Hoppa yfir valmynd
5. október 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 546/2017 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 5. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 546/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17090023

 

Beiðni […] og barns hans um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 9. júní 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2017, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), og barns hans […], fd. […], um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda þau til Þýskalands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. júní 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 16. júní 2017. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 12. júlí 2017.

Þann 14. ágúst 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Með úrskurði kærunefndar, dags. 29. ágúst 2017, var fallist á kröfu kæranda um endurupptöku á máli hans og ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest á ný. Niðurstaða kærunefndar var tilkynnt kæranda þann 4. september 2017.

Þann 15. september 2017 óskaði kærandi að nýju eftir endurupptöku málsins. Með beiðni sinni lagði kærandi fram gögn varðandi sálfræðimeðferð barns hans og líkamlega heilsu kæranda. Viðbótargreinargerðir bárust frá kæranda 21. og 29. september 2017.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að ný gögn hafi orðið til um veikindi barns kæranda og þá meðferð sem það sé í hjá sálfræðingi frá því að nefndin úrskurðaði síðast í málinu. Kærandi telji einnig ljóst að hann og barn hans hafi myndað sérstök tengsl við Ísland á meðan dvöl þeirra hér á landi hafi staðið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá sé kærandi enn undir eftirliti lækna hér á landi og lokamat á heilsufarsástandi hans liggi ekki enn fyrir. Jafnframt gerir kærandi athugasemdir við meðferð máls hans og barns hans þar sem brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr., jafnræðisreglu 11. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Enn fremur vísar kærandi til barnalaga nr. 76/2003 og laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Í viðbótargreinargerð kæranda, dags. 29. september 2017, er á því byggt að kærandi og barn hans uppfylli skilyrði nýsamþykktra laga um útlendinga nr. 81/2017 og því beri að taka umsókn þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að hann og dóttir hans uppfylli skilyrði nýsamþykktra laga nr. 81/2017 um lög um breytingu á lögum um útlendinga.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki, sem taki þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hafi gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð sé fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. 

Þann 29 september 2017 tóku gildi lög nr. 81/2017 sem bættu tveimur ákvæðum til bráðabirgða við lög um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði I til bráðabirgða segir að þrátt fyrir 2. máls. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli miða við 9 mánuði í stað 12 mánaða ef um barn sé að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd hafi fyrst borist íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið.

Í ákvæði I til bráðabirgða kemur jafnframt fram að umsækjandi sem öðlast rétt samkvæmt ákvæði þessu geti innan fjórtán daga frá gildistöku laga þessara farið fram á endurupptöku á úrskurði kærunefndar útlendingamála um að umsókn skuli ekki tekin til efnismeðferðar. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna segir að með ákvæðinu sé börnum, sem þegar hefur verið synjað um efnismeðferð umsókna sinna með úrskurði kærunefndar útlendingamála, tryggður réttur til endurupptöku á málum sínum. Að mati kærunefndar leiðir af ákvæðinu að umræddar lagabreytingarnar geti verið sjálfstæður grundvöllur endurupptöku í þeim tilvikum þegar umsækjandi hefur ekki þegar yfirgefið landið og öðlast rétt samkvæmt ákvæðinu.

Kærandi og barn hans lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 28. desember 2016 og eru þau enn hér á landi. Kærandi og barn hans hafa því verið hér á landi í rúmlega 9 mánuði og hafa ekki yfirgefið landið. Kærunefnd hefur farið yfir meðferð málsins fyrir stjórnvöldum og verður kærandi og barn hans ekki talið bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknarinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016, sbr. ákvæði I til bráðabirgða við lögin, í máli barns kæranda eru því uppfyllt.

Beiðni um endurupptöku á grundvelli laga nr. 81/2017 var sett fram í viðbótargreinargerð til kærunefndar 29. september 2017. Lögin voru birt í Stjórnartíðindum þann sama dag. Því er ljóst að beiðni um endurupptöku barst kærunefnd innan 14 daga frá gildistöku laganna. Samkvæmt framansögðu öðlast barn kæranda rétt samkvæmt ákvæðinu. Skilyrði endurupptöku á máli barns kæranda eru því fyrir hendi.

Með vísan til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verður mál kæranda jafnframt endurupptekið.

Í ljósi framangreinds er það því niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál kæranda og barns hans. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál þeirra til efnismeðferðar.


 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kæranda og barns hans um endurupptöku á máli þeirra.

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barns hans til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s and his child’s request for re-examination of the case is granted.

The Directorate of Immigration shall examine the merits of the applicant’s and his child’s application for international protection in Iceland.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                        Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum