Hoppa yfir valmynd
12. mars 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Ársfundur heilbrigðistækna

Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
á ársfundi um heilbrigðistækni
12. mars 2002

Góðir gestir.

Mér er það sérstakt ánægjuefni að fá tækifæri til að segja hér nokkur orð. Það er nefnilega ánægjuleg tilbreyting fyrir heilbrigðismálaráðherra á hverjum tíma að fjalla um heilbrigðismál sem uppbyggingu og möguleika til framtíðar, en ekki bara útgjöld og hallarekstur.

Þróun síðustu ára hefur einkennst af því að nútíminn hefur verið að draga á framtíðina. Það sem okkur fannst fyrir örfáum árum vera í mikilli fjarlægð nálgast okkur nú með vaxandi hraða.

Fyrir tveimur til þremur árum fannst mönnum til dæmis hugmyndin um að heilbrigðistæknifyrirtækin veltu þriðjungi af framlögunum til heilbrigðismála vera fjarlægur draumur.

Þetta eru nú staðreyndir.

Fyrirtæki á borð við Íslenska erfðagreiningu, Flögu og Össur eru dæmi um það sem getur gerst á heilbrigðistæknisviðinu, og hér nefni bara þessi þekktu fyrirtæki sem dæmi. Minna þekkt fyrirtæki eru að gera mjög merkilega hluti mörg hver og ef vel verður haldið á spöðunum þá er ég sannfærður um að upp spretta ný fyrirtæki á þessu sviði, sem geta orðið flögur og össurar framtíðarinnar.

Eitt af fyrstu verkum mínum í embætti var að skipa nefnd, sem fékk það hlutverk að gera tillögu um framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss. Niðurstaðan er öllum kunn. Það verður byggt upp við Hringbraut.

Þar sé ég fyrir mér að rísa muni hin nýja þungamiðja þekkingar og rannsókna á Íslandi. Þar verður með einum eða öðrum hætti undirstaðan sem heilbrigðistæknifyrirtækin munu sækja í. Tæknigarðar, eða þekkingarþorpið, Landspítalinn, Háskóli Íslands, Íslensk erfðagreining, og rými fyrir ný fyrirtæki á sviði þekkingar og tækni.

Mín skoðun er sú að einmitt á heilbrigðistæknisviðinu höfum við allar forsendur til að búa okkur til vettvang, eða svið, þar sem við getum þróað hugmyndir, tækni og þekkingu og þar sem við getum ekki bara staðið milljóna þjóðum fyllilega á sporði, heldur ættum við að geta skákað þeim í harðri samkeppni á alþjóðlegum markaði.

Þetta segi ég vegna þess að við búum yfir gríðarlegri þekkingu á tilteknum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Hér eru að mörgu leyti kjöraðstæður til rannsókna og þróunar, og saman eru þessir möguleikar auðlind sem við eigum að nýta okkur til hins ítrasta.

Það er okkar, stjórnmálamannanna, að skapa hina almennu umgjörð á þessu sviði. Það er svo ykkar, vísindamannanna, frumkvöðlanna og þeirra sem lifa og hrærast á þessu sviði atvinnulífsins að hrinda í framkvæmd því sem ykkur dettur í hug.

Sameiginlega er það hlutverk okkar að leggja okkur fram um að fjölga framtíðarmöguleikunum, sem við ætlum að bjóða næstu kynslóð upp á hér í þessu landi. Heilbrigðistæknisviðið er í þessu sambandi rökrétt og eðlilegt. Það er líka samfélagsleg skylda okkar að búa svo um hnútana, að unga fólkið kjósi að mennta sig á heilbrigðistæknisviði, og það eru líka hagsmunir okkar að gefa þeim kost á að starfa við bestu aðstæður hér, sem nú þegar starfa erlendis.


_____________
Talað orð gildir




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum