Hoppa yfir valmynd
20. desember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Viðskiptaráðuneyti - minnisblað um aðgerðir við efnahagsástandinu í þágu heimilanna

Dagsett 20. febrúar 2009

Frysting myntkörfulána

Í nóvember sl. hlutaðist viðskiptaráðuneytið til um að beina þeim tilmælum ríkisstjórnarinnar til viðskiptabankanna í eigu ríkisins að frystar yrðu afborganir skuldara á myntkörfulánum, sérstaklega vegna húsnæðislána, þar til ró kæmist á gjaldeyrismarkaðinn. Einnig var þeim tilmælum beint til sömu aðila að fólki í greiðsluerfiðleikum yrðu boðin sömu úrræði og til staðar eru hjá Íbúðalánasjóði vegna greiðsluerfiðleika. Auk þess var óskum beint til annarra fjármálafyrirtækja að veita sömu fyrirgreiðslu.

  • Tilmæli frá ríkisstjórn Íslands

Tilmælin voru síðar ítrekuð:

  • Frysting lána

Stjórnvöld vinna nú að varanlegri lausn á þeim vanda sem hækkun myntkörfulána á húsnæði veldur heimilum í landinu. Gert er ráð fyrir að sú lausn verði kynnt mjög fljótlega, en að það geti tekið allt að tvo til þrjá mánuði áður en hún komi að fullu til framkvæmda. Hafa stjórnvöld því beint til fjármálafyrirtækja að þau framlengi frystingu myntkörfulána í samræmi við ofangreint, án kostnaðar fyrir skuldara, þar til framangreind lausn hefur náð fram að ganga.

Skilmálar í almennum fasteigna- og myntkörfulánum neytenda

Neytendastofa hefur haft til sérstakrar skoðunar skilmála í almennum fasteigna- og myntkörfulánum neytenda, s.s er varðar vexti. Byggist skoðunin á lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, með síðari breytingum. Hefur Neytendastofa m. a. krafist þess að tiltekin fjármálafyrirtæki breyti skilmálum sínum. Niðurstaða mun liggja fyrir hjá Neytendastofu á allra næstu dögum.

Dráttarvextir lækkaðir

Viðskiptaráðherra flutti frumvarp til laga um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu fyrir áramót, sem tóku gildi 1. janúar sl. Dráttarvextir miðast framvegis við 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabankans til lánastofnana í stað þess að lögin kváðu á um að dráttarvextir skyldu vera 11% álag. Heimild Seðlabanka til að ákveða annað vanefndaálag ofan á viðmiðunarvexti var felld brott, en eldri lög kváðu á um heimild til að ákvarða álag vegna dráttarvaxta frá 7%-15%. Þá var kveðið á um að Seðlabankinn skyldi birta dráttarvexti 1. dag hvers mánaðar í stað tvisvar á ári.

Reglugerð sett um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar

Sett hefur verið reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar sem öðluðust gildi 1. febrúar sl. Kjarni reglugerðarinnar er að sett er þak á þá fjárhæð sem krefja má skuldara um við innheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi.

Þakið sem nú er sett á innheimtukostnað hefur í för með sér að aðeins má taka 900 kr. fyrir skyldubundna innheimtuviðvörun til einstaklinga frá innheimtuaðila, m.a. lögmanni, eftir gjalddaga kröfu (ellegar eindaga sem síðar er tilgreindur). Fyrir valfrjáls milliinnheimtubréf má taka mismunandi gjöld eftir höfuðstól kröfu, lægst fyrir lágar kröfur, þ.e. 1.250 kr. en hærri fjárhæð eða allt að 5.500 kr. fyrir hærri kröfur. Sömu takmörk eru á greiðslu skuldara fyrir fyrstu og aðra ítrekun milliinnheimtubréfs.

Þá felst mikilvæg réttarbót í því að skuldari á rétt á að fá innheimtuviðvörun gegn vægu gjaldi eftir gjalddaga eða tilgreinds eindaga í stað þess að löginnheimta geti hafist strax eftir gjalddaga, t.d. með greiðsluáskorun á grundvelli aðfararlaga með háum kostnaði.

Reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar byggir á innheimtulögum nr. 95/2008 er öðluðust gildi 1. janúar sl. Í lögunum og reglugerðinni er m.a. kveðið á um góða innheimtuhætti þannig að ekki má t.d. beita skuldara óhæfilegum þrýstingi eða valda honum óþarfa tjóni eða óþægindum.

  • Þak sett á innheimtukostnað

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum