Hoppa yfir valmynd
27. mars 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 132/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 132/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20010017

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. janúar 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Moldóvu (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. desember 2019, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi hvað varðar brottvísun og endurkomubann, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 10. desember 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 17. og 18. desember 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 18. desember 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og henni ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Að ósk kæranda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. janúar 2020. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 17. janúar 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 23. janúar 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún og fjölskylda hennar hafi ekki aðgang að læknisþjónustu í Moldóvu vegna efnahagslegra aðstæðna. Þá verði hún fyrir miklum fordómum í Moldóvu þar sem hún tilheyri þjóðarbroti Rómafólks og hún óttist almennar aðstæður í heimaríki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga.

Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi verið búsett í borginni [...] í heimaríki sínu og að hún tilheyri minnihlutahópi Rómafólks þar í landi. Kærandi kveðst glíma við slæma andlega og líkamlega heilsu, hún fái mikla maga- og höfuðverki, glími við kvíða og minnisleysi og eigi erfitt með svefn. Kærandi óttist að deyja vegna ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimaríki. Hún hafi leitað til bráðadeildar Landspítalans þann 19. desember 2019 vegna kviðverkja og fengið lyf með sér heim. Kærandi óttist auk þess lögreglu í heimaríki, enda mismuni hún Rómafólki. Kærandi hafi leitað til lögreglu vegna innbrots en dregið kæruna til baka vegna vantrausts á yfirvöldum. Þá hafi kærandi flúið vegna slæmrar framkomu almennings í garð Rómafólks.

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að heimaríki kæranda sé eitt það fátækasta í Evrópu og að spilling sé mikil. Þá viðgangist alvarleg mannréttindabrot í ríkinu. Að því er varðar aðstæður Rómafólks kemur fram að hópurinn verði fyrir útskúfun úr samfélaginu og glími við alvarlega mismunun á öllum stigum þjóðfélagsins. Þá búi meirihluti Rómafjölskyldna í dreifbýli og á sérgreindum svæðum og stór hluti þeirra búi jafnframt við lélegan húsakost og hafi ekki aðgang að neysluvatni eða rafmagni. Beri heimildum einnig saman um að lagalegar breytingar og umbótaverkefni sem hafi verið ætlað að rétta stöðu Rómafólks í heimaríki kæranda hafi ekki skilað árangri. Þá hafi nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi t.d. lýst aðgerðaáætlunum stjórnvalda í málaflokknum sem misheppnuðum á öllum sviðum og miklu áhyggjuefni.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hún uppfylli skilyrði þess að teljast flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, n.t.t. að hún óttist ofsóknir vegna þess að hún tilheyri hópi Rómafólks. Með hliðsjón af málsatvikum og gögnum málsins sé ljóst að aðstæður hennar nái því alvarleikastigi að teljast ofsóknir í skilningi laga um útlendinga. Í ljósi framlagðra heimilda og vegna þeirrar alvarlegu mismununar sem kærandi hafi þegar orðið fyrir megi telja að ótti hennar við slíkar ofsóknir sé ástæðuríkur. Kærandi byggir enn fremur á því að yfirvöld í heimaríki hennar hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda þá vernd sem hún þarfnist. Af hálfu kæranda er því haldið fram að oft sé Rómafólk í verri stöðu leiti það til lögreglunnar heldur en ef það láti það hjá líða. Þá byggir kærandi á því að það geti hvorki talist raunhæft né sanngjarnt að ætlast til þess að hún flytjist um set innanlands til að komast hjá ofsóknum.

Í umfjöllun um varakröfu um að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga er vísað til áðurgreindra aðstæðna Rómafólks í heimaríki kæranda. Telur kærandi að líta beri svo á að hún sé fórnarlamb viðvarandi mannréttindabrota í heimaríki sínu sem yfirvöld verndi hana ekki gegn. Kærandi vísar til athugasemda við 74. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga, en kærandi tilheyri einum viðkvæmasta minnihlutahópi í Moldóvu og aðstæður hennar jafnist á við erfiðar félagslegar aðstæður. Þá glími kærandi við líkamleg og andleg veikindi.

Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi hvað varðar brottvísun og endurkomubann hennar. Það sé mat kæranda í ljósi upplýsinga um stöðu Rómafólks í Moldóvu að umsókn hennar geti ekki talist bersýnilega tilhæfulaus. Þá bendir kærandi á að ástæður flótta hennar séu ekki eingöngu efnahagslegar heldur hafi hún sætt hótunum og óttist frekari ofsóknir í heimaríki. Þá sé ósanngjarnt að kærandi fái endurkomubann þar sem hún sé heilsuveil og það myndi útiloka að hún gæti heimsótt son sinn sem býr í Hollandi. Að framangreindu virtu sé rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann úr gildi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað moldóvsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé moldóvskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Moldóvu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Moldova 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Moldova 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Moldova 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 25. apríl 2018);
  • From Words to Deeds: Addressing Discrimination and Inequality in Moldova (Equal Rights Trust, júní 2016);
  • Nations in Transit – 2018 – Moldova (Freedom House, 11. apríl 2018);
  • Country Policy and Information Note. Moldova: Human Rights in Transnistria (U.K. Home Office, 20. júní 2017);
  • Human Rights in Moldova (Civil Rights Defenders, 17. janúar 2017);
  • Freedom in the World 2019 – Moldova (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Moldova: Roma (Minority Rights Group International, janúar 2018);
  • Concluding observations to the third periodic report of the Republic of Moldova. E/C.12/MDA/CO/3 (UN Economic and Social Council, 6. október 2017);
  • ECRI Report on the Republic of Moldova (fifth monitoring cycle) (Council of Europe, 2. október 2018);
  • Report of the Special Rapporteur on minority issues on her mission to the Republic of Moldova. A/HRC/34/53/Add.2 (Commission on Human Rights, 11. janúar 2017) og
  • Upplýsingar af vefsíðu bandaríska velferðarráðuneytisins, https://www.ssa.gov/.

Moldóva er lýðræðisríki með þingbundinni stjórn og u.þ.b. 3,5 milljónir íbúa. Moldóva er aðili að ýmsum alþjóðlegum mannréttindasamningum, m.a. samningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og valkvæðri bókun við samninginn, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu ásamt flóttamannasamningnum. Moldóva er jafnframt aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Moldóva er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki.

Samkvæmt skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árin 2018 og 2019 séu helstu vandamál tengd mannréttindum í Moldóvu, pyndingar og slæmar aðstæður í fangelsum og geðsjúkrahúsum ríkisins, handahófskenndar handtökur og varðhald, spilling hjá háttsettum embættismönnum, takmarkað frelsi fjölmiðla og ofbeldi gegn einstaklingum með fötlun á vistheimilum. Moldóvsk stjórnvöld hafi rannsakað tilkynningar um brot á mannréttindum en hafi í fáum tilfellum tekist að saksækja og refsa opinberum starfsmönnum vegna slíkra brota. Þá hafi færst í aukana að embættismenn séu sóttir til saka með valkvæðum hætti og refsileysi sé enn vandamál. Stjórnarandstaðan hafi haldið því fram að hún verði fyrir auknum þrýstingi af hálfu yfirvalda og dæmi séu um að einstaklingar séu settir í varðhald af pólitískum ástæðum. Árið 2018 hafi saksóknari hafið 71 sakamál gegn starfsmönnum löggæslustofnana ríkisins og hafi verið ákært í 27 málum gegn 46 lögreglumönnum. Samkvæmt moldóvskum lögum geti almennir borgarar sótt um skaðabætur vegna mannréttindabrota. Stjórnarskrá ríkisins kveði á um ábyrgð ríkisins þegar stjórnvöld brjóti á réttindum einstaklinga m.a. með þeim hætti að svara ekki umsóknum tímanlega eða vegna misferlis ríkisins í sakamálum. Dómar í slíkum málum séu oft vægir jafnframt sem þeim sé ekki framfylgt. Þá séu starfandi bæði umboðsmaður mannréttinda og barna í ríkinu.

Í skýrslu alþjóðasamtaka um minnihlutahópa (Minority Rights Group International) kemur fram að u.þ.b. 22% þjóðarinnar tilheyri minnihlutahópum, þar af séu 7% Rúmenar, 6,6% Úkraínumenn, 4,1% af Gagauz uppruna, 4,1% Rússar, 1,9% Búlgarar, 0,5% Rómafólk og 0,3% tilheyri öðrum hópum. Þar kemur fram að Rómafólk sé einn viðkvæmasti minnihlutahópurinn í Moldóvu. Fjöldi Rómafólks í ríkinu sé opinberlega talinn vera um 9.000 en leiðtogar rómasamfélaga telji að rauntölur séu nær 250.000. Rómafólk verði fyrir mismunun á mörgum sviðum daglegs lífs, m.a. varðandi atvinnu, heilbrigðisþjónustu og menntun. Þá sé mansal, heimilisofbeldi, barnaþrælkun og barnahjónabönd algengari hjá þessum hópi en öðrum. Í ofangreindum gögnum kemur fram að Moldóva hafi tekið mikilvæg skref í baráttunni gegn mismunun á grundvelli þjóðernis með innleiðingu laga um bann við mismunun og setningu aðgerðaráætlunar um mannréttindi þjóðernishópa. Samkvæmt skýrslu Freedom House frá árinu 2019 sé minnihlutahópum ekki mismunað í moldóvskri löggjöf en sumir hópanna eigi þó fáa fulltrúa á vettvangi stjórnmála. Mikilvægum áfanga hafi verið náð í kosningum í júní 2015 þar sem tvær Rómakonur hafi verið kosnar í sveitastjórn sem hafi verið mikilvægt skref í ljósi þeirrar mismununar sem Rómafólk, sérstaklega konur, standi frammi fyrir í stjórnkerfi ríkisins.

Samkvæmt skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá árinu 2017 hafi Moldóva tekið upp aðgerðaráætlun til að styðja réttindi Rómafólks fyrir árin 2016 til 2020. Í skýrslunni kemur þó fram að nefndin harmi takmarkaðan árangur af fyrri aðgerðaráætlun fyrir árin 2011 til 2015 þar sem fjárveiting til verkefnisins hafi verið ófullnægjandi. Þá lýsi nefndin yfir áhyggjum af því að Rómafólk verði enn fyrir mismunun í daglegu lífi. Árangur hafi þó náðst með tilkomu fulltrúa rómasamfélagsins (e. Roma Community Mediators) á sviði félagsmála, heilbrigðis og menntunar. Þó hafi ekki allar stöður verið fylltar sökum skorts á fjármagni og takmörkuðum pólitískum vilja svæðisbundinna stjórnvalda. Þá hvetji nefndin moldóvsk stjórnvöld til að styðja betur við Rómafólk með því að bæta aðgengi þeirra sem búi á dreifbýlum svæðum að félagslegum bótum og útgáfu nauðsynlegra persónuskilríkja. Skortur á skilríkjum leiði einnig til takmarkaðs aðgengis Rómafólks að heilbrigðiskerfinu. Að lokum hafi nefndin gert athugasemd við lágt skráningarhlutfall og hátt brottfall nemenda af rómauppruna úr skólakerfinu og hvatt moldóvsk stjórnvöld til að bregðast við. Í skýrslu Evrópuráðsins frá 2018 kemur fram að of snemmt sé að meta árangur nýrrar aðgerðaráætlunar en 37% aðgerðanna úr áætlun áranna 2011-2015 hafi verið framfylgt. Það sé þó vandkvæðum bundið að fylgjast með árangri aðgerðanna þar sem tölur um fjölda Rómafólks séu á reiki auk þess sem skortur sé á tölfræði frá moldóvskum stjórnvöldum.

Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska velferðarráðuneytinu (e. Social Security Administration) sé til staðar almannatryggingakerfi í Moldóvu. Þá eigi allir íbúar ríkisins rétt á atvinnuleysisbótum séu þeir á skrá hjá vinnumálastofnun ríkisins og hafi verið starfandi í samtals níu mánuði á síðastliðnum tveimur árum fyrir skráningu. Þá verði einstaklingar að hafa getu og vilja til að vinna auk þess að vera ekki með skattskyldar tekjur.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Aðalkrafa kæranda er reist á því að hún óttist ofsóknir vegna þjóðernis, n.t.t. vegna þess að hún tilheyri hópi Rómafólks. Byggir kærandi á því að Rómafólk sæti fordómum og mismunun í heimaríki sem lýsi sér t.d. þannig að þau búi við skert aðgengi að mennta-, heilbrigðis- og félagslegu kerfi landsins.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar hafa einstaklingar af rómauppruna staðið frammi fyrir mismunun í heimaríki kæranda. Í samstarfi við alþjóðastofnunar séu stjórnvöld hins vegar að reyna að sporna gegn slíkri mismunun. Í lögum ríkisins sé fólki sem tilheyri minnihlutahópum ekki mismunað og hafi aðgerðaráætlun verið innleidd sem miði að því að draga úr mismunun gegn einstaklingum sem tilheyri þjóðernisminnihluta. Þá hafi ríkið gripið til aðgerða til að bæta stöðu Rómafólks og þrátt fyrir að aðgerðaráætlunum hafi ekki verið framfylgt að fullu hafi einhver árangur náðst og slík vinna sé enn í gangi. Af framangreindum gögnum má jafnframt ráða að sum þau vandamál Rómafólks sem tengjast menntun og heilbrigðisþjónustu stafi af skorti á persónuskilríkjum sem hamli aðgengi þeirra að ýmissi opinberri þjónustu. Kærandi hefur hins vegar lagt fram moldóvskt vegabréf. Það er því mat kærunefndar að kæranda standi almennt til boða opinber þjónustu í heimaríki þó svo að hún kunni að verða fyrir mismunun þegar hún leitar sér slíkrar þjónustu.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að sú mismunun sem framagreindar skýrslur benda til að kærandi geti orðið fyrir í heimaríki sé hvorki þess eðlis að hún feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum kæranda né að hún hafi eða geti haft sömu eða sambærileg áhrif á kæranda og slík brot, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur greint frá erfiðum aðstæðum í heimaríki. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu moldóvskra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Kærandi hefur ekki lagt fram eða vísað til gagna sem leiða að því líkur að staða hennar sé önnur og verri en framangreindar skýrslur benda til.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er það mat kærunefndar að þeir ríkisborgarar Moldóvu sem telji að á réttindum sínum sé brotið geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála. Þá sé til staðar kerfi í Moldóvu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Hægt sé m.a. að leita til stofnunar sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sem og embættis umboðsmanns í ríkinu. Af þeim gögnum sem kærunefndin hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík en þó má ráða af þeim að Rómafólk verði fyrir einhverri mismunun. Engu að síður er það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að aðstæður kæranda séu með þeim hætti að stjórnvöld í heimaríki hennar skorti vilja eða getu til að veita kæranda viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi hefur borið fyrir sig að hún búi við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki sökum uppruna síns og að þar sem hún tilheyri hópi Rómafólks sé hún fórnarlamb viðvarandi mannréttindabrota í heimaríki sem yfirvöld verndi hana ekki fyrir. Svo sem fram hefur komið metur kærunefnd það svo, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að yfirvöld í heimaríki kæranda vinni að bættri stöðu Rómafólks í ríkinu og eigi kærandi þess kost að leita aðstoðar yfirvalda í Moldóvu vegna stöðu sinnar.

Í framangreindum athugsemdum við 74. gr. kemur jafnframt fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi hefur borið fyrir sig ýmsa líkamlega kvilla. Kærandi sé með magasár sem valdi verkjum og þrátt fyrir að hafa áður verið í meðferð vegna þeirra séu verkirnir komnir aftur. Kærandi leitaði til bráðadeildar Landspítalans 19. desember 2019 vegna kviðverkja og eftir skoðun lækna þar fékk hún þá lyfið Omeprazol sem notað er til að meðhöndla vandamál tengd maga. Kærandi glími einnig oft við mígreni. Þá kvaðst kærandi glíma við mikinn kvíða, erfiðleika með svefn og minnisvandamál. Aðspurð greindi kærandi frá því að hún hafi fengið lyf í heimaríki sínu. Veikir einstaklingar hefðu aðgang að heilbrigðisþjónustu í Moldóvu en það þurfi að greiða fyrir þá þjónustu og kærandi eigi ekki fjármuni til þess. Af framangreindum gögnum og framburði kæranda verður ekki annað séð en að kærandi hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu vegna veikinda sinna í heimaríki, þó svo að sú þjónusta verði aðeins veitt gegn gjaldi. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við málsmeðferð og ákvörðun Útlendingastofnunar

Mælt er fyrir um leiðbeiningaskyldu stjórnvalda í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar kemur fram að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Að mati kærunefndar hefði verið betur farið að leiðbeina henni um að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar um veikindi sín. Þá kemur fram á bls. 19 í nánari rökstuðningi að kærandi eigi dóttur í Þýskalandi en samkvæmt framburði sínum á kærandi son í Hollandi. Bendir þetta til þess að ekki hafi verið nægilega vandað til verka við meðferð málsins. Það er mat kærunefndar að ljóst sé að ofangreindir annmarkar hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins og er því ekki ástæða til þess að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar af þeim sökum.

Frávísun, brottvísun og endurkomubann

Með vísan til atvika málsins tekur kærunefnd undir forsendur Útlendingastofnunar varðandi frávísun kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 3. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 540/2017.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og ákvarðað endurkomubann, sbr. 2. tölul.b-liðar. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Ástæða þess er að Útlendingastofnun mat umsókn kæranda bersýnilega tilhæfulausa í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga en ákvæðið veitir stjórnvöldum heimild til að fella niður frest sem að jafnaði er veittur útlendingi til að yfirgefa landið sjálfviljugur í kjölfar ákvörðunar um að yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus eða hann hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn.

Lög um útlendinga skilgreina ekki hvað felist í orðalaginu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til þess að orðið tilhæfulaus lýsir einhverju sem byggir ekki á staðreyndum eða á ekki við rök að styðjast. Þá leiðir af orðalagi ákvæðisins að tilhæfuleysi umsóknar þarf að vera bersýnilegt, þ.e. blasa við stjórnvaldi við skoðun málsins. Með vísan til orðalags ákvæðisins og til samræmis við ákvæði tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl telur kærunefnd að umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna ef eftirfarandi tilvik eiga einkum við þegar:

a) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda varða ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til,

b) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda séu ekki þess eðlis eða nái ekki því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita umsækjenda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, og

c) frekara mat og gagnaöflun, þar með talið viðtal við umsækjanda, hafi ekki breytt ofangreindu upphaflegu mati.

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún tilheyri minnihlutahópi Rómafólks í heimaríki og að hún verði fyrir mismunun af þeim sökum. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til gagna um heimaríki kæranda og aðstæður hennar þar, að það hafi frá upphafi málsmeðferðarinnar verið bersýnilegt að málsástæður hennar vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til. Kærandi greindi frá því að hún glímdi við ýmsa líkamlega og andlega kvilla en þrátt fyrir að hún hafi ekki verið spurð ítarlega út í þessi veikindi eða verið leiðbeint um að leggja fram gögn varðandi þau veikindi þá er ljóst af svörum hennar og þeim gögnum sem kærandi lagði fram að ekki sé um að ræða veikindi eða aðstæður sem nái þeim alvarleikaþröskuldi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti.

Að mati kærunefndar eru líkur á því að ákvörðun um niðurfellingu frests hafi varnaðaráhrif sem þjóni því markmiði að stuðla að fækkun bersýnilega tilhæfulausra umsókna frá öruggum upprunaríkjum. Fyrir liggur mat Útlendingastofnunar á því að framangreindu markmiði verði ekki náð með öðru og vægara móti. Kærunefnd telur sig ekki hafa forsendur til að draga í efa þetta mat. Er það því mat kærunefndar að 12. gr. stjórnsýslulaga standi því ekki í vegi að kæranda verði ekki veittur frestur til að yfirgefa landið. Þá fær kærunefnd ekki séð að 1. mgr. 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna komi í veg fyrir að framangreindu úrræði verði beitt í máli kæranda.

Með vísan til framangreinds er fallist á það mat Útlendingastofnunar að umsókn kæranda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, og heimilt að veita kæranda ekki frest til að yfirgefa landið sjálfviljug.

Eins og að framan greinir hefur kæranda verið vísað frá landinu og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar hér á landi. Þá hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að fella niður frest til að kærandi geti yfirgefið landið sjálfviljug. Liggur því fyrir að kærandi dvelst ólöglega í landinu, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og er því heimilt að brottvísa henni.

Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 10. desember 2019. Kærandi kveður í greinargerð að erfitt sé fyrir hana að búa í heimaríki vegna þess að hún tilheyri minnihlutahópi af þjóðarbroti Rómafólks og hafi slæman aðgang að heilbrigðisþjónustu. Þá geti hún ekki leitað til yfirvalda vegna spillingar og uppruna síns. Það er mat kærunefndar, í ljósi grundvallar brottvísunar kæranda og með vísan til umfjöllunar kærunefndar um aðstæður í heimaríki kæranda að ótti kæranda við hótanir í heimaríki og erfiðleikar sem tengjast aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegi ekki nægilega þungt til að talið verði að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í máli hennar. Aðspurð út í sérstök tengsl við Ísland eða önnur Schengen-ríki kvaðst kærandi eiga son í Hollandi. Af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hennar og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kæranda eða nánustu aðstandenda hennar, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Er ákvörðun Útlendingastofnunar er varðar brottvísun og endurkomubann því staðfest.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum