Hoppa yfir valmynd
18. október 2016 Matvælaráðuneytið

Skýrsla um upprunaábyrgðir raforku í íslensku samhengi

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur látið gera úttekt á kerfi upprunaábyrgða með raforku á Íslandi, en því kerfi var komið á fót í Evrópusambandinu og innleitt hér með lögum nr. 30/2008 um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.  

Í skýrslunni kemur fram að innleiðing regluverks um upprunábyrgðir hér á landi er í samræmi við evrópska regluverkið sem liggur til grundvallar, en þó er bent á nokkur atriði sem skýrsluhöfundar telja að skýra megi betur, svo sem varðandi eftirlit og upplýsingagjöf.

Í skýrslunni er jafnframt á það bent að sala upprunaábyrgða úr landi geti skaðað ímynd Íslands, þ.e. þá ímynd að orkuframleiðsla landsins sé hrein og endurnýjanleg (og þar með orkunotkun). Þetta stafar af því að þegar upprunaábyrgðir vegna framleiðslu á endurnýjanlegri orku eru seldar frá Íslandi til Evrópu þarf við framsetningu gagna vegna raforkusölu á Íslandi að taka inn í útreikninga hér á landi samsvarandi magn af raforku sem seld er í Evrópu. Er það gert til að koma í veg fyrir tvítalningu. Fyrir vikið verður t.d. kjarnorka og jarðefnaeldsneyti hluti af framsetningu á uppruna raforku á Íslandi.

Í skýrslunni kemur nánar eftirfarandi fram varðandi áhrif á ímynd Íslands:

„Í fjölmiðlaumræðu um upprunaábyrgðir hefur verið nefnt að sala upprunaábyrgða úr landi geti haft neikvæð áhrif á ímynd Íslands og íslenskra fyrirtækja. Meðal annars hefur verið bent á að íslenskir matvælaframleiðendur reiði sig á hreina ímynd íslensku orkunnar við útflutning íslenskra afurða. Hafa í því sambandi vaknað áhyggjur af því að breytingar á viðskiptalegum uppruna íslenskrar raforku gæti orðið álitshnekkir fyrir atvinnugreinar eins og garðyrkju, ferðaþjónustu, kjötvinnslu og fiskvinnslu.

Hér verður ekki reynt að leggja mat á ímyndarleg áhrif sölu upprunaábyrgða frá Íslandi enda byggist það mat á margvíslegum þáttum sem vandasamt er að afla upplýsinga um. Þó má  nefna á að íslensk orkufyrirtæki, ferðaþjónustufyrirtæki og fyrirtæki í ýmsum greinum útflutnings vísa gjarnan til þess í alþjóðlegri markaðssetningu afurða sinna og þjónustu að notuð sé 100% endurnýjanleg orka. Þá hafa íslensk stjórnvöld lagt ríka áherslu á hreinleika íslenskrar orku í alþjóðlegum samskiptum og hafa m.a. vísað til endurnýjanlegra orkugjafa landsins í kynningarefni sem ætlað er að laða að erlenda fjárfesta. Því má ætla að sú ímynd að orkuframleiðsla landsins sé hrein og endurnýjanleg sé bæði ríkinu og einkaaðilum mikilvæg í viðskiptalegu tilliti.“

Sú spurning kann því að vakna hvers virði ímynd Íslands er samanborið við þann hagnað sem orkufyrirtækin gætu haft af sölu upprunaábyrgða úr landi. Fram til þessa hafa tekjur orkufyrirtækja af sölu upprunaábyrgð aðallega komið frá sölu úr landi, en einhver sala hefur einnig verið innanlands og hafa innlend fyrirtæki verið að kynna sér upprunaábyrgðir í ríkara mæli að undanförnu.

Formleg orkustefna Íslands liggur ekki fyrir en í gegnum tíðina hefur hún fyrst og fremst gengið út á mikilvægi aukin hlutfalls endurnýjanlegra orkugjafa. Ef markmið stjórnvalda er að tryggja ímynd Íslands og að framsetning á raforkusölu á Íslandi sé með þeim hætti að hér sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg raforka, þá virðist sala orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum úr landi ekki samræmast því markmiði.

Að mati iðnaðar- og viðskiptaráðherra er brýnt að staðinn sé vörður um þá ímynd og staðreynd að á Íslandi sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg orka. Til að ná framangreindum markmiðum, um ímynd Íslands í orkumálum, liggur því beinast við að beina ábyrgðinni að þeim orkufyrirtækjum sem selja upprunaábyrgðir úr landi og fá þau í lið með þeirri stefnu stjórnvalda að tryggja ímynd Íslands um hreina orkuframleiðslu. Í því skyni er mikilvægt að í eigendastefnu þeirra orkufyrirtækja sem eru í eigu hins opinbera verði lögð áhersla á mikilvægi þess að standa vörð um þá ímynd að á Íslandi sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg orku, og það sé hluti af markaðssetningu Íslands og íslenskra fyrirtækja, sem og almennri orkustefnu.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum