Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 609/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 25. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 609/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100028

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 12. október 2021 kærði maður sem kveðst heita […], vera fæddur […] og vera frá Aserbaísjan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. september 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Önnur varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd vegna ríkisfangsleysis með vísan til 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga. Þriðja varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Fjórða varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti upphaflega um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 15. september 2017. Útlendingastofnun ákvað hinn 22. janúar 2018 að taka umsókn hans ekki til efnismeðferðar hér á landi og að hann skyldi endursendur til Belgíu. Var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 131/2018 hinn 20. mars 2018. Kærandi sótti í annað sinn um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 7. ágúst 2018. Kærunefnd staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. desember 2018, um að taka umsókn hans ekki til efnismeðferðar hér á landi og að hann skyldi endursendur að nýju til Belgíu með úrskurði nefndarinnar nr. 59/2019, dags. 12. febrúar 2019.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi í þriðja sinn hinn 18. september 2019. Með úrskurði nr. 100/2020, dags. 22. apríl 2020, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. nóvember 2019, um að taka umsókn kæranda ekki til efnismeðferðar hér á landi og að hann skyldi endursendur til Belgíu. Hinn 28. apríl 2020 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar sem var synjað af kærunefnd hinn 6. maí 2020. Hinn 15. október 2020 féllst kærunefnd á beiðni kæranda um endurupptöku, dags. 22. september 2020, með vísan til þess að meira en 12 mánuðir væru liðnir frá því að hann sótti síðast um alþjóðlega vernd hér á landi og að tafir á málinu yrðu ekki raktar til hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda var felld úr gildi og lagt var fyrir stofnunina að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun að nýju hinn 30. nóvember 2020 og 8. apríl 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 20. apríl 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun birt fyrir kæranda og talsmanni hans hinn sama dag og kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 7. maí 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 21. maí 2021 ásamt fylgigögnum. Með úrskurði, dags. 15. júlí 2021, felldi kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð í máli kæranda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Lagt var fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Með ákvörðun, dags. 22. september 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun birt fyrir kæranda og talsmanni hans hinn 28. september 2021 og kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 12. október 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 26. október 2021.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu þar sem hann hafi neitað að sinna herkvaðningu árið 1999 og vegna stríðsástands þar í landi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar, dags. 16. desember 2020, hvað varðar málsástæður, upplýsingar um almennt ástand í Aserbaísjan og lagarök fyrir kröfum sínum.

Í greinargerð eru gerðar ýmsar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Athugasemdirnar lúta einkum að því að frásögn kæranda af herkvaðningu í heimaríki þegar hann hafi verið 18 ára að aldri hafi ekki verið talin trúverðug og því ekki lögð til grundvallar í málinu. Kærandi telur, m.a. með vísan til framlagðra gagna og stöðugs framburðar síns, að ekkert hafi verið ótrúverðugt við þann hluta frásagnar sinnar. Þá mótmælir kærandi þeirri framsetningu Útlendingastofnunar að hann hafi vísvitandi skýrt ranglega frá í viðtali hjá belgískum stjórnvöldum. Kærandi fær ekki séð hvers vegna ætti að gera þá kröfu til hans að hann hafi yfir ríkri þekkingu að ráða varðandi hvernig herþjónustu sé háttað í Aserbaísjan og hvaða viðurlög liggi við því að koma sér undan herkvaðningu. Kærandi telur ósanngjarnt að trúverðugleiki hans skuli dreginn í efa vegna þess að frásögn hans af því hver refsiramminn sé fyrir að koma sér undan herkvaðningu sé ekki í samræmi við landaupplýsingar. Ótti kæranda sé ástæðuríkur eftir sem áður og sé það ekki lengd refsingar sem hann óttist heldur aðstæður í aserskum fangelsum.

Kærandi mótmælir einnig mati Útlendingastofnunar þess efnis að hann hafi ekki lagt fram neitt sem væri til þess fallið að sanna á honum deili. Hann hafi lagt fram ýmis gögn sem styðji við auðkenni hans, þ.m.t. frumrit fæðingarvottorðs, sem hafi verið metið ófalsað af skilríkjarannsóknardeild lögreglu. Talsmaður kæranda hafi ekki fengið veður af rannsókn lögreglu fyrr en við lestur hinnar kærðu ákvörðunar og sé því um að ræða skýrt brot á 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki fært rök fyrir því af hverju ófalsað fæðingarvottorð nægi ekki til þess að ganga úr skugga um að ekki sé vafi á því hver kærandi sé. Þrátt fyrir að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að draga í efa að kærandi sé sá sem hann segist vera hafi Útlendingastofnun gert framlagningu vegabréfs að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga án lagalegrar stoðar. Kærandi telur að framlagning vegabréfs sé ekki forsenda fyrir veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli og vísar í því sambandi m.a. til úrskurðar kærunefndar nr. 105/2020 sem hann telur styðja mál sitt.

Kærandi byggir á því, með vísan til ótta hans við herþjónustu og að sæta óhóflegri refsingu fyrir að koma sér undan herkvaðningu, að hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi skv. skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Trúverðugt sé að hann hafi verið kvaddur í herinn þegar hann varð 18 ára, enda kveði lög í Aserbaísjan á um herskyldu á þeim aldri. Ekki sé gert ráð fyrir þeim möguleika að hægt sé að sinna annars konar samfélagslegri þjónustu í stað herþjónustu og enn þann dag í dag séu ákveðnir hópar ofsóttir þrátt fyrir að trúarsannfæring þeirra banni þeim að taka upp vopn. Hætta sé á frekari átökum í Nagornó-Karabak héraði í Aserbaísjan og telji kærandi því að ótti hans við að þurfa að taka þátt í átökum sé ástæðuríkur. Þá séu fjölmargar heimildir um refsingar þeirra sem hafi synjað því að gegna herþjónustu í Aserbaísjan. Kærandi telur, með vísan til framburðar síns og landaupplýsinga, að raunveruleg hætta sé á því að hans bíði óhófleg fangelsisrefsing í heimaríki fyrir að hafa komið sér undan herkvaðningu. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til ítarlegrar umfjöllunar í framangreindri greinargerð til Útlendingastofnunar um bágbornar aðstæður í aserskum fangelsum. Með vísan til þeirrar umfjöllunar telur kærandi að hann eigi á hættu ómannúðlega og vanvirðandi meðferð eða refsingu í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu málsins er sú krafa gerð til þrautavara að kæranda verði veitt alþjóðlega vernd vegna ríkisfangsleysis með vísan til 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur sig uppfylla skilyrði ákvæðisins, enda líti ekkert ríki á hann sem ríkisborgara samkvæmt landslögum. Hann hafi fæðst í Sovétríkjunum og aldrei fengið ríkisfang í Aserbaísjan.

Þriðja varakrafa kæranda er að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Aðstæður kæranda í heimaríki séu erfiðar og afar sérstakar. Hann hafi verið á flótta í yfir 20 ár og fjölskylda hans hafi flutt frá Aserbaísjan. Varðandi mat á heilbrigðisástæðum telur kærandi nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld taki tillit til þess fordæmalausa ástands sem Covid-19 veldur nú í heiminum.

Varðandi kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, mótmælir kærandi því að hann hafi engin gögn lagt fram sem staðfest geta auðkenni hans. Í máli hans liggi fyrir mikið magn af málsskjölum frá fyrri málsmeðferðum, bæði hér á landi og í öðrum löndum, og sé hvergi í þeim gögnum að finna misræmi um nafn, fæðingardag eða annað sem auðkenni kæranda. Þá hafi kærandi lagt fram nokkurn fjölda skjala, þ. á m. ófalsað frumrit fæðingarvottorðs frá Sovétríkjunum og afrit af asersku nafnskírteini, sem renni öll stoðum undir auðkenni hans. Kærandi telur því að leggja beri til grundvallar að ekki leiki vafi á því hver hann sé. Þá telur kærandi ljóst að hann uppfylli önnur skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt neitt fram sem væri til þess fallið að sanna auðkenni sitt. Var því lagt mat á auðkenni hans út frá trúverðugleikamati. Var ekki talið ástæða til þess að efast um frásögn kæranda af því að hafa fæðst og alist upp í borginni Bakú í Aserbaísjan en að öðru leyti væri auðkenni kæranda óljóst. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann væri ríkisfangslaus. Lagði stofnunin til grundvallar með vísan til framburðar kæranda og gagna málsins að hann væri aserskur ríkisborgari.

Í ljósi kröfugerðar kæranda fyrir kærunefnd þar sem hann gerir kröfu um að sér verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi á grundvelli ríkisfangsleysis, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga, verður afstaða tekin til þjóðernis kæranda í niðurstöðukafla.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Aserbaísjan, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices: Azerbaijan (US Department of State, 30. mars 2021);
  • Azerbaijan country profile (BBC, 18. nóvember 2020);
  • Azerbaijan: Biometric passports, including issuance procedures within the country and abroad (Immigration and Refugee Board of Canada, 9. júní 2014);
  • Azerbaijan: compulsory military service, including requirements and exemptions; penalties for evasion or desertion (Immigration and Refugee Board of Canada, 2. júní 2016);
  • Azerbaijan’s compulsory health insurance expanded to 100 % of population from April 1, 2021 (P4H Social Health Protection Network, 1. apríl 2021);
  • Azerbaijan strengthens its health workforce to boost primary health care (World Health Organization, 12. október 2021);
  • Azerbaijan. World Report 2021: Events of 2020 (Human Rights Watch, janúar 2021);
  • BTI 2020 Country Report – Azerbaijan (Bertelsmann Stiftung, 29. apríl 2020);
  • Commissioner for Human Rights of the Council of Europe. Report following her visit to Azerbaijan from 8 to 12 July 2019 (Council of Europe, 11. desember 2019);
  • Compulsory military service, including requirements and exemptions; penalties for evasion or desertion (Immigration and Refugee Board of Canada, 26. júlí 2016);
  • Constitution of the Republic of Azerbaijan (Aserbaísjan, 12. nóvember 1995);
  • Criminal Code of the Republic of Azerbaijan (Aserbaísjan, 30. desember 1999);
  • EU-WHO project supports long term mental health care facilities in Azerbaijan in the context of Covid-19 (United Nations, Azerbaijan, 8. október 2021);
  • Freedom in the World 2021 – Azerbaijan (Freedom House, 3. mars 2021);
  • Freedom in the World 2021 – Nagorno-Karabakh (Freedom House, 3. mars 2021);
  • General Country of Origin Information Report for Azerbaijan (The Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands, júlí 2020);
  • Healthcare Technologies Resource Guide. Healthcare – Azerbaijan (International Trade Administration, aðgengilegt á: www.trade.gov/healthcare-resource-guide-azerbaijan);
  • Law of the Azerbaijan Republic on Citizenship of the Azerbaijan Republic (Aserbaísjan, 30. september 1998);
  • Law of the Azerbaijan Republic about Armed Forces of the Azerbaijan Republic (Aserbaísjan, 29. desember 207)
  • Law of the Azerbaijan Republic about conscription and military service (Aserbaísjan, 23. desember 2011);
  • Nations in Transit 2020 - Azerbaijan (Freedom House, 1. júlí 2020);
  • Nations in Transit 2021 – Azerbaijan (Freedom House, 28. apríl 2021);
  • Report on Citizenship Law: Azerbaijan (Global Citizenship Observatory, janúar 2019);
  • Report to the Azerbaijani Government on the visit to Azerbaijan carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment from 23 to 30 October 2017 (Council of Europe, 18. júlí 2018);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 25. nóvember 2021);
  • The World Factbook – Azerbaijan (CIA, síðast uppfært 16. nóvember 2021) og
  • World Report 2021 – Azerbaijan (Human Rights Watch, 13. janúar 2021) 

Aserbaísjan er lýðveldi með um 10,3 milljónir íbúa. Ríkið er aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Ríkið er jafnframt aðili að m.a. flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Í framangreindri skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar frá árinu 2021 kemur fram að forsetaræði sé við lýði í Aserbaísjan. Löggjafarvald sé í höndum aserska þingsins (a. Milli Mejlis) en forseti landsins sé ráðandi og fari með beint- eða óbeint vald yfir framkvæmdar- og dómsvaldi. Í framangreindum skýrslum Freedom House kemur fram að sitjandi forseti landsins, Ilham Aliyev, hafi verið kjörinn árið 2003, og hafi hann þá tekið við af föður sínum, Heydar Aliyev, sem hafi setið í embættinu frá árinu 1993. Árið 2009 hafi reglur um hversu mörg kjörtímabil forseti megi sitja verið afnumdar og árið 2016 hafi hvert kjörtímabilið verið lengt úr fimm árum í sjö ár. Þá hafi Ilham Aliyev skipað eiginkonu sína, Mehriban Aliyeva, í nýstofnaða stöðu varaforseta landsins árið 2017 án aðkomu utanaðkomandi aðila. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar sem hafi fylgst með kosningum í Aserbaísjan undanfarna áratugi telji að þær hafi hvorki verið trúverðugar né sanngjarnar. Aserska þingið hafi verið leyst upp í desember 2019 og boðað hafi verið til kosninga í febrúar 2020. Kosningaþátttaka hafi verið tæp 47 % og hafi flokkur forsetans, Yeni Azerbaijan Party (YAP), fengið flest sæti á þinginu. Einn stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, National Council of Democratic Forces (NCDF), sem og aðrir minni flokkar, hafi sniðgengið kosningarnar og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (Organization for Security and Co-operation in Europe, OSCE) hafi lýst yfir efasemdum um heillindi kosninganna.

Í fyrrnefndum skýrslum kemur fram að kerfisbundin spilling innan hins opinbera sé viðvarandi vandamál í Aserbaísjan. Æðstu stjórnmálamenn landsins, þar á meðal forsetinn, hafi náð að auðga sig og fjölskyldur sínar á kostnað almennings. Lögum samkvæmt sé spilling opinberra starfsmanna refsiverð í Aserbaísjan. Yfirvöld hafi hins vegar ekki framfylgt lögunum með skilvirkum hætti og sé spilling innan hins opinbera því oft látin viðgangast án refsingar.

Í skýrslu innflytjenda- og flóttamannaráðs Kanada frá árinu 2016 er fjallað um herskyldu aserskra ríkisborgara. Fram kemur að 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Aserbaísjan kveði á um að ríkisborgarar skuli sinna herþjónustu í hersveitum landsins í samræmi við landslög. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um herkvaðningu og herþjónustu (e. Law of the Azerbaijan Republic about conscription and military service) séu allir heilbrigðir karlkyns ríkisborgarar Aserbaísjan á aldrinum 18 til 35 ára skyldugir til að sinna herþjónustu. Herskylda sé lögbundin í allt að 12 mánuði fyrir háskólagengna karlmenn, en í 18 mánuði fyrir þá sem hafi ekki lokið námi á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sé nýliðum (e. recruits) heimilt að sinna annars konar þjónustu í stað herþjónustu, fari herþjónusta gegn sannfæringu þeirra. Lög þess efnis hafi hins vegar ekki verið lögfest og yfirvöld hafi, í svari til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna árið 2014, gefið til kynna að ríkisborgarar sem neiti því að sinna herskyldu á grundvelli samviskuástæðna (e. conscientious objectors) verði herkvaddir. Þá hafi yfirvöld greint frá því að einstaklingar sem vilji ekki gegna herskyldu á grundvelli samviskuástæðna séu almennt skipaðir í stöður þar sem þeir þurfi ekki að bera vopn.

Í 321.1. gr. aserskra hegningarlaga (e. Criminal Code of the Republic of Azerbaijan) kemur fram að þeir sem komi sér undan lögbundinni herþjónustu, án þess að fyrir liggi lögmætar undanþáguástæður, eigi á hættu allt að tveggja ára fangelsisrefsingu. Á stríðstímum (e. wartime) varði slíkur verknaður hins vegar allt frá þriggja til sex ára fangelsisrefsingu. Í fyrrnefndri skýrslu innflytjenda- og flóttamannaráðs Kanada kemur fram að aserskir ríkisborgarar, hvers samviska fer gegn herþjónustu, geti átt það á hættu að vera ákærðir og að sæta fangelsisvist á grundvelli umrædds ákvæðis. Sú framkvæmd hafi hins vegar verið handahófskennd og sé það í raun háð hendingu hvort að ríkisborgarar sæti ákæru fyrir að koma sér undan herskyldu. Kemur einnig fram að engar upplýsingar liggi fyrir um getu aserskra yfirvalda til að hafa eftirlit með þeim aðilum sem hafi komið sér undan herskyldu, auk þess sem engum tölfræðilegum upplýsingum sé til að dreifa um fjölda þeirra sem sakfelldir hafi verið fyrir slíkt athæfi. Í skýrslunni er fjallað um mál þriggja einstaklinga sem hafi verið sóttir til saka fyrir að hafa gerst brotlegir á þessum grundvelli. Fram kemur að þeir hafi hlotið allt frá níu mánaða til tveggja ára fangelsisrefsingu fyrir að hafa komið sér undan herskyldu. Handtaka einstaklingsins sem hafi hlotið tveggja ára fangelsisrefsingu hafi komið til vegna aðildar hans að samtökum sem hafi skipulagt mótmæli gegn stjórnvöld og hafi honum verið sleppt úr haldi að lokinni fimmtán mánaða fangelsisvistar á grundvelli góðrar hegðunar.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslu nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (e. Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment) frá 2018, skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar frá 2021 og skýrslu Freedom House frá 2021, eru gerðar athugasemdir við aðstæður og aðbúnað í aserskum fangelsum. Til að mynda séu viss fangelsi úrelt og vanbúin til þess að hýsa þann fjölda fanga sem hafi þar verið samankominn. Fangar hafi búið við óheilnæmar aðstæður og sé það áhyggjuefni að þeim hafi ekki verið tryggður aðgangur að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Þá hafi trúverðugar tilkynningar borist um illa meðferð og pyndingar fanga í vissum fangelsum. Yfirvöld hafi brugðist við athugasemdum sem gerðar hafi verið, þ. á m. með stækkun fangaklefa, en frekari úrbóta sé þörf.

Í framangreindum gögnum, þ. á m. á vefsvæðum World Health Organization, International Trade Administration og P4H, er fjallað um heilbrigðiskerfið í Aserbaísjan. Fram kemur að heilbrigðiskerfið hafi liðið fyrir skort á fjármagni, lyfjum og endurnýjun tækja. Þá hafi heilbrigðismenntun ekki verið í samræmi við staðla vestrænna ríkja. Umbætur á aserska heilbrigðiskerfinu hafi hafist árið 2007 þegar sérstakri heilbrigðistryggingastofnun hafi verið komið á fót, en tafist hafi að innleiða ríkisrekið heilbrigðistryggingarkerfi. Frá árinu 2021 hafi skyldubundin heilbrigðistrygging náð til allra ríkisborgara landsins. Til þess að ríkisborgarar geti nýtt sér trygginguna, sem veiti m.a. rétt til grunn- og neyðarþjónustu, þurfi þeir fyrst að leita til heimilislæknis að undanskildum neyðartilvikum. Meirihluti ríkisborgara sem nýti sér þjónustu heilbrigðiskerfisins þurfi þó að greiða hluta kostnaðar úr eigin vasa. Þá kemur fram á vefsvæði skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Aserbaísjan að samstarfsverkefni skrifstofunnar og Evrópusambandsins miði að því að veita geðheilbrigðisstofnunum langtímastuðning vegna Covid-19 faraldursins.

Alþjóðlega vernd á grundvelli ríkisfangsleysis skv. 39. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga segir að ríkisfangslaus einstaklingur sé sá sem ekkert ríki telji til ríkisborgara sinna samkvæmt landslögum, sbr. samning um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá árinu 1954. Ríkisfangslaus einstaklingur sem staddur er hér á landi en telst ekki flóttamaður skv. 37. gr. og er ekki útilokaður frá réttarstöðu ríkisfangsleysis skv. 41. gr. laga um útlendinga hefur sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar á grundvelli ríkisfangsleysis síns samkvæmt umsókn. Þá kemur fram í 2. mgr. 39. gr. sömu laga að Útlendingastofnun leggi mat á umsókn ríkisfangslauss einstaklings. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að um ríkisfangsleysi sé fjallað í tveimur alþjóðasamningum, þ.e. samningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og samningi um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961. Ísland hafi ekki fullgilt þessa samninga en fyrir liggi ákvörðun stjórnvalda um að leggja samningana fyrir Alþingi svo leiða megi ákvæði þeirra í íslenska löggjöf. Hvatinn að þeirri vinnu sé barátta Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að eyða ríkisfangsleysi á heimsvísu. Í greinargerð kemur jafnframt fram að í 39. gr. laganna sé gerður greinarmunur á ríkisfangslausum einstaklingi og flóttamanni og með sérákvæði um ríkisfangslausa einstaklinga sé réttarstaða þeirra gerð tryggari. Sæki einstaklingur um alþjóðlega vernd á grundvelli ríkisfangsleysis og flóttamannasamnings skuli leyst úr þeim málum samhliða. Þá kemur fram í greinargerð með lagafrumvarpinu að Útlendingastofnun skuli ekki hefja málsmeðferð á grundvelli ríkisfangsleysis af sjálfsdáðum heldur þurfi útlendingur að sækja um viðurkenningu á stöðu sinni.

Í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd á grundvelli ríkisfangsleysis kemur m.a. fram að sönnunarbyrði fyrir því hvort umsækjandi teljist ríkisfangslaus sé deilt á milli umsækjanda og þess stjórnvalds sem taki ákvörðun í málinu. Hvíli á báðum aðilum sú skylda að vinna saman að því að að afla sönnunargagna og varpa ljósi á staðreyndir málsins. Sé tilgangurinn með framangreindu sá að komast að því hvort umsækjandi falli undir gildissvið samnings um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954. Því hvíli á umsækjanda sú skylda að vera sannsögull, gera fulla grein fyrir stöðu sinni og leggja fram öll þau gögn sem honum sé kleift að leggja fram. Þá segir í handbókinni að trúverðugleiki staðhæfinga umsækjanda um ríkisfangsleysi verði ekki skoðaður sérstaklega ef stjórnvald getur tekið ákvörðun á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu með hliðsjón af upplýsingum um aðstæður í viðeigandi landi. Hins vegar þurfi stjórnvöld að líta til vitnisburðar umsækjanda þegar fá eða engin gögn liggja fyrir í málinu sem varpað geta ljósi á staðreyndir málsins. Við slíkt mat geti risið vandamál í tengslum við trúverðugleika umsækjanda. Við mat á því hvort staðhæfingar umsækjanda geti talist trúverðugar geti stjórnvöld litið til hlutlægra sjónarmiða sem stutt geti trúverðugleika hans, svo sem með því að líta til þess hvort frásögn hans sé nákvæm og fullnægjandi; hvort samræmi sé milli munnlegs og skriflegs framburðar hans og hvort framburður hans sé í samræmi við frásagnir annarra aðila, svo sem fjölskyldumeðlima, og upplýsingar um aðstæður í viðeigandi landi.

Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 16. desember 2020, kemur fram að kærandi telji sig uppfylla skilyrði framangreinds ákvæðis, enda líti ekkert ríki á hann sem ríkisborgara samkvæmt landslögum. Hann hafi fæðst í Sovétríkjunum og hafi aldrei fengið ríkisfang í Aserbaísjan.

Í 52. gr. stjórnarskrár Aserbaísjan kemur fram að einstaklingar sem séu fæddir á yfirráðasvæði Aserbaísjan og/eða fæddir aserskum foreldrum séu ríkisborgarar Aserbaísjan. Þá verndar 53. gr. stjórnarskrárinnar gegn sviptingu ríkisborgarréttar. Í skýrslu Global Citizenship Observatory frá janúar 2019 kemur fram að þegar asersk lög um ríkisborgararétt (e. Law of the Azerbaijan Republic on citizenship of the Azerbaijan Republic) tóku gildi árið 1998 hafi allir þeir sem bjuggu í Aserbaísjan við fall Sovétríkjanna verið skráðir sem aserskir ríkisborgarar með því skilyrði að þær gætu sýnt fram á búsetu í landinu frá 1. janúar 1992. Jafnframt ætti barn asersks ríkisborgara rétt á aserskum ríkisborgarétti. Árið 2014 voru gerðar breytingar á framangreindum lögum og frekari skilyrði sett við því að einstaklingur sem að fæddist í Aserbaísjan gæti átt rétt á ríkisfangi í landinu en ákvæði 52. gr. stjórnarskrárinnar var þó ekki breytt til samræmis. Samkvæmt framburði kæranda fæddist hann í Bakú, höfuðborg Aserbaísjan árið […], og hafði búsetu þar í landi allt til 18 ára aldurs. Þá verður af gögnum málsins ekki annað ráðið en að faðir kæranda sé ríkisborgari Aserbaísjan. Enn fremur byggir aðalkrafa kæranda á því að hann hafi svikist undan herskyldu í Aserbaísjan. Af framangreindri umfjöllun um þau lög sem gilda um herskyldu í Aserbaísjan er ljóst að hún á aðeins við um aserska ríkisborgara.

Að framan voru rakin þau sjónarmið sem fram hafa komið af hálfu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við mat á því hvort einstaklingur sé ríkisfangslaus. Telur kærunefnd rétt að líta til þeirra, líkt og fram kemur í athugasemdum við ákvæði 39. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Hefur Flóttamannastofnun lagt til grundvallar að þegar fá eða engin gögn liggi fyrir sem varpað geti ljósi á staðreyndir máls verði stjórnvöld að líta til vitnisburðar umsækjanda, m.a. hvort hann sé nákvæmur og samræmist upplýsingum í viðkomandi landi. Það er mat kærunefndar að framburður kæranda um ríkisfang hans hafi verið óljós frá upphafi málsmeðferðar hans hér á landi. Kærandi hafi m.a. í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 8. apríl 2021, sagt að hann telji sjálfan sig ekki aserskan ríkisborgara og virði ekki lög þess lands en í viðtali hjá stofnuninni, dags. 30. nóvember 2020, kvaðst hann halda að hann væri ekki með ríkisfang í Aserbaísjan en ekki vita hvernig ferlið í landinu virki og hvaða stöðu hann hafi í landinu eftir fall Sovétríkjanna. Þá eru gögn þau sem kærandi hefur lagt fram ekki til þess fallin til að styðja staðhæfingu hans um ríkisfangsleysi.

Eftir skoðun gagna málsins, upplýsinga um Aserbaísjan og með tilliti til mats á trúverðugleika frásagnar kæranda telur kærunefnd að fallast megi á mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé aserskur ríkisborgari.

Í ljósi niðurstöðu kærunefndar um ríkisfang kæranda eru ekki fyrir hendi forsendur til að taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli ríkisfangsleysis, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hans bíði óhófleg fangelsisrefsing í heimaríki sínu, Aserbaísjan, þar sem hann hafi komið sér undan herkvaðningu.

Kærandi hefur ekki framvísað neinum gögnum því til stuðnings að hann hafi verið kvaddur í aserska herinn. Í ljósi frásagnar kæranda sjálfs um að herkvaðningarbréf hafi borist foreldrum hans árið 1999 er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærandi framvísi umræddu bréfi eða öðrum gögnum sem leiði að því líkur að hann hafi verið kvaddur í aserska herinn. Þá telur kærunefnd að misræmis hafi gætt í framburði kæranda, þ. á m. um fyrrnefnt herkvaðningarbréf og flótta hans frá heimaríki. Þrátt fyrir það misræmi telur kærunefnd, í ljósi framangreindra upplýsinga um herskyldu aserskra ríkisborgara, ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi hafi verið kvaddur í aserska herinn.

Í nóvember 2014 gaf flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna út leiðbeiningarreglur vegna umsókna um alþjóðlega vernd í tengslum við herþjónustu (Guidelines on International Protection no. 10: Claims to Refugee Status related to Military Service within the context of Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or the 1967 Protocol relating to the Status of Refugees). Í leiðbeiningunum segir m.a. að ríkjum sé heimilt að skylda ríkisborgara sína til að gegna herþjónustu. Þá sé þeim heimilt að refsa þeim sem reyni að koma sér undan slíkri þjónustu án gildra samviskuástæðna að því gefnu að slíkar refsingar fylgi alþjóðlegum stöðlum. Réttur einstaklinga til að neita að gegna herþjónustu af samviskuástæðum sé afleiddur réttur byggður á túlkun á 18. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 18. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. ICCPR). Í þeim tilvikum þar sem ríki bjóði ekki upp á undanþágu frá herþjónustu á grundvelli samviskuástæðna eða annars konar þjónustu þess í stað verði að kanna hvaða afleiðingar séu af því að einstaklingur neiti að gegna herþjónustu. Eigi einstaklingur á hættu óhóflega eða handahófskennda refsingu fyrir að neita að gegna herþjónustu geti komið til athugunar að veita viðkomandi alþjóðlega vernd. Þá segir að í þeim tilvikum þar sem að einstaklingur neiti að gegna herþjónustu vegna þess að hann sé mótfallinn framgöngu stríðsaðila sé nauðsynlegt að leggja mat á líkur þess að hann verði neyddur til að taka þátt í verknaði sem brjóti í bága við alþjóðalög. Ólíklegt sé að einstaklingur sem, stöðu sinnar vegna, sé útilokaður frá því að taka þátt í slíkum verknaði, s.s. matráður eða starfsmaður í skipulags- og tækniaðstoð (e. logistical or technological support), eigi rétt á alþjóðlegri vernd án þess að eitthvað meira komi til. Í samræmi við þessi viðhorf er mælt fyrir um í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga að saksókn eða refsing sem sé óhófleg eða mismuni einstaklingum á ómálefnalegum grunni geti talist ofsóknir.

Í 4. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er mælt fyrir um bann við þrældómi og nauðungarvinnu. Samkvæmt greininni tekur þvingunar- eða nauðungarvinna ekki til herþjónustu eða þjónustu sem krafist er í hennar stað af mönnum sem synja herþjónustu samvisku sinnar vegna og búa við lög sem heimila slíka synjun, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. sáttmálans. Ákvæðið skal skýrt í samræmi við 1. mgr. 9. gr. mannréttindasáttmálans, þar sem kveðið er á um rétt manna til að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Til að ákvörðun um að neita að gegna herþjónustu falli undir 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verður að vera um að ræða ástæður af trúarlegum toga eða að viðkomandi hafi lýst yfir fastmótuðum og einlægum skoðunum um að hann sé mótfallinn hvers kyns stríðsrekstri eða því að bera vopn, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 7. júní 2016 í máli Enver Aydemir gegn Tyrklandi frá 2016 (mál nr. 26012/11).

Að virtum framburði kæranda er það mat kærunefndar að hann hafi ekki borið því við að hann vilji ekki gegna herskyldu í Aserbaísjan á grundvelli samviskuástæðna, sbr. framangreindan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, enda hefur hann ekki lýst yfir fastmótuðum og einlægum skoðunum um að hann sé mótfallinn hvers kyns stríðsrekstri eða því að bera vopn. Ákvörðun kæranda um að koma sér undan herþjónustu getur því ekki fallið undir 9. gr. mannaréttindasáttmála Evrópu.

Það er mat kærunefndar, með vísan til þess sem að framan er rakið, að sú refsing sem kærandi kann að eiga yfir höfði sér í Aserbaísjan vegna þess að hann sé hafi komið sér undan herskyldu teljist hvorki til „harðra viðurlaga“ í skilningi í handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna né geti refsingin talist „óhófleg eða að hún muni mismuna honum á ómálefnalegum grundvelli“, sbr. c-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá er það mat kærunefndar að ákvæði landslaga í Aserbaísjan sem kveða á um viðurlög við fjarvistum einstaklinga sem hafi verið boðaðir í herinn séu ekki ósamrýmanleg viðurkenndum mannréttindareglum. Enn fremur benda gögn ekki til þess að réttarkerfi landsins eða ástand fangelsa sé þannig að það teljist til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr.c-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Að lokum verður ekki talið að kærandi eigi nú á hættu að vera gert að sæta herþjónustu í heimaríki, enda er hann kominn yfir það aldursviðmið sem asersk lög mæla fyrir um.

Verður því ekki fallist á með kæranda að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda vegna framangreinds.

Í greinargerð kæranda til kærunefndar er fjallað um átök á milli herja Aserbaísjan og Armeníu í Nagornó-Karabak héraði. Samkvæmt framburði kæranda bjó hann í höfuðborg Aserbaísjan, Bakú, allt þar til hann lagði á flótta frá heimaríki. Átök um yfirráð Nagornó-Karabak héraðs hafa að mestu verið staðbundin og hafa því ekki náð til Bakú, sem er í um fjögur hundrað kílómetra fjarlægð, eða annarra borga utan héraðsins. Verður því ekki talið að kærandi sé í hættu í heimaríki vegna átaka í Nagornó-Karabak héraði.

Þá telur kærunefnd gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um, sbr. 1. og 2. mgr. 38. gr. laganna.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir á því að aðstæður hans í heimaríki hafi verið erfiðar og afar sérstakar. Hann hafi verið á flótta í yfir […] ár og fjölskylda hans hafi flutt frá Aserbaísjan. Varðandi mat á heilbrigðisástæðum telur kærandi nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld taki tillit til þess fordæmalausa ástands sem Covid-19 veldur nú í heiminum.

Við meðferð fyrri umsókna kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi greindi hann frá því að hafa glímt við andleg- og líkamleg vandamál. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi sé í meðferð hér á landi sem væri ófarsvaranlegt að rjúfa. Þá telur kærunefnd, að teknu tilliti til þeirra upplýsinga um heimaríki kæranda sem nefndin hefur kynnt sér, að kæranda standi til boða aðgangur að heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu, í heimaríki hans.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefi til kynna að aðstæður kæranda í heimaríki verði erfiðar. Samkvæmt framburði kæranda gekk hann í skóla í heimaríki. Þá verður af gögnum málsins ekki annað ráðið en að kærandi sé almennt heilsuhraustur. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna, en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 20. september 2019. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 25. nóvember 2021, eru liðnir rúmlega 26 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð málsins hefur kærandi lagt fram ljósmyndir og afrit af ýmsum gögnum sem hann telur sanna á sér deili. Til að mynda af skírteinum sem hann kveður vera asersk nafn- og skólaskírteini. Þar sem um ljósmyndir og afrit er að ræða er ekki mögulegt fyrir kærunefnd að kanna áreiðanleika þeirra eða uppruna. Þá lagði kærandi fram afrit ýmissa gagna frá Hvíta-Rússlandi, þ. á m. afrit dvalarleyfiskírteinis og afrit umsókna um ökuskírteini og skráningu lögheimilis þar í landi. Í ljósi uppruna umræddra gagna verða þau ekki talin til þess fallin að sanna auðkenni kæranda í heimaríki.

Kærandi lagði auk þess fram frumrit vottorðs sem hann kveður vera sovéskt fæðingarvottorð sitt. Fyrrnefnt vottorð var sent til flugstöðvardeildar lögreglu til skoðunar og var það niðurstaða lögreglu, dags. 12. september 2021, að vottorðið væri ófalsað. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa að umrætt vottorð sé sovéskt fæðingarvottorð. Þar sem að vottorðið er ekki persónugreinanlegt, þ.e. hvorki er að finna ljósmynd af kæranda né fingrafar hans í því, og því ekki hægt að tengja kæranda við það er það mat kærunefndar að umrætt fæðingarvottorð sé, eitt og sér, ekki til þess fallið að sanna á kæranda deili. Þar sem önnur framlögð gögn kæranda eru aðeins afrit skjala er ekki hægt að staðfesta áreiðanleika og uppruna þeirra, auk þess sem þau stafa fæst frá aserskum stjórnvöldum. Verður því ekki talið að þau styðji við framlagt fæðingarvottorð til sönnunar á auðkenni kæranda.

Í greinargerð kæranda kemur fram að framlagning vegabréfs sé ekki forsenda fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til úrskurðar kærunefndar nr. 105/2020 sem hann telur styðja mál sitt. Í fyrrnefndum úrskurði taldi kærunefnd að skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga væri ekki uppfyllt, enda hefði kærendum ekki tekist að sanna á sér auðkenni. Hins vegar var ekki talin leika vafi á því hvert auðkenni barns þeirra, sem fæddist hér á landi, væri. Barninu var því veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá var kærendum, í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar, einnig veitt dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins. Að framangreindu virtu er ljóst að ekki er hægt að jafna stöðu kæranda við stöðu kærenda í framangreindum úrskurði.

Með tölvubréfi, dags. 23. nóvember 2021, óskaði kærunefnd eftir heimild frá kæranda til að afla upplýsinga og gagna um auðkenni hans og stöðu í Aserbaísjan. Meðfylgjandi var umboð þar sem kærandi gat veitt nefndinni slíka heimild. Í svari kæranda, dags. 25. nóvember 2021, kemur m.a. fram að hann óttist yfirvöld í Aserbaísjan og vilji þess vegna ekki taka áhættuna á því að hljóta afleiðingar af því að þau fái upplýsingar um hann. Sé hann því ekki tilbúinn til að undirrita fyrrnefnt umboð. Í því sambandi vísar kærandi til þess að afstaða hans sé í samræmi við 2. mgr. 15. gr. laga um útlendinga. Líkt og að framan er rakið var það niðurstaða kærunefndar að kærandi hefði ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki. Þá sé hann ekki ríkisfangslaus og eigi því ekki rétt á vernd af þeim sökum. Í ljósi þess, og að teknu tilliti til þeirra gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér um útgáfu vegabréfa og annarra persónuskilríkja í heimaríki kæranda, er það mat kærunefndar að það sé ekki ósanngjörn krafa af hálfu íslenskra stjórnvalda að ætlast til þess að kærandi framvísi, í þeim tilgangi að sanna auðkenni sitt, persónugreinanlegum gögnum frá heimaríki sem yfirvöld hér á landi geti rannsakað hvað varðar áreiðanleika og uppruna í samræmi við ákvæði 38. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017.

Engin skilríki eða önnur gögn liggja fyrir hjá kærunefnd sem eru til þess fallin að varpa ljósi á hver kærandi sé og verður ekki fallist á það með kæranda að sanngirnissjónarmið eigi að leiða til þess að litið verði framhjá þeirri staðreynd. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sannað á sér deili, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga og 1. mgr. 19. gr. laga um útlendinga og 38. gr. reglugerðar um útlendinga.

Í ljósi framangreinds er það því mat kærunefndar að skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. séu því ekki fyrir hendi í máli kæranda, en kærunefnd telur vafa leika á því hver hann sé. Það er því niðurstaða kærunefndar að kæranda verði ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 18. september 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu og kemur frá öruggu upprunaríki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kærenda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu. 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum