Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Opnun hg-stöðvar í Grafarvogi - 2002

Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
við afhendingu nýs húsnæðis heilsugæslunnar í Grafarvogi
22. febrúar 2002



Ágætu Grafarvogsbúar.

Þetta nýja húsnæði Heilsugæslunnar í Grafarvogi sem nú verður tekið í notkun í Spönginni er staðfesting á þeirri áherslu heilbrigðisyfirvalda að byggja upp grunnþjónustuna - að byggja upp og tryggja heilsugæslu í hæsta gæðaflokki sem allir hafa aðgang að við vægu verði.

Að mínu áliti er uppbygging heilsugæslunnar skynsamleg, rökrétt og besti kostur fyrir þá sem nýta sér hana.

Þetta segi ég af því ég þekki heilsugæsluna af eigin raun, af því fjölmargar rannsóknir vísindamanna leiða þetta í ljós og af því reynsla manna víða um lönd kennir okkur af öflug grunnþjónusta tryggir best almennt heilsufar þjóða.

Uppbygging heilsugæslunnar er líka skynsamleg fyrir okkur sem skattgreiðendur vegna þess að þjónusta heilsugæslunnar er í mjög mörgum tilvikum ódýrasti kosturinn fyrir einstaklinginn og samfélagið, þegar öllu er til skila haldið.

Í heilsugæslunni, eins og við höfum skipulagt hana, felst líka sú mikilvæga hugsun og stefna, að byggja upp þjónustuna í grennd við þá sem þurfa á henni að halda útí hverfum borgar og bæja.

Almennt séð á heilsugæslan á að mínum dómi að setja sér þrjú grundvallarmarkmið:

· að veita íbúunum góða og persónulega læknisþjónustu
· að vera fyrsti valkostur þeirra sem þurfa á almennri heilbrigðisþjónustu að halda og,
· að stuðla að bættu heilbrigði almennings með forvörnum og fræðslu.

Í sjálfu hugtakinu heilsugæsla felst, að hagsmunir sjúklinganna eru settir í öndvegi og þannig á það að vera. Þetta á að vera rauði þráðurinn í starfseminni af því öll heilbrigðisþjónustan byggist á grunnþjónustu heilsugæslunnar.

Grafarvogsbúar hafa um langt árabil búið við þröngan kost heilsugæslunnar í þessum borgarhluta, en nú hefur verið bætt úr þessu með myndarlegum hætti. Húsnæðisþrengslin heyra sögunni til og ný glæsileg stöð tekin í notkun og ég er viss um að sú góða þjónusta, sem starfsmenn veittu á gamla staðnum, verður enn betri við nýjar aðstæður.

Fagna ég sérstaklega því góða samstarfi sem tekist hefur í þessu máli milli heilbrigðis- og borgaryfirvalda í þessu máli og við fulltrúa Þyrpingar sem leigja okkur húsnæðið.

Þegar maður lítur til baka er það í rauninni kraftaverk hvernig starfsfólki heilsugæslunnar hér í Grafarvogi hefur tekist að sinna þeim sem leitað hafa til hennar á liðnum árum á þeim fermetrum sem stöðin hafði til umráða.

Heilsugæslan tók hér til starfa fyrir tíu árum og hóf þá starfsemina á 300 fermetrum. Á þeim tíu árum sem liðin eru frá því stöðin hóf starfsemi sína hefur íbúum í Grafarvogi fjölgað um eitt þúsund á hverju ári og frá árinu 1997 hafa heimsóknir til heilsugæslunnar hér tvöfaldast eða meira. Það er með öðrum orðum fyllilega tímabært að opna þessa nýju 1540 fermetra stöð.

Nú búa rúmlega sex af hundraði landsmanna í Grafarvogi, börn innan við fimm ára eru rúmlega 8% barna á þessum aldri, en hér búa hlutfallslega fáir aldraðir. Það er von mín að nýja heilsugæslustöðin muni þjóna þessu unga og kraftmikla samfélagi í Grafarvogi jafn vel og helst betur en bestu stöðvar gera og samskipti heilsugæslunnar og íbúanna hér geti orðið öðrum gott fordæmi.

Til upplýsingar vil ég að endingu taka fram að í ársbyrjun ákvað ég að næsta heilsugæslustöð rísi í hinu nýja Sala-hverfi í Kópavogi og að stöðvar í Heima/Vogahverfinu og í Hafnarfirði verði settar sem fyrst á framkvæmdaáætlun.

Góðir gestir.

Öll heilbrigðisþjónustan byggist á grunnþjónustu heilsugæslunnar og því er hver nýr áfangi í uppbygginu hennar er sérstakt ánægjuefni í mínum huga, burtséð frá því hvort það er hér á höfuðborgarsvæðinu, eða í afskekktu byggðalagi við ysta haf, sem við tökum í notkun nýja heilsugæslustöð, nýtt húsnæði eða fjölgum læknum.

Reynslan kennir okkur að þar sem grunnþjónusta heilsugæslunnar er öflug og virk þar eru þjóðirnar heilsuhraustastar. Ég hef áður sagt að ég sé heilsugæslumaður í þeim skilningi að ég tel æskilegast, og það er mín persónulega reynsla, að það sé mér og samfélaginu fyrir bestu að leita jafnan fyrst til heilsugæslulæknis og láta hann svo um að vísa mér áfram til annarra ef með þarf.

Úrræðin í heilsugæslunni eru ódýrust og eðlilegust að mínu dómi miðað við hvernig við Íslendingar höfum ákveðið að byggja upp heilbrigðisþjónustuna í landinu.

Ég geng þess hins vegar ekki dulinn, enda þykist ég vera nokkuð vel læs, að í hópi heilsugæslulækna eru skiptar skoðanir um hvernig byggja skuli upp þessa þjónustu.

-------
Heilsugæslan er í kreppu – heilsugæslan er á umbrotatímum segja menn. Sjálfur vil ég ekki kveða svo sterkt að orði. Mér er ljóst eftir löng og mikil samtöl við heilsugæslulækna að óánægju gætir með laun og það hvernig laun heilsugæslulækna hér á höfuðborgarsvæðinu verða til.

Ég útiloka ekki breytingar í þessum efnum, hvorki launalega né varðandi rekstrarform. Ég vil taka fram að kæmi fram eindreginn vilji til þess frá heilsugæslulæknum til dæmis, að losna undan Kjaranefnd, þá sé ég ekkert athugavert við að kanna möguleika á því eins skjótt og verða má og er tilbúinn til að leggja á mig umtalsvert erfiði, ef það mætti verða til að slá á óánægju manna.

Með öðrum orðum er ég reiðubúinn til að skoða allar þær hugmyndir sem mega verða til þess að slá á óánægju manna með breyttu launafyrirkomulagi þar sem hagsmunum beggja er til skila haldið og þýðir að fyrir aukin afköst í heilsugæslunni fái menn nokkuð fyrir snúð sinn.

Varðandi þær deilur sem upp hafa komið vegna nýlegra breytinga á reglugerðum um útgáfu vottorða, vil ég ítreka yfirlýsingar mínar um að þær breytingar eiga ekki að hafa áhrif á kjör lækna, og vona ég að úrskurður Kjaranefndar falli á næstu dögum og staðfesti það.

Að lokum þetta: Ég óska Grafarvogsbúum til hamingju með nýju stöðina og hvet alla starfsmenn heilsugæslunnar til að flytja með sér í nýju stöðina þann góða starfsanda og viljann til að gera vel sem einkenndi þjónustuna á gamla staðnum.


____________
Talað orð gildir









Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum