Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2000 Dómsmálaráðuneytið

Viðræður dómsmálaráðherra viðbandarísk stjórnvöld um samvinnu í lögreglumálum

Fréttatilkynning
Nr. 2/ 2000


Í janúarmánuði hefur Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra átt viðræður við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Barböru J. Griffiths og embættismenn á vegum bandarískra stjórnvalda um lögreglusamvinnu á milli ríkjanna tveggja. Viðræður þessar eru haldnar í kjölfar heimsóknar Sólveigar til Bandaríkjannna í nóvember á síðasta ári þar sem hún átti fund með Janet Reno dómsmálaráðherra og háttsettum embættismönnum í löggæslumálum og forsvarsmönnum í baráttu gegn eiturlyfjavandanum. Var þar rætt um að koma á samvinnu milli ríkjanna, m.a. um aðferðir við að koma á grenndarlöggæslu, þjálfun lögreglumanna bæði hvað varðar fíkniefnalöggæslu og þjálfun við landamæraeftirlit, nýjasta tækjabúnað sem beitt er í við leit að fíkniefnum og aðra fíkniefnalöggæslu svo og aukið eftirlit til þess að uppræta flutning fíkniefna á milli ríkjanna.

Dagana 11. og 12. janúar s.l. ræddu Sólveig Pétursdóttir og embættismenn í dómsmálaráðuneytinu við sérfræðinga frá stofnunum sem heyra undir bandaríska dómsmálaráðuneytið og starfa við sendiráð Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn. Þetta eru Arthur L. Kersey frá fíkniefnadeild dómsmálaráðuneytisins (Drug Enforcement Adminstration) og John G. Hughes frá Útlendingastofnuninni (Immigration & Naturalization Service). Á fundunum kom m.a. fram áhugi bandarískra stjórnvalda að koma á sérstökum námskeiðum fyrir íslenska lögreglumenn um landamæraeftirlit og vegabréfaskoðun. Næsta vor og haust er stefnt að yfirgripsmiklum námskeiðum á vegum Lögregluskóla ríkisins fyrir alla lögreglumenn í landinu í tilefni af gildistöku Schengen samningsins svo og starfsmenn í tollgæslu og útlendingaeftirliti. Stefnt er í því að þjálfa sérstaklega íslenska lögreglumenn sem vinna við landamæraeftirlit á flugvöllum og höfnum. Býður bandaríska útlendingastofnunin aðstoð á því sviði en sérfræðingar hennar hafa m.a. þjálfað landamæraverði á öðrum Norðurlöndum. Bandarísk stjórnvöld hafa einnig boðist til þess að veita íslenskri lögreglu margvíslega aðra þjálfun, s.s. rannsókn efnahagsbrota, rannsóknaraðferðir lögreglu og löggæslu og flugvöllum. Loks kom fram á fyrrgreindum fundum fram áhugi á að efla samstarf á milli ríkjanna tveggja um sérstakt eftirlit með litlum flugvélum sem fljúga á milli Bandaríkjanna og Evrópu með millilendingu á Íslandi.

Þann 18. janúar 1999 ræddu Sólveig Pétursdóttir og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins Arnar Guðmundsson, við fulltrúa bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), Robert Patton. Var þar m.a. rætt um tilhögun og skipulag lögreglunáms í Bandaríkjunum og hvort þangað megi sækja hugmyndir varðandi fyrirkomulag lögreglunáms hér á landi. Um þessar mundir standa fyrir dyrum ýmsar breytingar á tilhögun lögreglunáms við Lögregluskóla ríkisins og stefnt er að því að fjölga útskrifuðum lögreglumönnum frá skólanum verulega á þessu ári auk eflingar á framhaldsdeild skólans. Á fundinum með fulltrúa alríkislögreglunnar var einkum rætt um möguleika þess að íslenskir lögreglumenn tækju þátt í sérstökum námskeiðum og fengju þjálfun á vegum FBI um nýjustu aðferðir við rannsóknir tölvubrota og brot tengd alþjóðlegri glæpastarfsemi svo sem peningaþætti. Myndi slík þekking án efa nýtast við skipulag framhaldsnáms hjá Lögregluskólanum fyrir sérhæfingu rannsóknarlögreglu á þessum sviðum hér á landi.

Á næstu vikum verður unnið nánar að því að koma á því skipulagða samstarfi sem rætt hefur verið á fundum með fulltrúum ríkjanna tveggja.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
18. janúar 2000.
Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira