Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2012 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að reglugerð um flugvirkt til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um flugvirkt. Flugvirkt tekur til samhæfingar opinberra aðila og annarra sem koma að afgreiðslu eða þjónustu við loftför, farþega, farangur og farm til þess að loftflutningar geti gengið snurðulaust fyrir sig. Umsagnarfrestur er til og með 3. september nk. og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected]

Reglugerðardrögin eru hluti af innleiðingu á efni viðauka 9 við Chicago-sáttmálann en hann fjallar um flugvirkt (e. facilitation). Ýmis ákvæði viðaukans hafa nú þegar verið innleidd og er að finna á víð og dreif í löggjöfinni, reglugerðum eða afleiddum reglum en með reglugerðardrögum þessum er innleitt það sem eftir stendur af efni hans.

Á síðastliðnu þingi samþykkti Alþingi breytingar á loftferðalögunum nr. 60/1998 (breytingalög nr. 50/2012) og var ákvæði um flugvirkt bætt inn. Þar er mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja reglugerð um flugvirkt og gerð flugvirktaráætlunar. Einnig er þar mælt fyrir um skipun flugvirktarráðs en hlutverk þess er að vera samráðsvettvangur opinberra aðila og annarra um framkvæmd, samvinnu, samhæfingu og áætlanagerð á sviði flugvirktar. Ráðið skal standa að gerð tillagna um breytingar á reglum eða löggjöf sem miðar að aukinni samhæfingu og skilvirkni við framkvæmd flugvirktar eins og tilefni er til, sem og fást við önnur verkefni sem ráðherra felur því.

Reglugerðardrögin byggja á og útfæra nánar hið nýja lagaákvæði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira