Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 507/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 507/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090006

 

Kæra […] 

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. september 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Kólumbíu og Palestínu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. ágúst 2018, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 19. febrúar 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 14. júní 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 13. ágúst 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 4. september 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 24. september 2018, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn og upplýsingar í tengslum við mál kæranda með tölvupóstum, dags. 11. og 24. október og 22. nóvember 2018.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á efnahagslegum ástæðum og mismunun sem hann hafi orðið fyrir í Líbanon vegna uppruna síns en hann sé palestínskur flóttamaður þar í landi. Hann geti ekki búið í Líbanon eða Venesúela vegna ástandsins í þeim löndum. Þá geti hann heldur ekki búið í Kólumbíu vegna þess að hann hafi engin tengsl við landið.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga og um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laganna. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti honum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé fæddur í Kólumbíu en að hann hafi engin tengsl þar í landi. Öll fjölskylda hans búi hér á landi, þ.e. báðir foreldrar hans og tvö systkini. Kærandi sé palestínskur flóttamaður sem hafi verið búsettur í Líbanon. Á þeim árum sem kærandi hafi búið í Líbanon hafi hann búið í tjaldbúðum og upplifað mismunun og fordóma. Árið 2014, þegar kærandi hafi verið […] ára gamall hafi faðir hans ákveðið að flytja til Venesúela en þar hafi fjölskyldan átt erfitt uppdráttar. Kærandi hafi búið hjá frænda sínum en flúið frá honum vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis sem hann hafi verið beittur. Kærandi hafi greint talsmanni sínum frá því að umræddur frændi hafi rekið vændishús og kærandi hafi verið neyddur til að vinna þar. Hann upplifi mikla skömm og hafi því ekki greint frá því atriði hjá Útlendingastofnun. Hann hafi þurft að vinna mikið en samt ekki átt fyrir mat. Þáverandi kærasta hans hafi orðið ólétt og kærandi hafi þurft að kaupa áhöld sjálfur fyrir fæðinguna. Læknamistök hafi valdið því að annar tvíburanna hafi dáið. Kærandi hafi greint talsmanni sínum frá því að hann hafi ekkert samband við barnsmóður sína í Venesúela og að hún búi nú með öðrum manni. Kærandi sé einungis að leita að stað til að geta lifað í friði og öryggi án mismununar. Sama ástand sé í Kólumbíu og í Venesúela auk þess sem hann hafi engin tengsl við Kólumbíu, enda búi einungis fjarskyldir ættingjar hans þar sem hann hafi engin tengsl við. Kærandi þarfnist fjölskyldu sinnar, umönnunar og öryggis eftir mikla óvissu og rótleysi í æsku. Þrátt fyrir að hann sé eldri en 18 ára sé hann bara drengur og treysti sér ekki til að búa einn í ókunnugu og óöruggu landi, fjarri fjölskyldu sinni hér á landi.

Í greinargerðinni er bent á að í ljósi þess að kærandi sé með dvalarleyfi í Líbanon, sem palestínskur flóttamaður, og hafi haft dvalarleyfi í Venesúela auk þess að vera með kólumbískan ríkisborgararétt sé fjallað um aðstæður kæranda í hverju þessara ríkja fyrir sig.

Fjallað er um stöðu palestínskra flóttamanna í Líbanon sem sé bág og þeir búi við mjög skert réttindi í landinu, mismunun og takmarkaðan aðgang að grundvallarþjónustu og öryggi. Þá sé almennt ástand mála í Venesúela slæmt og þar hafi ríkt hörmungarástand undanfarin þrjú ár en landið glími við efnahags- og stjórnmálakrísu sem leitt hafi til neyðarástands með síversnandi mannúðaraðstæðum og fólksflótta frá landinu. Að lokum fjallar kærandi um almennar aðstæður í Kólumbíu, friðarsamninga ríkisins og stöðu öryggismála. Þar kemur m.a. fram að öryggisástand ríkisins sé mjög ótryggt og ofbeldi og áreiti sé útbreitt vandamál. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telur styðja mál sitt.

Aðalkrafa kæranda er reist á því að kærandi sæti ofsóknum í Líbanon og að grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda þar í landi. Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga komi fram að flóttamaður skv. 37. gr. sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt til að fá hér alþjóðlega vernd. Eins og rakið hafi verið séu aðstæður kæranda í Líbanon afar slæmar, en þar verði flóttamenn fyrir kerfisbundinni mismunun og fordómum, t.a.m. í tengslum við atvinnu, heilbrigðisþjónustu og menntun og þá sé þeim bannað að eiga land. Enn fremur hafi þeir ekki aðgang að margvíslegri grundvallar félagslegri þjónustu, auk þess sem lagðar séu takmarkanir á ferðafrelsi þeirra. Loks sé öryggisástandið í landinu afar slæmt. Með því að senda hann til baka sé brotið gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement sem sé lögfest í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og 33. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna. Það sé á ábyrgð íslenskra stjórnvalda að tryggja að kærandi verði ekki sendur þangað sem líf hans eða frelsi kunni að vera í hættu.

Til stuðnings varakröfu sinni um viðbótarvernd kveður kærandi öryggisástandið í Líbanon vera ótryggt fyrir hann sem palestínskan flóttamann og vísar í ákvörðun Útlendingastofnunar þessu til stuðnings. Í Venesúela ríki algjört reiðileysi, efnahagurinn og heilbrigðiskerfið sé í molum og skortur sé á öllum nauðsynjavörum. Þá sé öryggisástand ótryggt, glæpatíðni ein sú allra hæsta í öllum heiminum þar sem skipulagðir glæpahópar vaði uppi og lögregla sé ófær um að halda uppi lögum og reglu. Í Kólumbíu séu handahófskenndar vopnaðar árásir hluti af daglegu lífi borgara. Sérstök athygli sé vakin á því að kærandi hafi engin tengsl við Kólumbíu önnur en að hafa fæðst þar og eiga fjarskylda ættingja þar. Gerir kærandi alvarlega athugasemd við að Útlendingastofnun telji Kólumbíu heimaríki hans þar sem hann hafi aldrei búið. Ljóst sé að með því að senda kæranda til Líbanon, Venesúela eða Kólumbíu brjóti íslensk stjórnvöld gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1 mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmálans, 6 og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamningsins. Yfirgnæfandi líkur séu á að kæranda muni stafa ógn af tilviljunarkenndu ofbeldi vegna langvarandi ófriðarástands og eigi þ.a.l. á hættu að sæta illri meðferð skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá sé ekki raunhæft að geti kærandi ekki leitað verndar hjá yfirvöldum í þessum löndum.

Til stuðnings þrautavarakröfu um að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, er bent á að ákvæðið heimili veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða t.d. vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Með erfiðum almennum aðstæðum sé sérstaklega tekið dæmi í lögskýringargögnum um viðvarandi mannréttindabrot og þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Bent sé á að heildarmat skuli fara fram á öllum aðstæðum. Á það er bent að félagslegar aðstæður kæranda í Líbanon séu mjög slæmar eins og rakið hafi verið. Þá ítrekar kærandi umfjöllun sína um slæmt ástand í Venesúela.

Kærandi bendir á að ástand mannréttindamála í Kólumbíu sé sérstaklega slæmt og félagslegar aðstæður afar bágbornar, eins og rakið hafi verið. Það sé ómögulegt fyrir kæranda að lifa eðlilegu lífi í Kólumbíu þar sem sem glæpahópar stundi mannrán og ofbeldi gegn almennum borgurum án þess að þeir hljóti viðeigandi vernd og einnig vegna stöðu kæranda sem einstaklings af palestínskum uppruna án nokkurra tengsla við Kólumbíu. Kærandi kveðst annars vegar hafa lítil eða engin tengsl og hins vegar hafi hann upplifað erfiðar félagslegar aðstæður í þeim ríkjum sem fjallað hafi verið um og ljóst sé að kærandi hafi mest tengsl við Ísland. Fjölskylda hans hafi dvalarleyfi hér á landi. Kærandi sé ekki orðinn tvítugur og hafi verið á vergangi stóran hluta ævi sinnar og ljóst að afar mikilvægt sé fyrir fjölskylduna að sameinast hér og njóta stuðnings og umönnunar hér. Rökstuðningur Útlendingastofnunar um að kærandi geti sameinast barnsmóður sinni og barni þeirra í Kólumbíu og hafið líf þar eigi ekki við, þar sem kærandi hafi greint frá því síðar að þau hafi slitið samskiptum og hún hafið samband með öðrum manni.

Á það er bent að kærandi sé afar ungur að árum og afar barnslegur og lokaður að eðlisfari, hann eigi erfitt með að muna og koma hlutum frá sér. Hann hafi farið margoft í viðtalstíma hjá Rauða krossinum, ávallt í fylgd með foreldrum sínum eða sambýlismönnum í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar, hann hafi skolfið af álagi og streitu. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna sé staðfest að kærandi uppfylli greiningarviðmið fyrir þunglyndi og kvíða.

Kærandi fjallar um 8. gr. mannréttindasáttmálans í þessu samhengi og meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Bent er á að í framkvæmd hafi Mannréttindadómstóll Evrópu lagt áherslu á að meta þurfi atvik í hverju máli fyrir sig og við matið beri meðal annars að skoða hvort flutningur úr landi feli í sér að fjölskylda aðskiljist, hvort óyfirstíganlegar hindranir standi því í vegi að fjölskylda geti lifað fjölskyldulífi annars staðar (t.d. í upprunaríki), hversu sterk tengsl fjölskyldu eru annars vegar við móttökuríkið og hins vegar við upprunaríkið og hversu erfitt yrði fyrir fjölskyldu að setjast að annars staðar. Ekki verði gerð krafa um að tilteknum formsatriðum sé fullnægt þegar skoðað sé hvort fjölskyldulíf sé fyrir hendi sem njóti verndar 8. gr. heldur sé kannað hvert raunverulegt eðli sambands hlutaðeigandi aðila sé. Slíkt eigi vel við kæranda enda sé ljóst, að þrátt fyrir að hann sé orðinn 18 ára og lagalega fullorðinn, þá búi öll fjölskyldan hans hér á landi. Foreldrum hans hafi verið veitt leyfi til að sameinast hér á landi þar sem faðir hans sé palestínskur ríkisborgari, móðir hans kólumbísk og systkinin spænskir ríkisborgarar. Þá sé kærandi ekki í neinu sambandi við barnsmóður sína og barn. Með hliðsjón af þessu sé ljóst að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé uppfyllt í máli kæranda.

Þá sé krafa um innri flutning hvorki raunhæf né sanngjörn fyrir hann hvað varði öryggi á öðrum svæðum í Kólumbíu, Líbanon eða Venesúela.

Að lokum óskar kærandi eftir viðtali með vísan til 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga og vísar þá m.a. til breyttra aðstæðna og atriða sem ekki hafi komið fram í málsmeðferð hjá Útlendingastofnun, t.a.m. varðandi samband hans við barnsmóður sína og andlega heilsu kæranda. Kærandi telji ástæðu til að vera gefinn kostur á að koma fyrir kærunefndina og gera grein fyrir stöðu sinni milliliðalaust.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram skráningarskírteini sitt frá Palestínuflóttamannanefndinni (e. the United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East, UNRWA). Kærandi kveðst hafa dvalarleyfi í Líbanon og einnig í Venesúela og kólumbískan ríkisborgararétt. Útlendingastofnun taldi frásögn kæranda trúverðuga meðal annars með tilliti til landaupplýsinga, ljósriti af umræddu skráningarskírteini, framburðar kæranda og gagna í máli föður kæranda, þar sem fram hafi komið að hann ætti son sem héti […] sem hafi fæðst í Kólumbíu og síðar búið í Venesúela. Leggur kærunefnd til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi sé kólumbískur ríkisborgari.

 

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kólumbíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Colombia 2017 Human Rights Report (US Department of State, 20. apríl 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Colombia (Freedom House, 15. mars 2018);
  • World Report 2018 – Colombia (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • Corruption Perceptions Index 2017 (Transparency International, skoðað 28. september 2018);
  • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum- Seekers from Colombia (UNHCR, september 2015);
  • Amnesty Annual Report 2017/2018 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • In the Shadow of “No“ : Peace after Colombia´s Plebiscite. Latin America Report No. 60 (International Crisis Group, september 2015);
  • Colombia suspends peace talks with ELN after bomb attack (Reuters, 29. janúar 2018);
  • Colombia – Peace and Stability in the Post-Conflict Era (Center for Strategic and International Studies (CSIS), mars 2014);
  • Colombia: Requirements and procedures to submit a complaint to the police, the Fiscalía General de la Nación, and the Defensoría del Pueblo, including types of complaints; standardization and appearance of documents; requirements and procedures to obtain af copy of the complaint and investigative report for each organization, both from within the country and from abroad (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 3. maí 2017);
  • Colombia: The National Liberation Army (Ejército de Liberación National -ELN), including number of combatants and areas of operations; activities, including ability to track victims; state response and protection available to victims (2016-April 2018) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 17. apríl 2018);
  • Colombia: The Revolutionary Armed Forces of Colombia (Furezas Armadas Revolucionarias de Colombia, FARC), including demobilization of former combatans; information on dissident groups, including number of combatants, areas of operation, activities and state response (2016- April 2018) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 18. apríl 2018);
  • The World Factbook: Colombia (CIA, skoðað 28. september 2018);
  • Colombia´s Armed Groups Battle for the Spoils of Peace (International Crisis Group (ICG), 19. október 2017);
  • Foreign travel advice: Colombia (UK Foreign and Commonwealth Office, uppfært 17. apríl 2018);
  • Colombia 2018 Crime and Safety Report-Bogotá (US Department of State, Bureau of Diplomatic Security, 30. janúar 2018);
  • Primary Health Care Systems (Prymasis) (World Health Organization, 2017);
  • Colombia Travel Advisory (US Department of State, Bureau of Consular Affairs, 28. júní 2018) og
  • Annual Report of the United Nations High Commissioner for Human Rights on the situation of human rights in Colombia (UN Human Rights Council, 2. mars 2018).

Kólumbía er stjórnarskrárbundið lýðveldi með um 48 milljónir íbúa. Í landinu aðhyllast 79% íbúa kaþólska trú. Þann 5. nóvember 1945 gerðist Kólumbía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1969. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987.

Af framangreindum gögnum má sjá að algengustu mannréttindabrot í landinu séu morð framin í skjóli refsileysis, pyndingar, víðtæk spilling, nauðganir og misnotkun kvenna og barna af hálfu ólöglegra vopnaðra hópa í landinu, þvingaðar fóstureyðingar og ofbeldi gegn hinsegin einstaklingum. Glæpa- og morðtíðni í Kólumbíu sé há og glæpahópar af ýmsum stærðum og gerðum starfi víðs vegar um landið. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að í kjölfar undirritunar friðarsamkomulags stjórnvalda við skæruliðahópinn FARC (e. Revolutionary Armed Forces of Colombia – People´s Army), hafi formlegri afvopnun hópsins lokið í ágúst árið 2017, og hafi fyrrum meðlimir myndað stjórnmálaflokk þann 1. september sl. Skæruliðahópurinn ELN (e. National Liberation Army), hafi haldið áfram að fremja ofbeldisglæpi og þann 4. september 2017 hafi verið samþykkt vopnahlé sem hafi gilt frá 1. október 2017 til 9. janúar 2018. Þá hafi borist fregnir af því að ELN hafi rofið samkomulagið á árinu. Á heildina litið hafi ofbeldisglæpum fækkað og megi rekja það m.a. til friðarsamkomulagsins við FARC og vopnahlés við ELN. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, frá apríl 2018, kemur fram að skæruliðahópar, aðallega ELN, hafi borið ábyrgð á 69 hryðjuverkaárásum á árinu 2017, á tímabilinu janúar til september.

Í framangreindum heimildum kemur fram að spilling ríki meðal stjórnmálamanna og innan lögreglunnar. Í skýrslu International Crisis Group (ICG) kemur t.a.m. fram að áskoranir sem kólumbísk stjórnvöld standi frammi fyrir í tengslum við friðarumleitanir við meðlimi skæruliða- og glæpahópa, tengist ekki einvörðungu samskiptum og samningsviðræðum við þá, heldur þurfi að byggja upp traust og laga innviði í landinu til að bæta lífsgæði almennra borgara. Ljóst sé að vantrausts gæti hjá almenningi í garð yfirvalda í Kólumbíu. Á hinn bóginn kemur fram í skýrslu Flóttamannastofnunar frá 2015 að yfirvöld hafi lagt mikið í að auka vernd þeirra sem hafi orðið fyrir barðinu á glæpahópum, með auknum fjármunum til embættis ríkissaksóknara og hafi aðgerðir gegn mannréttindabrotum verið settar í forgang. Þrátt fyrir áratugalöng innri átök við glæpa- og fíkniefnahópa og viðvarandi öryggisvandamál, sé Kólumbía með sterkar lýðræðislegar stofnanir sem einkennist af friðsælum og gagnsæjum kosningum og vernd borgaralegra réttinda.

Heimildir beri með sér að lögregluyfirvöld í Kólumbíu séu alla jafna öflug og fagleg. Þá hafi ýmis lög verið sett í því skyni að bæta réttarstöðu þolenda afbrota. Þó séu ákveðin svæði í Kólumbíu þar sem glæpahópar hafi mikil völd eða virk átök eigi sér stað á milli aðila og á þeim svæðum sé geta yfirvalda til að vernda borgara talin mjög takmörkuð. Ástæður þess séu m.a. að löggæsluyfirvöld komist ekki inn á þessi tilteknu svæði, þau skorti getu og úrræði auk þess sem spillingar gæti hjá yfirvöldum á ákveðnum svæðum. Refsileysi innan öryggissveita ríkisins hafi verið vandamál í landinu. Yfirvöld hafi þó á undanförnum árum handtekið, ákært og sakfellt fjölda starfsmanna hins opinbera fyrir tengsl við glæpahópa og hafi slíkum sakfellingum fjölgað töluvert.

Samkvæmt stjórnarskrá Kólumbíu eigi ríkisborgarar rétt á grunnheilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð í landinu. Atvinnuleysi í landinu árið 2017 hafi verið tæp 9% og hafi aukist lítillega á undanförnum árum. Þá sé misskipting auðs vandamál í landinu en þriðjungur landsmanna lifi undir fátæktarmörkum (þ.e. undir 1,9 bandaríkjadollurum á dag). Í landinu sé ráðuneyti heilbrigðis- og félagslegrar verndar (s. Ministerio de Salud y de Protección Social). Ráðuneytið beri ábyrgð á að hafa eftirlit með og samræma þjónustu á landsvísu. Lög um heilbrigðisþjónustu frá 2013 (s. La Ley Estatutaria de Salud) kveði á um að grunnheilbrigðisþjónusta séu mannréttindi og leggi bann við að synja sjúklingum um nauðsynlega þjónustu á grundvelli efnahagslegrar stöðu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um aðstæður kæranda í Líbanon og Venesúela, auk Kólumbíu. Kærunefnd gerir ekki athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar um Líbanon og Venesúela og niðurstöður stofnunarinnar um aðstæður kæranda þar. Þar sem kærandi er ríkisborgari Kólumbíu telur kærunefnd, eins og aðstæðum sé háttað í þessu máli, að aðeins sé þörf á að fjalla um aðstæður kæranda þar, sbr. m.a. 2. mgr. A-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins.

Kærandi byggir kröfu sína á því að að hann hafi aldrei búið í Kólumbíu og að hann geti ekki búið þar vegna þess að þar sé slæmt ástand og fátækt eins og í Venesúela þaðan sem hann hafi flúið. Hann hafi engin tengsl í Kólumbíu og þarfnist umönnunar fjölskyldu sinnar hér á landi.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila í Kólumbíu. Kærandi mótmælir því að vera sendur til Kólumbíu fyrst og fremst á efnahagslegum grunni. Efnahagslegar aðstæður teljast almennt ekki til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ekkert í gögnum málsins bendir til þess að annað eigi við í máli kæranda.

Með vísan til þeirra gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér um Kólumbíu telur nefndin að einstaklingar eigi almennt ekki á hættu að sæta ofsóknum þar í landi. Þá er ekkert sem bendir til þess að kæranda stafi hætta frá yfirvöldum eða öðrum aðilum, sem 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga tekur til, umfram það sem almennt gerist eða að slík hætta kunni að vera af þeim ástæðum sem 1. mgr. 37. gr. laganna tekur til.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Að virtum framburði kæranda, gögnum málsins og landaupplýsingum sem fjallað var um að framan er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur til Kólumbíu. Þá telur kærunefnd, með vísan til aðgerða yfirvalda og möguleika á vernd þar í landi, ekki raunhæfa ástæðu til að ætla að kærandi verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði honum gert að fara þangað. Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður kæranda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna og uppfylli hann ekki skilyrði ákvæðisins fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Kærandi hefur lýst því að hann hafi aldrei búið í Kólumbíu og þekki engan þar. Kærandi hafi eins og greint hafi verið frá búið við bág kjör alla sína ævi, fyrst í Líbanon, svo á Spáni og síðast í Venesúela. Hann hafi fengið afar takmarkaða menntun, eða einungis til 8 eða 9 ára aldurs og hafi því afar litla möguleika á að koma undir sig fótunum í Kólumbíu. Þá hafi hann slitið samskiptum við barnsmóður og barn sitt í Venesúela. Foreldrar hans og systkini séu búsett hér á landi og hann þarfnist umönnunar þeirra. Kærunefnd telur að þrátt fyrir erfiðar félagslegar aðstæður kæranda hafi hann ekki sýnt fram á með gögnum að hann sé sérstaklega berskjaldaður verði hann sendur til Kólumbíu. Kærandi er ungur og við ágæta heilsu. Hann talar spænsku og hefur sem ríkisborgari Kólumbíu aðgang að félagslegu kerfi þar í landi. Kærunefnd telur því að félagslegar aðstæður kæranda við komu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá kemur fram í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum.

Þá hefur kærandi greint frá erfiðum aðstæðum í Kólumbíu vegna ofbeldisbrota og glæpahópa í landinu. Í athugasemdum við 74. gr. kemur einnig fram að ákvæðið vísi til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í Kólumbíu er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á slíkar aðstæður í heimaríki. Telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að beiting ákvæðisins teljist tæk.

Kærandi hefur greint frá því að hann glími við andleg veikindi, m.a. kvíða og þunglyndi. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Af gögnum málsins, m.a. komunótum frá Göngudeild sóttvarna, verður ekki séð að ofangreindar aðstæður eigi við um kæranda. Sem ríkisborgari Kólumbíu stendur kæranda einnig til boða heilbrigðisþjónusta í Kólumbíu þurfi hann á henni að halda, vegna andlegra vandamála sinna.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geta m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum um 78. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að ákvæðið geti t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnist umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búi hér á landi.

Í reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 er fjallað um mat á umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Í 20. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Útlendingastofnun er heimilt að gefa út dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi. Útgáfa slíks dvalarleyfis er heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari eða hefur ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þarf að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfa að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að kærandi, sem er […] gamall einhleypur karlmaður, er ríkisborgari Kólumbíu og hefur dvalið í Líbanon og Venesúela. Kærandi hefur aldrei búið hérlendis og hefur ekki haft dvalarleyfi á Íslandi en báðir foreldrar hans og tvö systkini hafa tímabundin dvalarleyfi sem geta myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi verið á framfæri íslenskra stjórnvalda síðan hann kom hingað til lands í febrúar á þessu ári. Gögn sem kærandi hefur lagt fram benda ekki til þess að hann hafi verið á framfæri foreldra sinna í þann tíma sem mælt er fyrir um í 20. gr. reglugerðar um útlendinga.

Þegar litið er á gögn málsins og aðstæður kæranda í heild er ekki talið að rík umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi í málinu, né heldur verða fjölskyldu- og félagsleg tengsl kæranda við heimaríki metin sem svo að bersýnilega væri ósanngjarnt að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki svo sérstök tengsl við Ísland að þau skapi grundvöll fyrir dvalarleyfi samkvæmt 78. gr. laga um útlendinga.

Af greinargerð kæranda verður ráðið að hann telji að synjun á umsóknum hans um dvalarleyfi hér á landi feli í sér brot gegn friðhelgi einkalífs hans, heimilis og fjölskyldu, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafa, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og verður ekki talið að skömm dvöl hans hér leiði til þess að einkalíf hans og heimili hér á landi njóti friðhelgi. Þótt kærandi eigi foreldra hér á landi liggur fyrir að hann á barn í Venesúela og hefur áður notið fjölskyldulífs þar. Að mati kærunefndar á kærandi ekki kjarnafjölskyldu hér á landi og verður ekki talið að hann njóti hér fjölskyldulífs. Fellst kærunefnd því ekki á að synjun á umsókn hans um dvalarleyfi feli í sér brot á 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 19. febrúar 2018 og sótti sama dag um alþjóðlega vernd. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hefur hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum