Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla um ófrjósemisaðgerðir - umræða á Alþingi

Skýrsla um ófrjósemisaðgerðir,
Umræður á Alþingi
Ræða Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

Virðulegur forseti.

Ég vil í upphafi máls míns færa skýrslubeiðanda, háttvirtum 12. þingmanni Reykvíkinga, þakkir fyrir að eiga frumkvæði að gerð skýrslunnar sem er tilefni umræðunnar hér.

Hér ræðum við alvarleg og viðkvæm mál, sem menn hafa ef til vill talað um og vitað um í áratugi, án þess eðli málsins samkvæmt að þau mál hafi endilegt átt heima á hinum opinbera vettvangi.

Mín skoðun er sú að jafn mikilvægt og það er að ræða þessa afmörkuðu fortíð heilbrigðisþjónustunnar, þá er mikilvægt að taka tillit til og sýna þeim virðingu, sem á einhvern hátt eiga hér hlut að máli.

Við skulum ekki gleyma að við erum að tala um aðgerðir sem byggðust á lögum númer 16 frá 1938 sem voru í gildi til 1975. Í fyrsta lagi er fortíðin þess vegna ekki langt að baki og í öðru lagi getur stundum verið snúið að bregða mælistiku nútímans á fortíðina, eða hugmyndaheim næst síðustu aldamótakynslóðar.

Virðulegur forseti.

Þegar ég hafði kynnt mér efni skýrslunnar var mitt fyrsta verk að kalla til höfundinn, sem fenginn var til að ráðast í þetta verk og þakka fyrir gott dagsverk. Unnur Birna Karlsdóttir, sagnfræðingur, á hrós skilið, enda hefur hún leyst vandasamt verkefni með prýði og þótt nokkuð hafi dregist að svara fyrirspurninni þá vonast ég til að menn sjái af skýrslunni sjálfri að gerð hennar er tímafrek fyrir utan þann tæknilega undirbúning sem nauðsynlegur er til að rannsaka jafn viðkvæm mál.

Í öðru lagi er rétt að fram komi að ég ræddi það strax við höfundinn hvort hún væri tilbúin til að vinna frekari upplýsingar í hendur heilbrigðismálaráðherra og mér er ánægja að segja frá því hér í upphafi umræðunnar, að sú verður raunin.

Höfundur skýrslunnar hefur fallist á þá beiðni mína að kanna frekar tiltekna þætti sem fram koma í því verki sem hér hefur verið lagt fyrir Alþingi og er það starf þegar hafið.

Í fyrsta lagi hyggst höfundur gera frekari úttekt á heildarframkvæmd laganna nr. 16 frá 1938, en nákvæmari rannsókna er þörf að hennar mati til að átta sig betur á, hvort ástæða væri til að rannsaka tiltekna þætti málsins enn frekar.

Í öðru hefur höfundur skýrslunnar fallist á að fara frekar yfir tiltekin mál sem getið er um og gætu hugsanlega flokkast sem vafamál á einhvern hátt. Hér er ekki síst horft til þess að svara því með nákvæmari hætti, hvort dæmi eru um og þá að hve miklu leyti framkvæmd laganna víkur frá upphaflegum markmiðum þeirra.

Í þriðja lagi varpar höfundur í skýrslu sinni fram spurningum um tiltekna þætti í framkvæmd laganna sem hún hefur fallist á að skoða og reyna að skýra nánar. Í þessu sambandi þykir mér til dæmis eðlilegt að gera frekari grein fyrir þeim mikla mun sem er á ófrjósemisaðgerðum kvenna og karla sem sumpart er eðlilegur en þarfnast nákvæmari skoðunar.

Að endingu hefur Unnur Birna Karlsdóttir tekið að sér að bera saman með nákvæmari hætti framkvæmd laganna hérlendis og svipaðra laga í nálægum löndum, sem er eðlilegt þar sem lögin hér byggðust að verulegu leyti á lögum sem sett höfðu verið í Danmörku og Noregi.

Þetta er vandasamt og tímafrekt mál, en sem heilbrigðismálaráðherra tel ég rétt að skoða tiltekna þætti frekar.

Virðurlegur forseti.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þessar:

Lögin sem ófrjósemisaðgerðirnar falla undir voru í gildi í 38 ár og tóku þau gildi eins og áður sagði 1938.

Fyrsta aðgerðin var gerð það ár og sú síðasta árið 1975, þegar ný lög tóku gildi. Alls voru framkvæmdar 726 ófrjósemisaðgerðir. Þar af voru 722 í flokknum "vananir", og 4 aðgerðir á körlum í flokknum "afkynjanir", þ.e. skurðaðgerð þegar kynkirtlar eru numdir brott.

Í skýrslunni kemur fram að tilgangurinn með fyrrnefndu aðgerðinni (vönun) hafi verið sá að gera viðkomandi ófrjóan án þess að raska kyngetu, en þeirri síðarnefndu (afkynjun) hafi auk þess verið ætlun um að svipta mann getu og kynhvöt.

98 prósent þeirra sem gengust undir ófrjósemisaðgerðir ("vananir") samkvæmt lögum nr. 16/1938 voru konur, en alls gengust 707 konur undir aðgerð og 19 karlar (4 "afkynjanir" meðtaldar).

Um 55 af hundraði þeirra er gengust undir ófrjósemisaðgerðir bjuggu í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum, og um 45% voru úr öðrum kaupstöðum og sveitum landsins.

83,4% ófrjósemisaðgerða, eða alls 602 aðgerðir, voru framkvæmdar af læknisfræðilegum ástæðum, það er að segja vegna sjúkdóma, eða langvarandi veikinda viðkomandi, hættu á veikindum konu á meðgöngu eða misförum hennar eða barns í fæðingu, sterkum líkum á fósturskaða, ef um frekari meðgöngur yrði að ræða, eða erfðagöllum.

Í 16,6% ófrjósemisaðgerða, eða alls 120 aðgerðum, var andlegur vanþroski eða geðveiki sögð meginástæða aðgerðar.

Um 90% þeirra umsókna um ófrjósemisaðgerðir sem komu til framkvæmda voru undirritaðar af þeim sem gekkst undir aðgerð, eða alls 646 umsóknir.

Alls 17 umsóknir voru undirritaðar af þeim er gera átti ófrjóan ásamt öðrum aðila. Oftast voru það foreldrar en einnig systkini eða skipaðir tilsjónarmenn.

59 einstaklingar voru gerðir ófrjóir án þess að undirrita beiðni um það. Í meiri hluta þeirra tilfella voru foreldrar umsækjendur eða í 42 tilvikum. Í 10 þeirra sóttu foreldrar um sem skipaður tilsjónarmaður barns síns þar sem það hafði náð 16 ára aldri.

Fulltrúar barnaverndarnefnda undirrituðu alls fimm beiðnir um aðgerðir sem komu til framkvæmda og framfærslufulltrúi bæjarfélags undirritaði eina. Þess utan eru dæmi um að frumkvæði að því að fólk var gert ófrjótt hafi komið frá einhverjum utan fjölskyldunnar. Hér er átt við fulltrúa félagsmálastofnana, barnaverndarnefnda, bæjarstjórna eða lækna. Upplýsingar um fjölda slíkra málsatvika liggja ekki endanlega fyrir.

Virðulegur forseti.

Hér var drepið á helstu niðurstöður skýrslunnar, en lengra mál mætti hafa um hana almennt og tiltekna þætti hennar. Ég endurtek það álit mitt, að ég tel afar mikilvægt að upplýsingar þessar liggi nú fyrir og verði með því eðlilegur hluti sögu okkar. Eðli málsins samkvæmt tel ég nauðsynlegt að kafa frekar ofan í tiltekna þætti skýrslunnar, eins og ég sagði í upphafi máls míns, og hef þegar fengið ágætan höfund hennar til að vinna áfram með málið og er hún þegar byrjuð á því verki.

Lögin sem heimiluðu ófrjósemisaðgerðir voru á sinni tíð fyrst og fremst sett hér, eins og annars staðar, með það að markmiði til að heimila ófrjósemisaðgerðir á þroskaheftu og geðsjúku fólki. Þau voru að sönnu hluti af viðurkenndri heilbrigðisstefnu á Norðurlöndum og víðar, en eins og fram kemur í sögulegu yfirliti skýrslunnar má eflaust finna dæmi um það einhvers staðar að tilhneiging hafi verið til að túlka lögin rúmt.

Virðulegur forseti.

Umræða um þessa fortíð okkar er mikilvæg vegna þess að okkur er hollt að horfast augu við hana í þessu máli eins og öðrum og framtíðarinnar vegna er brýnt að læra af reynslu fortíðar. Það er von mín að þessi umræða hér í dag og það samkomulag, sem ég hef gert við höfund skýrslunnar um framhaldsrannsóknir, megi verða til þess að þeir þættir þessa viðkvæma máls, sem á annað borð er unnt að upplýsa og fjalla um, muni að endingu liggja opinberlega fyrir.

_____________
Talað orð gildir




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum