Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Ísland veitir 130 milljónum í efnahagslega neyðaraðstoð við Úkraínu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra - mynd

Íslensk stjórnvöld mun veita alls 130 milljónum króna í sérstakan sjóð Alþjóðabankans í efnahagslega neyðaraðstoð við Úkraínu, eða því sem nemur alls einni milljón Bandaríkjadala. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynnti um viðbótarframlag Íslands til sjóðsins á ráðherrafundi um stuðning við Úkraínu í gær sem haldinn var í tengslum við vorfundi Alþjóðabankans í Washington.  

Volodomír Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundabúnað en viðstaddir voru Denys Smyhal forsætisráðherra Úkraínu og fjármálaráðherrann Sergii Marchenko, sem lýstu brýnni þörf úkraínskra stjórnvalda fyrir fjárhagslegan stuðning til að standa undir samfélagslegri grunnþjónustu og til enduruppbyggingar. Þórdís Kolbrún undirstrikaði í ávarpi sínu algjöra samstöðu Íslands með Úkraínu. „Úkraínska þjóðin berst fyrir lífi sínu og frelsi. Við viljum leggja allt það af mörkum sem við getum til þess að styðja úkraínsku þjóðina til sigurs gegn árás Rússa. Þessi efnahagslegi stuðningur er hluti af því,“ segir hún.

Þórdís Kolbrún tekur í dag þátt í ráðherrafundi kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hjá Alþjóðabankanum, þar sem viðbrögð bankans við efnahagslegum áhrifum innrásar Rússa í Úkraínu verða einnig ofarlega á baugi.

 
  • Volodomír Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundabúnað - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum