

Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi skilyrði a-e-liðar 1. mgr. 12. gr. g laga um útlendinga. Ennfremur telur kærunefndin að engar sérstakar ástæður mæli gegn því að veita honum dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. mgr. 12. gr. f. Er það því niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli 4. mgr. 12. gr. f útlendingalaga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest hvað varðar umsókn kæranda um hæli hér á landi. Hins vegar telur kærunefndin að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 1. og 4. mgr. 12. gr. f útlendingalaga.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar, er staðfest hvað varðar umsókn kæranda um hæli. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 4. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed with regard to his application for asylum. The Directorate of Immigration is instructed to issue the applicant a residence permit based on Article 12 f, paragraph 4, of the Act on Foreigners no. 96/2002.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum