Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fléttan: Skræða ehf. innleiðir hugbúnaðarlausnir á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins

Skræða ehf., í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hlýtur styrk að upphæð 9 m.kr. til verkefnis sem miðar að því að innleiða sértæka hugbúnaðarlausn fyrir stafræn mælitæki og matslista, til greiningar og meðferðarmats á geð-, þroska- og hegðunarröskunum. Með innleiðingu stafrænna lausna verður leitast við að auka skilvirkni og bæta þjónustu Geðheilsusviðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (GHH) við skjólstæðinga sína, með styttingu biðlista að meginmarkmiði. 

Verkefnið miðar að því að meta hvernig svokölluð QUERA-lausn fellur að fyrirkomulagi og verkferlum við fyrirlögn greiningaprófa/matskvarða hjá skjólstæðingum GHH og Heilaörvunarmiðstöðvarinnar. Einnig verður kannað hvort hin nýja lausn leiði til vinnusparnaðar og nýs verkfyrirkomulags og þar með styttingu biðlista og aukins gegnumflæðis skjólstæðinga. Vonast er til þess að niðurstöður þessa verkefnis gefi vísbendingu um mögulegan ávinning fyrir önnur svið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og aðrar heilbrigðisstofnanir hvers starfsemi felur í sér fyrirlagnir mælitækja og matskvarða á formi staðlaðra spurninga. 

Skræða er hugbúnaðarfyrirtæki á sviði heilbrigðislausna sem stofnað var árið 2007 í þeim tilgangi að bjóða frekari valmöguleika fyrir rafræn sjúkraskrárkerfi á Íslandi. Síðan þá hafa sjúkraskrár hundruð þúsunda Íslendinga verið færðar í lausnir Skræðu af ýmsum heilbrigðisstofnunum og einkareknum læknastofum.

Átta verkefnum hefur verið boðið að ganga til samninga um styrki úr Fléttunni. Fléttan eru styrkir sem veittir eru til nýsköpunarfyrirtækja sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni kerfisins almennt. Áhersla var lögð á að úthluta styrkjum sem styðja við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðistækni, -vörum og -þjónustu. Styrkveiting er háð því skilyrði að umsækjendur eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir verkefnin átta sem hlotið hafa styrk úr Fléttunni á vef sínum næstu daga. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum